Þriðjudaginn 14. apríl 2015 var ársreikningur Snæfellsbæjar 2014 afgreiddur í bæjarráð til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Eins og sveitarstjórnarlög kveða á um, skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn. Fyrri umræða um ársreikninginn var þriðjudaginn 14. apríl 2015 og síðari umræða verður miðvikudaginn 6. maí n.k.
Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt reikningsskilum sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum en í B-hluta eru fyrirtæki sem eru í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar, sem eru: Félagsheimilið Klifi, Félagsheimilið Röst, Veitustofnanir Snæfellsbæjar, Hafnarsjóður Snæfellsbæjar, Húsnæðisnefnd Snæfellsbæjar, Leiguíbúðir með hlutareign og Dvalarheimilið Jaðar.
Rekstur Snæfellsbæjar góður
Rekstur Snæfellsbæjar gekk vel á árinu og var rekstrarniðurstaðan nokkuð betri en áætlun gerði ráð fyrir.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 1.907 millj. króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 1.800 millj. króna. Rekstrartekjur A- hluta námu um 1.497 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 1.418 millj. króna.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta var jákvæð að fjárhæð um 214 millj. króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri afkomu upp á 77 millj. króna. Rekstrarafkoman varð því töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða sem nemur 137 millj. króna. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð að fjárhæð 127,8 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðiri afkomu upp á 34 millj. króna. Afkoma A-hluta varð því betri sem nemur 82 millj. króna. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 2.605 millj. króna skv. efnahagsreikningi en þar af nam eigið fé A-hluta 2.043 millj. króna.
Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu um 907 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins nam 139 stöðugildum í árslok.
Veltufé frá rekstri var 200,5 millj. króna og veltufjárhlutfall er 1,05. Handbært frá rekstri var 204,8 millj. króna.
Heildareignir bæjarsjóðs námu um 3.436 millj. króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi um 4.379 millj. króna í árslok 2014. Heildarskuldir bæjarsjóðs námu um 1.394 millj. króna og í samanteknum ársreikningi um 1.774 millj. króna, og lækkuðu þar með milli ára um 39 milljónir. Eigið fé bæjarsjóðs nam um 2.043 millj. króna og eigið fé í samanteknum reikningsskilum nam um 2.605 millj. króna í árslok 2014. Eiginfjárhlutfall er 59,44% á á árinu 2014 en var 57,44 árið áður.
Snæfellsbær fjárfesti á árinu fyrir 318,9 milljónir í varanlegum rekstrarfjármunum og ný lán voru tekin að upphæð 59 milljónir. Greidd voru niður lán að fjárhæð 155,7 milljónir.
Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum er 84,62% hjá sjóðum A-hluta, en var 87,62% árið 2013, og 86,35% í samanteknum ársreikningi en var 90,62 árið 2013. Skv. 64. gr. 2. málsgr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%
Álagningarhlutfall útsvars var 14,52%. Álagningahlutfall fasteignaskatts nam 0,44% á íbúðarhúsnæði og álagningarhlutfall á aðrar fasteignir nam 1,55%.
Nánari upplýsingar veitir bæjarstjóri, Kristinn Jónasson, í síma 433-6900, eða á kristinn@snb.is
Hægt verður að nálgast ásreikninginn á bæjarskrifstofunni Klettsbúð 4, Hellissandi, sími 433-6900. Einnig á heimasíðu Snæfellsbæjar, www.snb.is.