Félagsbústaðir - Árshlutareikningur fyrstu 6 mánuði 2017


Félagsbústaðir hf, sem eru hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, eiga og reka félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað er af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Markmið félagsins er að starfa í þágu almannaheilla og skal rekstur þess vera sjálfbær. Félagið á og rekur 1934 almennar leiguíbúðir auk 379 þjónustuíbúða fyrir aldraða ásamt 137 litlum íbúðum í sambýlum fyrir fatlað fólk, eða samtals 2.450 íbúðir í Reykjavík.

Rekstur og afkoma

Rekstrartekjur Félagsbústaða hf. á tímabilinu námu 1.757 millj. kr. sem er 8,2% aukning tekna frá sama tímabilinu 2016 aðallega vegna verðlagshækkunar leigu og stækkunar eignasafnsins.

Rekstrargjöld námu samtals 925 millj. kr. og hækkuðu miðað við sama tímabil 2016 um 8,3%. Af einstökum rekstrarþáttum hækkaði rekstrarkostnaður fasteigna um 5,6%, viðhald og framkvæmdir um 6,2% og fasteigna- og brunabótaiðgjöld um 9,6%.

Rekstrarhagnaður Félagsbústaða hf. fyrir vaxtagjöld, verðbætur lána og matsbreytingu fjárfestingaeigna jókst um 8% miðað við sama tímabil 2016, úr 771 millj. kr. í 833 millj. kr.

Hrein vaxtagjöld námu 581 millj. kr. og jukust um 14,9% milli tímabila, vaxtaþekja rekstrarhagnaðar tímabilsins í ár var 1,53 miðað við 1,55 sama tímabil á fyrra ári.

Rekstrarafkoma Félagsbústaða hf. fyrir verðlagsbreytingar lána og matsbreytingu eigna nam 289 millj. kr. á tímabilinu miðað við 269 millj. kr. fyrir sama tímabil 2016 sem er 7,5% hækkun hagnaðar.

Verðbreyting lána nam samtals 352 millj. kr. á tímabilinu.

Við mat á eignum Félagsbústaða til útleigu er stuðst við fasteignamat sem Þjóðskrá Íslands reiknar og tekur gildi í upphafi árs 2018 (verðmæti m.v. feb 2017), að teknu tilliti til 7,2% hækkunar á vísitölu íbúðaverðs í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu frá febrúar 2017 til loka tímabilsins. Matsbreyting fjárfestingaeigna félagsins nam 7.721 mkr þann 30.06. 2017 en var 5.554 mkr fyrir sama tímabil árið 2016.

Hagnaður Félagsbústaða hf. nam 7.657 millj.kr. á tímabilinu en var 5.382 millj.kr. á sama tímabili árið 2016.

Efnahagsreikningur 30.06.2017

Heildareignir Félagsbústaða hf. 30.06.2017 námu 76,3 milljörðum kr. og jukust um 8,5 milljarða kr. á tímabilinu frá áramótum, eða um 12,6%. Matsbreytingar fjárfestingaeigna skýra eignaaukninguna að stærstum hluta. Eigið fé félagsins nam 40,4 milljörðum.kr. þann 30.06.2017 og jókst um tæpa 7,7 milljarða kr. frá áramótum, eða um 23,4%. Eiginfjárhlutfall var 52,9% þann 30.06.2017 en var 48,3% í árslok 2016.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 265 millj. kr. á tímabilinu 1.1.-30.06. 2017 sem er um tæpum 117 millj. kr. meira en á sama tímabili árið á undan. Fjárfestingar á tímabilinu námu 2.129 millj. kr. miðað við 304 millj. kr. á sama tímabili árið áður. Fjármögnunarhreyfingar tímabilsins voru tæplega 690 millj. kr. samanborið við rúmlega 157 millj. kr. á sama tímabili árið áður. Á tímabilinu 1.1. – 30.06. 2017 keypti félagið 5 íbúðir.

 


Attachments

Árshlutareikningur Félagsbústaðir hf Undirr.pdf