Marel 1F 2020: Mikill vöxtur í pöntunum og sterkt sjóðstreymi en heimsfaraldur setur mark sitt á afkomu


Marel kynnir afkomu fyrsta ársfjórðungs (allar fjárhæðir eru í evrum)

Helstu atriði:

Fyrsti ársfjórðungur 2020

  • Pantanir námu 351,8 milljónum evra (1F19: 323,3m).
  • Pantanabókin stóð í 464,6 milljónum evra (2019: 414,4m og 1F19: 474,7m).
  • Tekjur námu 301,6 milljónum evra (1F19: 324,6m).
  • EBIT* nam 25,4 milljónum evra (1F19: 47,5m), sem var 8,4% af tekjum (1F19: 14,6%). Einskiptiskostnaður vegna hagræðingar, sem ekki er sérstaklega leiðrétt fyrir, er um 3 milljónir evra. Hagræðingaraðgerðir munu skila sér að fullu árið 2021, með því sem nemur 6 milljón evra lækkun á kostnaðargrunni á ársgrundvelli.
  • Hagnaður nam 13,4 milljónum evra (1F19: 32,2m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 1,76 evru sent (1F19: 4,85 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 61,5 milljónum evra (1F19: 59,6m).
  • Frjálst sjóðstreymi nam 38,6 milljónum evra (1F19: 44,0m).
  • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) nam x0,4 í lok mars (2019: x0,4). Markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli á milli x2-3.
  • Á fyrsta ársfjórðungi nýtti Marel 600 milljónir evra af lánalínu í varúðarskyni. Fjármögnun félagsins er tryggð til 2025.

*Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtökum (PPA).

Ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu félagsins má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar (íslenska útgáfan veitir aðeins yfirlit yfir helstu þætti uppgjörsins, horfur, fjárfestafund og fjárhagsdagatal).

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

Á sama tíma og við höfum tryggt samfellu í rekstri Marel og viðskiptavina okkar, höfum við lagt höfuðáherslu á öryggi og velferð starfsfólks og fjölskyldna þeirra. Við höfum þurft að aðlaga okkur að nýjum veruleika, sýna útsjónarsemi og nýta tæknilausnir í enn meiri mæli en áður. Margt af því sem við gerum nú, verður til varanlegra breytinga til góðs. Sem dæmi bjóðum við nú upp á fjarstuðning í þjónustu og uppsetningum á tækjum, settum á laggirnar Marel Live, sem er nýr stafrænn vettvangur til að kynna vörur og þjónustu félagsins, og héldum aðalfund á tilsettum degi þar sem hluthafar gátu tekið þátt og kosið rafrænt.

Fjárhagur og sjóðstaða félagsins er firnasterk. Framsækið vöruframboð og víðfeðmt sölu- og þjónustunet gera okkur kleift að sinna viðskiptavinum um heim allan á þessum umrótatímum. Mótteknar pantanir á fjórðungnum hafa aldrei verið hærri og nema 352 milljónum evra sem dreifðust vel á milli stærri verkefna, staðlaðra lausna og varahluta. Sterkt sjóðstreymi er að hluta til notað til að byggja markvisst upp öryggisbirgðir af íhlutum til framleiðslu og varahlutum til að tryggja stöðugt framboð og skamman afhendingartíma.

Tekjur námu 302 milljónum evra í fjórðungnum með 8,4% EBIT framlegð. Heimsfaraldurinn hefur aðallega haft áhrif á verkefni kjötiðnaðar með lakari nýtingu í framleiðslu í Kína, Þýskalandi og í Brasilíu vegna núgildandi varúðarráðstafana. Starfsemi í framleiðslu í Kína er nú komin upp í 90% afköst sem gefur góð fyrirheit um framhaldið, en of snemmt er að segja til um hvenær starfsemi verður með eðlilegum hætti í Þýskalandi og Brasilíu. Á sama tíma höfum við sýnt mikla útsjónarsemi í þjónustu við viðskiptavini. Enda þótt þjónustan hafi litast af heimsóknar- og ferðatakmörkunum, sáum við kröftugan vöxt í tekjum í sölu og afhendingu á varahlutum. Þjónustutekjur námu 41% af heildartekjum á fyrsta ársfjórðungi.

Kjúklingaiðnaðurinn, okkar stærsta og arðbærasta rekstrareining, fór inn í þetta ár með lága pantanabók. Sala á lausnum til kjúklingaiðnaðar var sérstaklega góð á fyrsta ársfjórðungi og förum við því inn í annan ársfjórðung með góða stöðu í pantanabók.

Á meðan fjölskyldur halda sig heima í skjóli fyrir heimsfaraldrinum snareykst spurn eftir matvælum í stórmörkuðum og netverslunum. Á sama tíma hefur neysla snarfallið á veitingastöðum. Þegar svo skyndilegar breytingar eiga sér stað þurfa fjölmargir viðskiptavinir okkar að aðlaga sig hratt að breyttu umhverfi, jafnt í framleiðslu og dreifingu, og fjárfesta í stöðluðum lausnum með skömmum afhendingartíma. Í samstarfi við Marel fá þeir fyrsta flokks viðhaldsþjónustu og styttri afhendingartíma á varahlutum og lausnum. Ég vil nota tækifærið og þakka starfsmönnum Marel, viðskiptavinum okkar, birgjum og öðrum samstarfsaðilum fyrir þá miklu og góðu vinnu sem átt hefur sér stað á þessum fordæmalausu tímum. Í sameiningu tryggjum við að matvælaframleiðsla, ein mikilvægasta virðiskeðja heimsins, sé órofin.“

Viðbrögð við COVID-19

Marel setur velferð, öryggi og heilsu starfsfólks síns í fyrsta sæti og lítur ástandið sem skapast hefur í kjölfar útbreiðslu COVID-19 alvarlegum augum. Þörfin fyrir örugg og rekjanleg matvæli sem framleidd eru á hagkvæman og sjálfbæran hátt hefur aldrei verið meiri en nú. Marel er í flokki þeirra fyrirtækja sem eru talin í framlínu til að tryggja áframhaldandi matvælaframleiðslu í heiminum.

Í janúar var gripið til umfangsmikilla og ítarlegra öryggisráðstafana á öllum framleiðslustöðvum okkar til þess að tryggja samfellu í starfsemi. Síðan þá hefur verið starfrækt viðbragðsteymi innan Marel sem fylgist náið með útbreiðslu veirunnar og samræmir aðgerðir félagsins á heimsvísu. Þar hefur öryggi starfsfólks og daglegur rekstur verið í fyrirrúmi. Starfsstöðvum hefur verið skipt upp í minni hópa og enginn samgangur er á milli þeirra. Þá hefur verið tekið fyrir allar ónauðsynlegar heimsóknir inn á starfsstöðvarnar og þeir sem geta vinna nú að mestu heiman frá sér. Allar verksmiðjur Marel víða um heim eru opnar.

Til þess að tryggja getu Marel til að styðja við viðskiptavini sína hefur verið lögð mikil vinna í að byggja upp fjarstuðning. Með því móti er hægt að þjónusta og leiðbeina viðskiptavinum þrátt fyrir ferðatakmarkanir. Þar að auki hefur Marel markvisst byggt upp öryggisbirgðir af varahlutum og vörum sem renna hraðar í gegnum pantanabók til að tryggja framboð og sem stystan afhendingartíma. Uppsetning á tækjum og búnaði heldur áfram með uppteknum hætti þrátt fyrir örlítið lengri afhendingartíma og hærri kostnað vegna afhendingar.

Ítarlegri umfjöllun um áhrif COVID-19 og viðbrögð Marel má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar.

Marel semur um langtímafjármögnun að fjárhæð 700 milljónum evra, með tengingu við sjálfbærnimarkmið félagsins

Þann 5. febrúar 2020 undirritaði Marel samning um nýja sambankalánalínu að fjárhæð 700 milljónir evra til fimm ára með möguleika á framlengingu í allt að tvö ár. Nýja lánalínan kemur í stað fyrri fjármögnunar og veitir félaginu aukinn rekstrarlegan sveigjanleika og styður við langtímavaxtarmarkmið félagsins.

Með samningnum hefur Marel tryggt langtímafjármögnun fyrir félagið á hagstæðari kjörum en áður. Vaxtakjör eru EURIBOR/LIBOR + 80 punktar og munu þau taka breytingum í samhengi við skuldsetningarhlutfall (e. leverage ratio) félagsins og notkun lánalínunnar. Vaxtakjör nýja lánsins eru einnig tengd árangri Marel við að ná fram markmiðum um sjálfbærni, samkvæmt fyrirfram ákveðnum mælikvörðum á frammistöðu (e. key performance indicators).

Í fyrsta ársfjórðungi nýtti Marel 600 milljónir evra af lánalínunni í varúðarskyni. Fjármögnun félagsins er tryggð til 2025.

Helstu niðurstöður aðalfundar Marel 2020 – Allar tillögur stjórnar til aðalfundar samþykktar

Rafrænn aðalfundur Marel sem haldinn var þann 18. mars sl. samþykkti arðgreiðslu sem nemur 5,79 evru sentum á hlut, eða sem samsvarar 40% af hagnaði ársins 2019. Um er að ræða 3,9% aukningu á arði á hlut milli ára og var arðurinn greiddur til hluthafa þann 8. apríl 2020.

Aðalfundur samþykkti einnig tillögu um endurnýjun heimildar til stjórnar til að kaupa allt að 10% af eigin hlutum. Heimild sú gildir í 18 mánuði frá samþykki.

Eftir 14 ár í stjórn Marel, gaf Margrét Jónsdóttir ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Í stað hennar kom Lillie Li Valeur ný inn í stjórn Marel. Lillie er forstjóri Good Food Group í Danmörku en þar áður gegndi hún ýmsum stjórnunarstöðum hjá Arla Foods á alþjóðlegum vettvangi.

Endurkaupaáætlun

Þann 10. mars tilkynnti Marel um framkvæmd endurkaupaáætlunar, þar sem áform eru um að kaupa allt að 25,000,000 eigin hluti í félaginu, eða sem samsvarar 3,2% af útgefnu hlutafé. Tilgangur endurkaupanna er að lækka hlutafé félagsins og standa við skuldbindingar sem leiða af kaupréttarsamningum við starfsmenn félagsins. Á tímabilinu 11. - 31. mars hafði Marel keypt samtals 4,4 milljónir eigin hluta fyrir 14,5 milljónir evra. Í dag á Marel eigin bréf sem nemur 2,17% af hlutafé félagsins. 

Horfur

Markaðsaðstæður hafa verið krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum og núverandi COVID-19 heimsfaraldurs. Marel býr að góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaða í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt ásamt breiðu og framsæknu vöru- og þjónustuframboði. Sem stendur er ekki vitað hver fjárhagsleg áhrif COVID-19 munu verða á Marel. 
Marel stendur við vaxtarmarkmið sín til meðallangs- og langs tíma.

Marel stefnir að um 40% framlegð (e. gross profit), 18%  sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og 6% þróunarkostnaði, til meðallangs tíma.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Afkomuefni

Ítarlegri umfjöllun um rekstrarafkomu má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningar sem er í viðhengi. Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Rafrænn afkomufundur með markaðsaðilum

Þriðjudaginn 21. apríl 2020 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta. Fundurinn verður eingöngu rafrænn en þar munu Árni Oddur Þórðarson forstjóri og Linda Jónsdóttir fjármálastjóri kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á fyrsta ársfjórðungi.

Fundinum verður vefvarpað beint á www.marel.com/webcast og upptaka verður aðgengileg á www.marel.com/ir eftir fundinn.

Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn:

  • IS: +354 800 7520
  • NL: +31 20 721 9496
  • UK: +44 33 3300 9268
  • US: +1 833 823 0586

Fjárhagsdagatal

Marel mun birta árshluta- og ársuppgjör félagsins samkvæmt neðangreindu fjárhagsdagatali:

  • 2F 2020 – 22. júlí 2020
  • 3F 2020 – 20. október 2020
  • 4F 2020 – 3. febrúar 2021

Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaðar. Vinsamlegast athugið að dagsetningarnar eru birtar með fyrirvara um breytingar.

Fjárfestatengsl

Nánari upplýsingar veita Fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið ir@marel.com og í síma 563 8001. 

Um Marel

Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Hjá félaginu starfa yfir 6000 manns í yfir 30 löndum, þar af um 720 á Íslandi. Marel velti 1,3 milljarði evra árið 2019 en árlega fjárfestir Marel um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið var skráð í Kauphöll Íslands árið 1992, en í júní 2019 fór fram tvíhliða skráning á hlutabréfum í félaginu í Euronext kauphöllinni í Amsterdam.

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar.

Gögn um markaðshlutdeild

Yfirlýsingar um markaðshlutdeild, þar með taldar þær sem varða samkeppnisstöðu Marel, byggjast á utanaðkomandi heimildum og gögnum, svo sem gögnum frá rannsóknastofnunum, iðnaðar- og sölunefndum og hópum, ásamt mati stjórnenda Marel. Séu upplýsingar ekki tiltækar fyrir Marel kunna slíkar yfirlýsingar að vera byggðar á áætlunum og mati utanaðkomandi aðila og/eða stjórnenda. Markaðsstaða er byggð á sölutölum nema annað sé tekið fram.

Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Viðhengi


Tags

Attachments

Marel Q1 2020 Condensed Consolidated Interim Financial Statements - EXCEL Marel Q1 2020 Condensed Consolidated Interim Financial Statements_vF Marel Q1 2020 Press Release_vF