Ríkisútvarpið ohf. (RÚV) með jákvæða rekstrarafkomu 2016
- Áframhaldandi hallalaus rekstur.
- Hagnaður fyrir skatta er 1.630 m.kr. en eftir skatta 1.429 m.kr.
- Þar af er hagnaður af reglulegri starfsemi 95 m.kr. fyrir skatta en einskiptis söluhagnaður vegna sölu á byggingarrétti er 1.535 m.kr.
- Margvísleg hagræðing hefur skilað sér og það jafnvægi sem komið var á í rekstri félagsins árið 2015 helst áfram. Nýr þjónustusamningur fyrir árin 2016-2019 var undirritaður á árinu og tryggir hann meiri festu í starfsemi RÚV en verið hefur um langa hríð.
- Eiginfjárhlutfall félagsins batnar umtalsvert og fer úr 6,2% í 23,8%.
- Þrátt fyrir jákvæða afkomu ríkir enn óvissa um framtíðarhorfur vegna mikillar skuldsetningar vegna eldri lífeyrissjóðsskuldbindinga frá gamalli tíð.
Helstu niðurstöður ársuppgjörs RÚV eru að hagnaður er 1.630 m.kr. en þar af er einskiptis söluhagnaður vegna sölu á byggingarrétti 1.535 m.kr. Hagnaður er af reglulegri starfsemi RÚV sem nemur 95 m.kr. fyrir skatta. Félagið mun ekki greiða skatta af hagnaðinum vegna uppsafnaðs taps frá fyrri tíð. Markmiðið með sölu byggingarréttarins er að greiða niður skuldir félagsins. Í lok ársins 2015 var eiginfjárhlutfall RÚV 6,2% en er nú 23,8% eftir sölu byggingarréttarins.
Breytingar síðustu ára hafa skilað umtalsverðri hagræðingu í rekstri félagsins. Tekist hefur að hagræða í ytri umgjörð og rekstri en verja dagskrá eins og kostur er. Jafnvægi sem náðist í rekstri félagsins á árinu 2015, helst á árinu 2016 og útlit er fyrir að svo verði í náinni framtíð. Nýr þjónustusamningur RÚV og mennta- og menningarmálaráðuneytisins var undirritaður á árinu og gildir hann til ársloka 2019. Stöðugildi voru að meðaltali 258 á árinu en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, voru 259 árið 2015, 297 árið 2013 og 324 árið 2008.
Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri:
„Jákvæð rekstrarniðurstaða annað árið í röð undirstrikar árangur af umbótaferli sem hefur komið á jafnvægi í rekstri RÚV samhliða breyttum dagskráráherslum. Þennan árangur þökkum við samtakamætti frábærs starfsfólks RÚV. Hann hefur náðst þrátt fyrir krefjandi rekstraraðstæður og ítrekaða lækkun á útvarpsgjaldi á undanförnum árum. Sala á byggingarrétti skilar RÚV umtalsverðum söluhagnaði sem leiðir til mikillar skuldalækkunar og mikilla bóta á eigin fé félagsins. Nýr þjónustusamningur sem undirritaður var á síðasta ári tryggir loks fyrirsjáanleika og öryggi í tekjum félagsins til næstu ára. Á hinn bóginn er félagið enn of skuldsett vegna lífeyrissjóðsskuldbindinga frá gamalli tíð og er það mikill baggi á starfseminni í dag en á þeirri yfirskuldsetningu þarf að taka. Staða RÚV er sterk, hvort heldur litið er til rekstrarlegs árangurs eða notkunar og viðhorfs almennings. Þjónustuhlutverk RÚV við allt samfélagið til framtíðar er hlutverk sem við sem við nálgumst af metnaði og auðmýkt á degi hverjum. Það eru spennandi tímar framundan.“
Framtíðarhorfur og efnahagur
Í nýjum þjónustusamningi er kveðið á um skuldbindingar og fjármögnun RÚV á árunum 2016-2019. Samningurinn tryggir stöðugleika í opinberri fjármögnun á næstu árum eftir ítrekaðan niðurskurð á útvarpsgjaldi á árunum á undan. Möguleikar félagsins á öflun auglýsingatekna hafa auk þess verið takmarkaðir umtalsvert með lagasetningu. Kjarasamningar á almennum markaði hafa enn fremur hækkað rekstrarkostnað félagsins töluvert.
Þrátt fyrir sölu á byggingarrétti verður félagið áfram mjög skuldsett og hefur stjórn RÚV vakið athygli eigandans, ríkisins, á því að félagið hafi á komandi árum ekki burði til þess að standa undir hinni miklu skuldsetningu án aðgerða en félagið hefur m.a. átt í viðræðum við LSR um möguleika á skilmálabreytingu láns sem er tilkomið vegna gamalla lífeyrissjóðsskuldbindinga. Útreikningur á söluhagnaði byggist á núverandi deiliskipulagi og áætlun kaupanda um nýtingu byggingarréttarins en lokauppgjör vegna sölunnar fer fram þegar endanlegt byggingamagn liggur fyrir.
Nánari upplýsingar veitir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri, s: 515 3000