Ársuppgjör Félagsbústaða hf. fyrir árið 2011


Félagsbústaðir, sem eru hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, eiga og reka félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað er af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Markmið félagsins er að starfa í þágu almannaheilla og skal rekstur þess vera sjálfbær.

 

Rekstur og afkoma

Rekstrartekjur Félagsbústaða hf. á árinu 2011  námu 2.546 millj.kr., sem er 6% aukning tekna frá árinu á undan aðallega vegna verðlagshækkunar leigu.   

Rekstrargjöld hækkuðu milli ára um 8% en af einstökum rekstrarþáttum hækkaði viðhaldskostnaður um tæp 6% en framlag til afskrifta leiguskulda hækkaði um 11% og hefur þessi gjaldfærsla hækkað úr 1,5% af leigutekjum árið 2008 í 3,8% árið 2011, eða úr 30 millj.kr. í 96 millj.kr.  Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnskostnað og matsbreytingu fjárfestingaeigna jókst um 4% milli ára og nam 1.178 millj.kr. eða 46% af leigutekjum  en var 47% árið á undan.

Fjármagnskostnaður hækkaði um 86% milli ára, eða úr 1.175 millj.kr. árið 2010 í 2.183 millj.kr. árið 2011. Þessi umtalsverða hækkun fjármagnskostnaðar stafaði annarsvegar af hækkun verðtryggðra lána á árinu 2011 og hinsvegar af gengishagnaði og höfuðstólslækkun erlendra lána sem gerð voru upp í lok ársins 2010.

Á árunum 2008-2010 nam niðurfærsla á fasteignamati fjárfestingaeigna samtals tæpum 4 milljörðum kr., en sú niðurfærsla gekk að mestu leiti til baka á árinu 2011 með 3,9 milljarða kr. hækkun á matsvirði þessara eigna samfara auknum umsvifum á húsnæðismarkaði á árinu 2011.  

Hagnaður ársins 2011 nam því 2,9 milljörðum kr. á árinu 2011 miðað við 1,9 milljarða tap árið á undan.

Veltufjármyndun rekstrar nam 292 millj.kr. á árinu 2011 og handbært fé frá rekstri 334 millj.kr.

 

Efnahagur

Heildareignir Félagsbústaða hf. í árslok 2011 námu 36,6 milljörðum.kr., en leiguíbúðir félagsins eru metnar samkvæmt fasteignamati sem er gangverð umreiknað til staðgreiðslu í febrúar ár hvert ásamt verðþróun samkvæmt vísitölu fasteignaverðs til ársloka 2011.

Eigið fé í árslok 2011 nam 8,7 milljörðum.kr. og hefur hækkað um 3 milljarða.kr. milli ára. Eiginfjárhlutfall var 24% í árslok 2011 miðað við 18% árið 2010.

 

Kaup og sala íbúða

Á árinu 2011 voru keypt 19 sambýli með samtals 66 litlum íbúðum af Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í tengslum við flutning á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga en auk þess voru keyptar 4 íbúðir og 12 seldar  á almennum markaði. Fjölgun íbúða nam því samtals 57 íbúðum á árinu og heildarfjöldi íbúða 2208  talsins í árslok 2011.

 

Horfur

Stóraukið framboð íbúða á almennum leigumarkaði í ársbyrjun 2009 leiddu til lækkunar á leiguverði sem hefur síðan farið hækkandi með auknum umsvifum á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Leiguverð hjá Félagsbústöðum hækkaði samkvæmt verðlagi um 5,3% á árinu 2011 en samkvæmt nýrri vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu sem Þjóðskrá Íslands hefur nýverið kynnt hækkaði leiguverð á almennum leigumarkaði um 11% á sama tíma, eða rúmlega tvöfalt meira en leiguverð hjá Félagsbústöðum. Gera má ráð fyrir að á yfirstandandi ári dragi enn frekar úr framboði á leigumarkaði í Reykjavík með tilheyrandi hækkunum á leiguverði og útlit fyrir að aukin eftirspurn verði eftir félagslegu leiguhúsnæði í kjölfarið nema áform um eflingu leigumarkaðarins gangi eftir með auknum stuðningi í formi húsnæðisbóta og stofnun öflugra leigufélaga.

 

Sjá viðhengi.


Attachments