Ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2011

Meginniðurstöður ársreiknings 2011


Ársreikningur 2011 sem hér birtist er skiptur niður í þrjá kafla; yfirlit og samstæðureikningur, rekstrar- og efnahagsreikningur og sjóðsstreymi sjóða í A hluta og sjóða í B hluta, sundurliðun rekstrar deilda og sjóða í A hluta og sjóða í B hluta.

 

Uppgjör ársins 2011 er samkvæmt fyrirmynd í auglýsingu um reikningsskil sveitarfélaga nr. 790/2001. Rekstrareiningum er skipt í A hluta og B hluta þar sem í A hluta er aðalsjóður sveitarfélagsins auk annarra stofnana og sjóða sem fjármagnaðir eru að hluta eða að öllu leyti af skatttekjum. Í B hluta eru stofnanir og fyrirtæki sveitarfélagsins sem eru að hálfu eða í meirihluta í eigu sveitarfélagsins en eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.

 

Í samstæðureikningi kemur fram yfirlit rekstrar borið saman við fjárhagsáætlun,  efnahagsreikningur og sjóðsstreymi.

 

Heildarrekstrartekjur bæjarsjóðs og stofnana hans á árinu 2011 voru 3.033 millj.kr. og rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði  2.881 millj.kr., ef frá eru talin innri viðskipti. Afkoma af reglulegri starfsemi var jákvæð um 152 millj.kr., afskriftir 162 mkr. Afkoma fjármagnsliða var mun verri en í fyrra, gjöldin voru 291 millj.kr. umfram tekjur og tapið því 301 millj.kr. eftir fjármagnsliði. Verðbólgan hefur farið vaxandi og krónan veikst, þannig að niðurstaða fjármagnsliða var mjög slæm miðað við skuldsetningu.

 

Afkoma aðalsjóðs og stofnana í A hluta er neikvæð um  76 millj.kr. fyrir fjármagnsliði og neikvæð um 261 millj.kr. eftir fjármagnsliði.

Afkoma sjóða í B hluta er jákvæð um 66 millj.kr. fyrir fjármagnsliði, en neikvæð um 40 millj.kr. eftir fjármagnsliði.

 

Heildarveltufjármunir í árslok 2011 voru um 562 millj.kr. að frádregnum kröfum á eigin fyrirtæki. Heildarfastafjármunir voru um 5.237 millj.kr. í árslok 2011. Skuldir alls, skammtíma- og langtímaskuldir, voru um 4.312 millj.kr. að frádregnum kröfum á eignarsjóð og á eigin fyrirtæki. Áfallnar lífeyrisskuldbindingar voru 1.034 millj.kr. í árslok 2011 og eigið fé 453 millj.kr.

 

 


Attachments