Afkoma Landsvirkjunar árið 2009


Ársreikningur Landsvirkjunar var í dag, 19. mars 2010, samþykktur á fundi
stjórnar. Reikningurinn er samstæðureikningur sem tekur til Landsvirkjunar og
dótturfélaga. 

Helstu atriði ársreiknings 2009 eru þessi:

• Hagnaður ársins nam 193 milljónum Bandaríkjadala (USD) sem svarar til um 24,4
  milljarða króna á núverandi gengi.

• EBITDA nam 271,7 milljónum USD að teknu tilliti til áhrifa innleystra
  áhættuvarna. EBITDA hlutfall er 79,4% af veltu.

• Rekstrarhagnaður eða EBIT nam 157,3 milljónum USD að teknu tilliti til
  innleystra áhættuvarna eða sem nemur 46% af veltu.

• Mat á virði innbyggðra afleiða í tengslum við orkusölusamninga fyrirtækisins
  hækkaði um 253,3 milljónir USD á árinu 2009. Beitti Landsvirkjun afar
  varfærnum forsendum við matið.

• Handbært fé frá rekstri nam 197 milljónum USD eða um 24,9 milljörðum króna á
  núverandi gengi.

• Vegna alþjóðlegrar lánsfjárkreppu ákvað Landsvirkjun að gæta aðhalds í
  rekstri, draga úr fjárfestingum og gæta að lausafjárstýringu.


     o Fjárfestingar voru 120,5 milljónir USD samanborið við 374,8 milljónir
       USD á árinu 2008.

     o Rannsóknir og þróun námu 23,6 milljónum USD samanborið við 48,4
       milljónir USD á árinu 2008.
     
     o Afborganir lána voru hærri en nýjar lántökur sem nam 4,6 milljónum USD.

     o Handbært fé í árslok nam 194,2 milljónum USD en að auki hefur fyrirtækið
       aðgang að samningsbundnu veltiláni og er óádreginn hluti þess 281,6
       milljónir USD. Laust fé er því alls 475,8 milljónir USD eða sem nemur um
       60 milljörðum króna sem ásamt fé frá rekstri dugar til að mæta öllum
       skuldbindingum fyrirtækisins inn á árið 2012.

• Heildareignir Landsvirkjunar nema 4,8 milljörðum USD eða um 608 milljörðum
  króna á núverandi gengi. Skuldir nema 3,2 milljörðum USD eða sem nemur um
  410 milljörðum króna.

• Eigið fé Landsvirkjunar var 1,56 milljarðar USD eða sem svarar til um 198
  milljarða króna á núverandi gengi. Eiginfjárhlutfall var 32,6%.


Ársreikningur Landsvirkjunar er gerður samkvæmt alþjóðlegum
reikningsskilastöðlum (IFRS) og er hann í Bandaríkjadölum sem er
starfrækslugjaldmiðill móðurfélagsins. Samkvæmt IFRS eru innleystar
áhættuvarnir vegna álverðstengingar í orkusölusamningum færðar á meðal
fjármagnsliða. Stjórnendur Landsvirkjunar telja gefa gleggri mynd af rekstri
fyrirtækisins að færa innleystar álvarnir með tekjum fyrirtækisins og birta
einnig  rekstrarreikning með þeim hætti í sérstöku yfirliti sem er fremst í
ársreikningnum. Breytingin hefur ekki áhrif á afkomu, efnahag eða sjóðstreymi,
en hún hefur áhrif á einstaka liði innan rekstrarreikningsins.

Rekstrartekjur lækkuðu um 152,2 milljónir USD á milli áranna 2008 og 2009 sem
skýrist  einkum af lægra orkuverði til álfyrirtækja vegna lækkunar á álverði á
heimsmarkaði auk þess sem tekjur af orkusölu á innlendum markaði lækkuðu á
milli ára í Bandaríkjadölum vegna lækkunar á gengi íslensku krónunnar.
Tekjufærðar innleystar áhættuvarnir tengdar álverði námu 42,5 milljónum USD en
árið á undan nam gjaldfærsla vegna slíkra áhættuvarna 54,8 milljónum USD. Að
teknu tilliti til áhættuvarna nemur lækkun tekna frá fyrra ári 54,9 milljónum
USD. 

Rekstrarkostnaður án afskrifta og virðisrýrnunar nam 70,7 milljónum USD á árinu
en var 100,5 milljónir USD árið áður. Fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld námu
95,1 milljón USD sem skýrist aðallega af hækkun á gangvirði innbyggðra afleiða
í orkusölusamningum sem tengdir eru álverði auk lægri neikvæðs gjaldeyrismunar.
Gangvirðisbreytingar og gengistap eru að mestu leyti óinnleyst og verður að
hafa það í huga við mat á afkomu fyrirtækisins. Meðalnafnvextir langtímalána
voru um  2,46% á árinu 2009 en þeir voru um 4,51% árið áður.

Horfur á árinu eru góðar. Álverð er viðunandi um þessar mundir þó óvissa sé um
þróun næstu missera. Þá er vaxtastig á helstu mörkuðum afar lágt sem nýtist
Landsvirkjun vel þar sem mikill meirihluti lána ber breytilega vexti. Því
standa vonir til að sjóðsmyndun verði góð um sinn. Afkoma fyrirtækisins mun sem
fyrr ráðast að miklu leyti afgangvirðisbreytingum á innbyggðum afleiðum og
gengisþróun. Fyrirtækið hefur aðgang að lausafé og lánum sem ásamt fé frá
rekstri mun tryggja að fyrirtækið getur mætt núverandi skuldbindingum sínum inn
á árið 2012. Stöðugt er unnið að endurfjármögnun og  eru stjórnendur þess
fullvissir að henni verði lokið fyrir þann tíma. 

Landsvirkjun mun ekki ráðast í nýjar stórframkvæmdir nema að fjármögnun sé
tryggð en stöðugt er unnið að endurfjármögnun eldri lána og fjármögnun nýrra
orkuverkefna. Fyrirspurnir og heimsóknir frá hugsanlegum orkukaupendum sýna að
eftirspurn eftir raforku frá Landsvirkjun er mikil og vonast fyrirtækið eftir
því að það skili sér í hærra orkuverði í nýjum sölusamningum 


Nánari upplýsingar veitir Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, í
síma 515 9000.

Ársreikningur Landsvirkjunar verður lagður fyrir aðalfund fyrirtækisins 16.
apríl nk.


Helstu stærðir ársreiknings í þúsundum Bandaríkjadala: Sjá viðhengi.

Attachments

arsreikningur lv 2009 samsta.pdf frettatilkynning til kauphallar 2009.pdf