Sveitarfélagið Árborg ársreikningur 2020


Fréttatilkynning með ársreikningi Svf. Árborgar 2020

Halli á samstæðureikningi Sveitarfélagsins Árborgar árið 2020 er alls 578 milljónir króna. Hægt er að rekja að lágmarki 460 m.kr. til heimsfaraldurs Covid-19 og 200 m.kr. til óvenjulegrar hækkunar í fjármagnsliðum. Án ofangreindra áfalla hefði orðið afgangur af rekstri samstæðu Svf. Árborgar upp á um 100 milljónir króna. Niðurstaða ársreiknings 2020 getur talist ásættanleg í ljósi þess heimsfaraldurs sem einkenndi liðið ár, sér í lagi þegar við bætist gríðarlegrar fjölgun íbúa og tilheyrandi uppbyggingarferli á innviðum og fjölskylduþjónustu.

Árið 2020 skók heiminn og hann skelfur enn. Ríkisstjórnir og stórfyrirtæki um allan heim hafa þurft að standa í lappirnar andspænis erfiðum og gjörbreyttum aðstæðum. Hið sama gildir um sveitarfélög á Íslandi, sem fengu það hlutverk að verja sína íbúa og sitt starfsfólk gegn heimsfaraldri og hugsanlegum efnahagsþrengingum. Viðbrögð sveitarfélaga hafa skipt miklu á þessum erfiðu tímum. Á sama tíma hefur Svf. Árborg gengið í gegnum gríðarlega íbúafjölgun og breytingarferli sem það hefur kallað á í starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins.

Starfsfólk sveitarfélagsins hefur sýnt æðruleysi og unnið af röggsemi til að bregðast við síbreytilegum veruleika. Starfsfólk hefur haldið úti eins mikilli þjónustu og mögulegt hefur verið, oft við mikla óvissu um eigið öryggi. Það er á engan hallað þó framlínustarfsfólk í leikskólum Árborgar sé nefnt sérstaklega. Leikskólastarfsfólk á í mjög nánum samskiptum við sína þjónustuþega, yfirleitt án mikilla varna, og hefur haldið úti kraftmiklu starfi í gegnum brimskafla heimsfaraldurs. Af þessum sökum hefur flest starfsfólk leikskóla búið meira og minna við þrúgandi óvissu undanfarið ár – og slík óvissa reynir á.

Markmið Svf. Árborgar í viðbrögðum við Covid-19 heimsfaraldrinum hefur verið að styðja við og styrkja efnahag, samfélag og þjónustu í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið hefur axlað byrðar með ríkinu og má þar benda á gríðarlegan niðurskurð Jöfnunarsjóðsframlaga. Sveitarfélagið hefur einnig tekið á sig tekjulækkun og kostnaðarauka vegna sérstakra eigin aðgerða og utanaðkomandi aðstæðna. Sveitarfélagið Árborg hefur tekist á við félagsþjónustuverkefni Covid-19 af sérstökum krafti og starfar m.a. mjög náið með ráðuneytum að framfaraverkefnum á þessu sviði.

Heimsfaraldur Covid-19 hefur af framangreindum ástæðum leitt til hallaaukningar í ársreikningi upp á hartnær hálfan milljarð. Fjármagnsliðir hækka því til viðbótar verulega, vegna aukinnar verðbólgu og 10% árshækkunar launa, svo nemur 400 milljónum. Önnur sveitarfélög glímdu við sama verkefni og sést það víða með skýrum hætti í ársreikningum þeirra.

Viðhengi



Attachments

Sveitarfélagið Árborg_ Samantekinn ársreikningur 2020_fyrri umræða