Festi hf.: Afkoma á 2. ársfjórðungi 2021


Helstu niðurstöður

  • Framlegð af vöru- og þjónustusölu nam 6.106 millj. kr. samanborið við 5.224 millj. kr. á 2F 2020, sem samsvarar 16,9% hækkun milli ára.
  • EBITDA nam 2.458 millj. kr. samanborið við 1.703 millj. kr. á 2F 2020, sem jafngildir 44,3% hækkun.
  • Framlegð af vörusölu var 25,1% á 2F 2021 en framlegðin var 25,4% á sama fjórðungi árið áður.
  • Kostnaður vegna COVID-19 var 26 millj. kr. á 2F 2021 en var 115 millj. kr. á sama fjórðungi árið áður.
  • Eigið fé í lok 2F 2021 var 29.906 m.kr. og eiginfjárhlutfall 35,2% samanborið við 35,7% í lok árs 2020.
  • Nettó vaxtaberandi skuldir án leiguskuldbindinga var 29.206 millj. kr. í lok 2F 2021 samanborið við 29.986 millj. kr. í lok 2020.
  • Sala á 4 fasteignum til Reita undir lok fjórðungsins.  Gert er ráð fyrir að öllum fyrirvörum sölunnar verði aflétt á 3 ársfjórðungi 2021.  Áætlaður söluhagnaður nemur 469 millj. kr.
  • EBITDA spá félagsins fyrir árið 2021 var hækkuð 15. júlí sl. um 900 millj. kr. og er nú 8.800 - 9.200 millj. kr. án áætlaðs söluhagnaðar fasteignasölunnar til Reita


Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi:

"Við erum mjög ánægð með rekstrarniðurstöðuna á öðrum ársfjórðungi þar sem öll félög Festi voru að gera mun betur en á sama tíma í fyrra og einnig betur en væntingar okkar voru fyrir annan ársfjórðung 2021. Sjóðsstreymi og fjárhagsleg staða félagsins er mjög sterk.

Starfsfólk okkar hefur staðið sig vel að venju og sýnt mikla þrautseigju við krefjandi aðstæður. Við náðum að klára söluskilyrði sáttar við Samkeppniseftirlitið frá 30. júlí 2018 í lok maí, með sölu verslunar Kjarvals á Hellu þar sem heimsfaraldurinn hafði talsverð áhrif. Samkomulag við Reykjavíkurborg um fækkun bensínstöðva var undirritað í lok júní eftir viðræður sem stóðu yfir í nokkur ár.  Það er mat okkar að sá samningur sé félaginu hagstæður og mikilvægur í þeim orkuskiptum sem við stöndum frammi fyrir.  Stefna Festi er að vera leiðandi þegar kemur að umhverfismálum og samfélagslegri ábyrgð."  segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi.

Nánari upplýsingar er að finna í afkomutilkynningu í viðhengi.

Viðhengi



Attachments

Festi hf - Afkomutilkynning 2F 2021 Festi hf - Consolidated Statements for 2021 Q2 - signed