Klappir grænar lausnir hf.: Rekstur þriðja ársfjórðungs 2020


Helstu upplýsingar samkvæmt óendurskoðuðu uppgjöri á þriðja ársfjórðungi:

  • Rekstrartekjur á fyrstu 9 mánuðum ársins 2020 voru 234,5 m.kr. 
  • EBITDA á fyrstu 9 mánuðum ársins var jákvæð um 11,3 m.kr. 


Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa

„Tekjur vegna hugbúnaðaráskrifta hafa haldist á árinu en þjónustutekjur drógust saman á öðrum og þriðja ársfjórðungi sem rekja má til samdráttar vegna Covid-19. Hugbúnaðaráskriftum fór að fjölga aftur á þriðja ársfjórðungi og útlit er fyrir verulega fjölgun áskrifta á fjórða ársfjórðungi. Hér er um að ræða áskriftir bæði erlendra- og innlendra aðila. Tekjur vegna þessarar aukningar skila sér á fjórða ársfjórðungi. Reiknað er með áframhaldandi fjölgun áskrifta.

Samstarfið við OneOcean í Bretlandi gengur vel og reiknað er með að búið verði að innleiða Klappir LogCentral í allt að 300 alþjóðleg skip á næsta ári. Í því samstarfi hefur mikil áhersla verið lögð á markaðssetningu LogCentral á mörgum helstu skipamörkuðum heims og er reiknað með að það skili sér í nýjum sölusamningum á næstu mánuðum. Samþykkt IMO (Alþjóðasiglingamálastofnunin) um notkun stafrænna skipadagbóka í október 2020 opnar ný tækifæri á markaðnum fyrir hugbúnaðarlausnir Klappa. Um 70.000 skip eru í alþjóðlegum siglingum og falla undir þessa löggjöf og því eru framtíðartækifærin mikil á þessum markaði.

Alþjóðleg eftirspurn eftir umhverfishugbúnaði Klappa (Klappir EnviroMaster) hefur aukist enn frekar vegna aukins þrýstings á fyrirtæki um að skila inn traustum og samfélagsuppgjörum. Þrýstingurinn kemur bæði frá fjárfestum og reglugerðum á sviði umhverfismála. Parísarsamningurinn ýtir á hertari umhverfislöggjöf sem mun skila sér í miklum alþjóðlegum tækifærum fyrir félagið. Klappir eru að byggja upp þétt samstarf við  fyrirtæki á Norðurlöndum og við alþjóðleg fyrirtæki sem skapar mikil sóknarfæri á komandi mánuðum.  Innleiðing hjá Stjórnarráðinu gengur vel og eru ráðuneytin núna að innleiða lausnir Klappa fyrir Grænt bókhald. Búið er að koma á formlegu samstarfi við Háskóla Íslands um rannsóknarsamstarf tengt samfélagslegum áskorunum. Háskólinn er nú að taka upp notkun á hugbúnaði Klappa við kennslu í umhverfisfræðum og sjálfbærnivísindum. Lögð er áhersla á að styrkja nemendur í notkun á stafrænni tækni við rannsóknir.

Innleiðing á Klappir PortMaster gengur mjög vel og eru nú flestar hafnir á Íslandi að nota hugbúnaðinn. Verið er að koma upp stafrænum tengingum á milli  þjónustuaðila, hafna, umboðsaðila skipa og Umhverfisstofnunar þannig að öll samskipti þessara aðila í tengslum við umhverfismál hafna verði í Klappir PortMaster. Hér undir falla þjónustupantanir fyrir úrgang, afhending á úrgangi og skil á lögformlegum skjölum á milli aðila,  til dæmis gerð og skil á rafrænum móttökuseðlum skipa. Verið er að byggja upp samstarf við hafnir í Evrópu sem reiknað er með að skili tekjum á næsta ári. 

Stafrænar lausnir Klappa (Klappir Digital Technology) eru leiðandi í heiminum sem heildstæður lausnarpallur á sviði umhverfismála og sjáfbærni. Enn hefur ekki komið fram samkeppnisaðili sem býður upp á þá sérhæfingu sem Klappir hefur þ.e. skilvirka og trausta gagnavinnslu með mikilli gagnaupplausn og úrvinnsluhraða. Lausnarpallur Klappa nær yfir allt frá gagnasöfnun grunngagna, tengingu virðiskeðju fyrirtækja til framsetningu á heildstæðu umhverfis- og samfélagsuppgjöri.” 

Nánari upplýsingar veita
Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa
S: 664 9200
Netfang: jat@klappir.com

Ólöf Ásta Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs
S: 661 0202
Netfang: olof@klappir.com