Marel tilkynnir um breytingar á framkvæmdastjórn


Roger Claessens hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri kjúklingaiðnaðar Marel (e. Executive Vice President Marel Poultry) frá 1. september næstkomandi. Roger mun taka sæti í framkvæmdastjórn Marel og heyra beint undir Árna Odd Þórðarson forstjóra. Fram til 1. september verður Anton de Weerd, núverandi framkvæmdastjóri kjúklingaiðnaðar Marel, gegna því hlutverki til að styðja við breytingarnar, en hann mun í framhaldinu taka við nýju hlutverki hjá Marel.

Roger Claessens hefur starfað hjá Marel undanfarin 18 ár og hefur á þeim tíma öðlast dýrmæta stjórnunarreynslu auk þess sem hann hefur sýnt mikla leiðtogahæfileika. Undanfarin fimm ár hefur hann gegnt starfi forstöðumanns nýsköpunar í kjúklingaiðnaði þar sem hann hefur verið í lykilhlutverki við þróun hátæknilausna og búnaðar.

Roger er 43 ára gamall og er verkfræðingur að mennt, en hann er með  MSc. gráðu í landbúnaðarverkfræði frá háskólanum í Wageningen í Hollandi. Hann er hollenskur og býr þar í landi ásamt konu sinni og tveimur börnum.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel

„Ég vil þakka Anton de Weerd fyrir verðmætt framlag til vaxtar og velgengni Marel. Það hefur verið ánægjulegt að starfa með Anton að þeirri vegferð að umbylta kjúklingavinnslu á heimsvísu og ég er jafnframt ánægður með að Marel haldi áfram að njóta góðs af starfskröftum hans, reynslu og þekkingu. Á 37 ára starfsferli sínum hjá Marel hefur Anton verið einstakur liðsmaður og gegnt lykilhlutverki í að skila góðri rekstrarniðurstöðu og undirbúa Marel fyrir frekari vöxt og virðisaukningu. Í dag er vöruframboð Marel í kjúklingaiðnaði fullskipað lausnum frá stöðluðum vörum til heildarlausna.

Við erum ánægð með að Roger taki við þessu starfi. Roger hefur á ferli sínum hjá Marel sýnt sanna leiðtogahæfileika auk góðrar tækni- og verkfræðiþekkingar. Undir hans forystu hefur Marel teymið kynnt til sögunnar nýjar vörur og þjónustu sem hafa umbylt kjúklingaiðnaði á heimsvísu. Ég óska Roger velgengni í nýju starfi og býð hann velkominn í framkvæmdastjórn Marel.“

Um Marel

Marel er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúkling, kjöti og fiski. Hjá félaginu starfa yfir 6000 manns í yfir 30 löndum, þar af um 720 á Íslandi. Marel velti 1,2 milljarði evra árið 2018 en árlega fjárfestir Marel um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið var skráð í Kauphöll Íslands árið 1992 og hluthafar félagsins eru um 2200 talsins.