Ársuppgjör Félagsbústaða hf. fyrir árið 2009


Félagsbústaðir, sem eru hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, eiga og reka
félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað er af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
Markmið félagsins er að starfa í þágu almannaheilla og skal rekstur þess vera
sjálfbær 

Rekstur og afkoma
Rekstrartekjur Félagsbústaða h.f.  á árinu 2009  námu 2.453 millj.kr., sem er
23% aukning tekna frá árinu á undan. Hækkunin skýrist annars vegar af
verðlagshækkun leigu og fleiri íbúðum í útleigu og hins vegar af  200 millj.kr.
sértekjum vegna samstarfsverkefnis Reykjavíkurborgar og ríkisins vegna
búsetuúrræða fyrir geðfatlaða í húsnæði á vegum Félagsbústaða. 
Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnskostnað og matsbreytingu fjárfestingaeigna
jókst um 36% og nam 1.118 millj.kr. en var 824 millj.kr árið á undan. 
Tap á rekstri félagsins á árinu 2009  nam hins vegar 3.154 millj.kr. miðað við
3.688 millj.kr. tap  árið á undan.  Rekstrartöp áranna 2008 og 2009  skýrast
annars vegar af verðlagshækkun langtímalána og gengistapi og hins vegar af
lækkun á gangvirði fjárfestingaeigna í útleigu 

Efnahagur
Breytingar hafa átt sér stað á skráningu og mati fasteigna á vegum
Fasteignaskrár ríkisins sem miða að því að fasteignamatið endurspegli betur
gangvirði eigna en áður. Þar sem fasteignamatið sem tekur gildi í árslok 
miðast  nú við verðlag í febrúar ár hvert er fasteignamati fjárfestingaeigna
Félagsbústaða  lækkað sem nemur lækkun vísitölu íbúðaverðs á tímabilinu frá
febrúar til ársloka 2009. 
Heildareignir félagsins í árslok 2009 námu 32,6 ma.kr. í árslok 2009 eftir 1,6
ma.kr. niðurfærslu vegna verðþróunar fasteigna á árinu.  Eigið fé félagsins nam
7,6 ma.kr. í árslok og lækkaði um 3,1 ma. kr. frá árinu á undan. 
Eiginfjárhlutfall er 23% en var 32% í árlok 2008. 
Rekstur félagsins  skilaði  383 millj.kr. veltufé á árinu 2009 og 348 millj.kr
handbæru fé. 

Kaup og sala íbúða
Á árinu 2009 voru keyptar 7 íbúðir á almennum markaði  þ.a. 6 þjónustuíbúðir
fyrir aldraða að Lindargötu 57 auk þess sem lokið var við byggingu  6 íbúða við
þjónustuíbúðakjarna fyrir aldraða að Furugerði 1 og 6 íbúða sambýlis að
Kleppsvegi 90.  Á árinu voru seldar 3 íbúðir og nam fjölgun íbúða því 16 á
árinu 2009 en fjölgaði um  83 íbúðir á árinu 2008.  Félagsbústaðir áttu 2158
íbúðir í árlok 2009  þar af 1848 almennar leiguíbúðir og 310 þjónustuíbúðir
fyrir aldraða ásamt tilheyrandi þjónusturýmum. Íbúðaeign félagsins í árslok
2009 nam sem svarar 18 íbúðum á hverja 1000 íbúa í Reykjavík, eða 4,6% af öllu
íbúðarhúsnæði í borginni 

Horfur
Miklar breytingar hafa átt sér stað á  leigumarkaði íbúðarhúsnæðis í borginni.
Framboð íbúða á almennum leigumarkaði hefur aukist og leitt til lækkunar á
leiguverði og dregið úr eftirspurn eftir félagslegu leiguhúsnæði í borginni. Þá
hafa þeir sem  treysta sér til þess að leigja á almennum markaði flutt úr
húsnæði Félagsbústaða sumpart þar sem dregið hefur saman með leiguverði
Félagsbústaða og almenna markaðarins aðallega á stærri íbúðum og sumpart vegna
meira úrvals um staðsetningu sem hentar betur aðstæðum leigjandans. 
Að öllum líkindum mun þetta aukna  framboð ganga að einhverju leiti til baka
með vonandi bættum efnahag  á næstu árum en til lengri tíma gæti hér verið
tækifæri til þess að skapa aðstæður til þess að efla almennan leigumarkað á
höfuðborgarsvæðinu og um leið auka svigrúm  fyrir Félagsbústaði og önnur
félagsleg leigufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu  til þess að sinna betur þeim sem
minna mega sín.

Attachments

arsreikningur felagsbustaa hf  2009 undirr..pdf felagsbustair - lykiltolur 2009.pdf