Klappir grænar lausnir hf.: Uppgjör Klappa grænna lausna hf. á fyrri hluta ársins 2020


Árshlutareikningur Klappa grænna lausna hf. var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 25. ágúst 2020.
Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. janúar 2020 til 30. júní 2020. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og
dótturfélaga þess. Reikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins, KPMG ehf.  

Helstu upplýsingar á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins:

  • Rekstrartekjur voru 169,5 m.kr. á fyrri hluta ársins 2020 samanborið við 171,5 m.kr á fyrri hluta árs 2019.
    Sala á vörum og þjónustu jókst um 18,5% á milli ára, úr 110,4 m.kr. í 130,8 m.kr. 
  • Rekstrargjöld voru 152,2 m.kr.  á fyrri hluta ársins 2020 samanborið við 163,5 m.kr. á sama tíma í fyrra.
    Laun og launatengd gjöld voru 110,3 m.kr. en annar rekstrarkostnaður 41,8 m.kr.
  • EBITDA var 17,3 m.kr. á fyrri hluta ársins 2020 eða 10,2% af rekstrartekjum samanborið við 7,9 m.kr. á fyrri  hluta árs 2019.
  • Heildareignir félagsins voru 447,1 m.kr. á fyrri hluta ársins 2020.
    Þar af voru fastafjármunir 273,5 m.kr. og veltufjármunir 173,6 m.kr.
  • Eigið fé nam 339,4 m.kr. og er eiginfjárhlutfall í lok júní 2020 75,9% en var 72,9% í árslok 2019.  
  • Heildarskuldir félagsins voru 107,7 m.kr. í lok júní 2020.
  • Veltufé frá rekstri nam 17,4 m.kr. Handbært fé til rekstrar nam 26,3 m.kr., en var 23,8 m.kr. á sama tíma í fyrra.
    Fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 10 m.kr. Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 1,8 m.kr.
  • Handbært fé nam 24 m.kr í lok júní 2020.

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa
„Tekjur jukust á fyrsta ársfjórðungi en drógust aftur saman á öðrum ársfjórðungi sem skýrist af allsherjar samdrætti í samfélaginu sökum Covid-19. 
Þessum samdrætti var mætt með áframhaldandi hagræðingu innan félagsins. Áhersla var lögð á að halda ráðningarsambandi við starfsfólkið og því
var hlutabótaleið stjórnvalda nýtt fram til 1. júní 2020. Starfsfólkið vann heima í um fjórar vikur á meðan smitum fjölgaði sem mest í samfélaginu.
Félagið slapp við veikindi hjá starfsmönnum sökum Covid-19. Búið var í haginn fyrir kraftmikla viðspyrnu þegar markaðir opnuðust aftur.
Unnið var að því að styrkja þjónustuframboðið og hugbúnaðarlausnirnar þannig að þær gætu mætt nýjum þörfum
markaðarins - lögum og reglugerðum á sviði umhverfismála fjölgar hratt á alþjóðavísu og það er mikilvægt að hugbúnaður Klappa endurspegli þá þróun.
Enda þótt enn ríki mikil óvissa reiknum við með því að tekjurnar aukist aftur á fjórða ársfjórðungi. Ákveðið var að flytja starfsemi félagsins í Ármúla 6 og
hófst daglegur rekstur þar frá og með 15. ágúst 2020. Hlutafé var aukið í lok júlí og er sjóðsstaða félagsins góð.” 


Nálgast má árshlutareikning fyrir fyrstu sex mánuði ársins á www.klappir.com/is/fjarfestar

Frekari upplýsingar
Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa
S: 664 9200
Netfang: jat@klappir.com 
Ólöf Ásta Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs
S: 661 0202
Netfang: olof@klappir.com


Viðhengi



Attachments

Klappir_árshlutareikningur 2020