Marel: 22% aukning í pöntunum milli ára, knúið áfram af nýsköpun og aukinni markaðssókn


Marel kynnir afkomu fjórða ársfjórðungs og ársuppgjör 2021 (allar upphæðir eru í evrum)

Helstu atriði í afkomu ársins 2021:

  • Met í mótteknum pöntunum og áframhaldandi sterk spurn, drifin áfram af nýsköpun og aukinni nálægð við viðskiptavini með fjölgun framlínustarfsmanna um heim allan.
  • Góð samsetning pantana, með aukinni sölu á stöðluðum lausnum til styðja viðskiptavini í framleiðslu matvæla tilbúna til eldunar eða neyslu. Áframhaldandi vöxtur í þjónustutekjum og hugbúnaðarlausnum.
  • Sölusýningar og heimsóknir til viðskiptavina eru að aukast á nýjan leik, eins og best má sjá á vel heppnaðri IPPE sölusýningu í kjúklingaiðnaði í Atlanta. Aukin markaðssókn styður við söluvöxt með tilfallandi kostnaði. Tafir og verðhækkanir í aðfangakeðju munu áfram lita afkomu á fyrri árshluta 2022.
  • Pantanir námu 1.502,0 milljónum evra (2020: 1.234,1m).
  • Pantanabókin1 stóð í 569,0 milljónum evra við lok árs (3F21: 527,8m, 2020: 415,7m).
  • Tekjur námu 1.360,8 milljónum evra (2020: 1.237,8m).
  • EBIT2 nam 153,6 milljónum evra (2020: 166,8m), sem var 11,3% af tekjum (2020: 13,5%).
  • Hagnaður nam 96,2 milljónum evra (2020: 102,6m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 12,85 evru sent (2020: 13,62 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri nam 212,3 milljónum evra (2020: 217,6m). Markviss uppbygging öryggisbirgða af íhlutum til framleiðslu og varahlutum á árinu nam 63,6 milljónum evra.
  • Frjálst sjóðstreymi nam 116,0 milljónum evra (2020: 140,5m).
  • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var 1,0x í lok árs (3F21: 0,9x, 2020: 1,0x). Markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli milli 2-3x.

Helstu atriði í afkomu fjórða ársfjórðungs:

  • Pantanir námu 400,7 milljónum evra (4F20: 319,7m).
  • Tekjur námu 367,4 milljónum evra (4F20: 343,3m).
  • EBIT2 nam 41,0 milljónum evra (4F20: 52,3m), sem var 11,2% af tekjum (4F20: 15,2%).
  • Hagnaður nam 28,5 milljónum evra (4F20: 29,1m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 3,79 evru sent (4F20: 3,87 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 54,5 milljónum evra (4F20: 38,9m).
  • Frjálst sjóðstreymi nam 15,8 milljónum evra (4F20: 17,7m).

1 Að meðtalinni pantanabók Curio og PMJ, að fjárhæð 4,2 milljónir evra í 1F21 og Völku að fjárhæð 7,9 milljónir evra í 4F21.
2 Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtökum (PPA) og fyrir kostnaði tengdum yfirtökum.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel:

„Við lokum árinu með meti í pöntunum upp á 401 milljón evra í fjórða ársfjórðungi. Pantanir yfir árið hljóða upp á 1,5 milljarð evra sem er 22% aukning á milli ára. Allar iðngreinar sýna vöxt og betri samsetningu pantana með aukningu í stöðluðum lausnum til að gera viðskiptavinum kleift að þjónusta ört vaxandi markað fyrir vörur sem eru tilbúnar til eldunar eða neyslu. Velgengni og vöxtur heldur áfram á þjónustumarkaði og í hugbúnaðarlausnum.

Við sjáum aukningu á tekjum á fjórða ársfjórðungi upp í 367 milljónir evra, á sama tíma er rekstrarframlegð (EBIT) fjórðungsins í takti við framlegð ársins, eða um 11,2%. Tekjur ársins aukast um 10% með 11,3% rekstrarframlegð. Sjóðstreymi frá rekstri í hlutfalli við framlegð helst sterkt, með um 15,6% framlegð af tekjum þrátt fyrir umtalsverða fjárfestingu í öryggisbirgðum til framleiðslu og þjónustu.

Mikil umbreyting er að eiga sér stað í allri virðiskeðjunni, með aukinn fókus á sjálfvirkni, róbótatækni og stafrænar lausnir. Marel er í lykilstöðu til að styðja við þessa framþróun hjá viðskiptavinum okkar í átt að meiri snerpu og sveigjanleika til að bregðast við örum breytingum á kauphegðun neytenda í gegnum mismunandi dreifileiðir, svo sem netverslanir, veitingarekstur og stórmarkaði.

Ný verksmiðja Bell & Evans í Bandaríkjunum er gott dæmi um farsælt samstarf. Verksmiðjan er hönnuð frá grunni með stafrænum og samtengdum lausnum, sem tryggja sveigjanleika í vöruframboði til að mæta eftirspurn eftir öruggum, hagkvæmum og sjálfbærum matvælum. Hátæknilausnir Marel ná frá býli til dreifingar á vörum, þar sem velferð dýra og gæði endavöru eru höfð að leiðarljósi. Mikil viðurkenning á verkinu er að það var fjármagnað með grænni fjármögnun sem er sú fyrsta í þeirra geira í Bandaríkjunum.

Með hliðsjón af sterkri, vel samsettri pantanabók og áframhaldandi spurnar frá viðskiptavinum eftir lausnum Marel, sem svara ákalli þeirra til að mæta kröfum neytenda, erum við bjartsýn á að okkur takist að ná markmiði okkar um 40% framlegð (e. gross profit) fyrir sölu-, stjórnunar- og nýsköpunarkostnað til samanburðar við 36,6% fyrir árið 2021. Það sem knýr áfram þann bata auk bættrar samsetningar pantanabókar, er virk verðstýring og aukin skilvirkni í sölu- og þjónustuleiðum til viðskiptavina ásamt sjálfvirknivæðingar og samlegðar stoðsviða  í framleiðslu, sölu og þjónustu. Eitt mikilvægasta og stærsta verkefnið sem við nú tökumst á við er fjárfesting og sjálfvirknivæðing á innflæði, vistun og dreifingu varahluta til að auka sveigjanleika og tryggja skjótan svörunar- og afhendingartíma um allan heim.

Það er ekki tilviljun ein að sala sé sterk og við horfum bjartsýnum augum á næstu misseri. Stöðug nýsköpun, ár frá ári og ákvörðun í miðjum heimsfaraldri að fara nær viðskiptavinum okkar um heim allan með stóraukningu í sölu- og þjónustufólki er klárlega að skila sér. Við væntum þess að auknar tekjur muni færa 19,4% stjórnunar- og sölukostnað (e. SG&A) á árinu 2021, í 18% markmið okkar fyrir árslok 2023. Fjárfesting okkar í nýsköpun nam sem fyrr 6% af tekjum sem er einnig innbyggt í markmið okkar um 16% rekstrarframlegð árið 2023.

Markaðsaðstæður, staða fyrirtækisins og fjárhagsstyrkur þess gera okkur nú kleift að ráðast í stærri yfirtökur til að knýja fram áframhaldandi vöxt og viðgang. Ánægjulegt er að sjá hvernig Marel og PMJ hafa náð landvinningum með fyrstu heildarlausnir til framleiðslu í andaiðnaði. Það sem er okkur Íslendingum nær er að við erum að taka stórt skref til að sinna fiskiðnaði enn betur með samþættingu og markaðssókn með sameinuðum teymum og vöruframboði frá Marel, Völku og Curio.

Það er mér sannur heiður að starfa með sjö þúsund frumkvöðlum innan raða Marel, sem í samstarfi við viðskiptavini eru að umbylta matvælaiðnaði til aukinnar hagkvæmni, gæða og sjálfbærni. Rekstrar- og vaxtarmarkmið okkar fyrir 2023 og 2026 standa.”

Marel stendur við vaxtarmarkmið til meðallangs og lengri tíma

Marel stendur við markmið sín um 40% framlegð (e. gross profit), 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnað og 6% þróunarkostnað, til meðallangs tíma.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum, til að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á heildarlausnir sem ná yfir allt vinnsluferlið. Árlegur meðalvöxtur tekna fyrir tímabilið 2017-2021 var 7,0%.

Yfirtökur og stefnumótandi samstarf
Stefnumótandi nýsköpunarsamstarfi Marel og Tomra miðar vel áfram. Fyrirtækin hafa saman þróað og kynnt til leiks Marel Spectra, nýja byltingarkennda skynjaralausn til að greina aðskotahluti á borð við plast, og tryggja þannig örugg matvæli sem unnin eru á sjálfbæran hátt.

Marel hefur lokið kaupum á PMJ, alþjóðlegum framleiðanda hátæknilausna fyrir vinnslu á andakjöti, líkt og tilkynnt var um þann 21. janúar 2021. Kaupin á PMJ styrkja starfsemi Marel í þróun og framleiðslu lausna fyrir andakjöt sem þriðju stoðina í alifuglaiðnaði til viðbótar við kjúklinga- og kalkúnakjöt. Marel mun nýta alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt til að stækka viðskiptavinahóp sinn í iðnaðinum og fara inn á nýja markaði. Við kaupin er Marel eina fyrirtækið sem getur boðið viðskiptavinum sínum upp á heildarlausnir sem ná yfir allt vinnsluferlið á andakjöti. Áætluð stærð markaðar fyrir andakjöt er um 4,5 milljón tonn, eða sem nemur um 6 milljörðum evra að markaðsvirði. Árstekjur PMJ nema um 5 milljónum evra.

Marel hefur einnig lokið kaupum á Völku, íslensku hátæknifyrirtæki sem framleiðir fiskvinnslulausnir fyrir hvítfisk og lax, líkt og tilkynnt var um 19. nóvember 2021. Kaupin munu styrkja vöruframboð Marel á heildarlausnum og auka stærðarhagkvæmni til þess að þjónusta viðskiptavini enn betur. Miðlun þekkingar og reynslu hjá sameiginlegu teymi mun hraða nýsköpun til að þjónusta betur örar breytingar í sjávarútvegi og markaðsumhverfi. Valka er með um 17 milljónir evra í árstekjur.

Þann 29. janúar 2021 tilkynnti Marel um kaup á 40% hlut í Stranda Prolog, norskum framleiðanda hátæknilausna fyrir laxaiðnað. Þá hafa Marel og Stranda Prolog gert með sér samkomulag um stefnumótandi samstarf.

Atburðir eftir reikningsskil
Marel hefur keypt eftirstandandi 50% hlut í Curio, íslenskum framleiðanda hátækni fiskvinnsluvéla fyrir frumvinnslu hvítfisks. Fyrirtækin hafa unnið náið saman og deilt þekkingu frá því að Marel keypti 39,3% hlut í Curio í október 2019 og 10,7% til viðbótar í janúar 2021, en nú hefur Marel keypt samtals 100% hlut í félaginu.

Kaupin samræmast vel markmiðum Marel að bjóða upp á heildarlausnir fyrir matvælaframleiðendur í leit að hátæknilausnum og þjónustu. Með vöruframboði Curio í flökun, hausun og roðflettingu, auk alþjóðlegs sölu- og þjónustunets Marels sem tryggir nálægð við viðskiptavini í sölu, uppsetningu og þjónustu, er búist við að samlegðaráhrif samþættingar félaganna muni hafa jákvæð áhrif EBIT framlegð fiskiðnaðar til meðallangs- og langs tíma.

Kaupin eru mikilvægt skref í metnaðarfullri vaxtarstefnu félagsins sem knúin er áfram af nýsköpun, markaðssókn og ytri vexti.

Fjárfesting í nýsköpun og þróun í samræmi við markmið

Þrátt fyrir ýmsar áskoranir náðist frábær árangur á sviði nýsköpunar á árinu þar sem mikilvæg skref voru tekin í kjarnaverkefnum og stafrænni þróun nýrra vara og þeirra tæknilausna sem hafa nú þegar verið seldar á heimsvísu. Marel kynnti til leiks 27 nýjar hátæknilausnir og uppfærslur á árinu 2021.

Árið 2021 nam fjárfesting Marel í nýsköpun og þróun 80,8 milljónum evra, eða um 5,9% af heildartekjum. Þetta er í samræmi við stefnu félagsins um að fjárfesta árlega um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við innri vöxt.

Umbreyting er að eiga sér stað á virðiskeðju matvæla þar sem sjálfvirknivæðing, róbótatækni og stafrænar lausnir leiða framþróun sjálfbærrar matvælavinnslu. Marel, ásamt samstarfsaðilum á sviði nýsköpunar og þróunar, gegnir lykilhlutverki í þeirri umbreytingu með áherslu á áframhaldandi nýsköpun og kynningu á brautryðjandi lausnum sem styðja vel við aukna samkeppnishæfni viðskiptavina okkar.

Fjárfesting til að mæta auknum hraða, umfangi og sjálfbærni

Til að þjóna þörfum viðskiptavina Marel enn betur og grípa þau fjölmörgu tækifæri og öru breytingar sem eiga sér stað í markaðsumhverfi og kauphegðun neytenda, er gert ráð fyrir að fjárfestingar Marel í rekstrarfjármunum, að frátöldum nýsköpunarverkefnum, muni aukast í að meðaltali 4-5% af tekjum á næstu fjórum árum, en fari svo aftur í eðlilegra horf.

Dæmi um mikilvæg umbreytingaverkefni sem nú er unnið að eru aukin fjárfesting í framlínu félagsins í sölu og þjónustu til að styðja við frekari vöxt, fjárfesting í stafrænum lausnum sem og hagræðing á stoðsviðum. Marel sér jafnframt tækifæri í aukinni sjálfvirkni og stafrænni þróun í framleiðslueiningum og þjónustuneti félagsins í þeim tilgangi að bæta enn frekar þjónustu við viðskiptavini.

Á árinu 2021 opnaði Marel sölu- og þjónustuskrifstofur og sýningarhús í bæði Sjanghæ í Kína og borginni Campinas í Brasilíu, en um er að ræða fyrstu sýningarhús Marel í Kína og Suður-Ameríku. Skrifstofurnar og sýningarhúsin styrkja áherslu Marel á vaxandi markaði og áform félagsins um enn nánari og skilvirkari samvinnu með viðskiptavinum, samstarfsaðilum og matvælaiðnaðinum öllum á lykilsvæðum.

Marel er áreiðanlegur þjónustuaðili og aukin áhersla verður lögð á sjálfvirknivæðingu og stafrænar lausnir í allri umsýslu með varahluti til að tryggja skamman afhendingartíma og sveigjanleika. Annan ársfjórðung í röð skilum við metsölu í varahlutum.

Umbylting matvæla, á sjálfbæran máta (UFS)

Nýsköpun í samstarfi við viðskiptavini, gerir Marel stöðugt kleift að efla matvælaiðnaðinn og hjálpa viðskiptavinum að draga úr notkun auðlinda og losun kolefnis, og á sama tíma bæta rekstrarhagkvæmni þeirra. Allar nýjar lausnir Marel fara í gegnum sjálfbærniskorkort (e. sustainability scorecard).

Marel hefur skuldbundið sig til þess að verða kolefnishlutlaust (e. net zero) fyrirtæki árið 2040. Til að styðja við þessar langtímaáætlanir hefur Marel hefur sett sér fimm ára aðgerðaráætlun sem ætlað er að leiðbeina Marel og matvælaiðnaðinum inn á sjálfbærari braut, með metnaðarfullum markmiðum tengdum umhverfis-, félags- og stjórnarháttum.

Á árinu tók Marel inn UFS skammtímamarkmið í starfskjarastefnu stjórnenda, hóf upplýsingagjöf á loftslagstengdum áhættum og tækifærum í samræmi við tilmæli Task Force on Climate-Related Financial Disclosures (TCFD) og innleiddi öfluga stefnu um stjórnarhætti er tengjast sjálfbærnitengdum málefnum. Marel hefur einnig skuldbindið sig til þátttöku í Science Based Target verkefninu (SBTi) til þess að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins og tilkynnt um fimm ára aðgerðaráætlun í sjálfbærnitengdum málefnum, sem er í fullu samræmi við vaxtarstefnu félagsins til 2026.

Tillaga um arðgreiðslu

Stjórn Marel mun leggja til við aðalfund félagsins, sem haldinn verður þann 16. mars 2022, að hluthafar fái greiddan arð fyrir rekstrarárið 2021 sem nemur 5,12 evru sentum á hlut, eða 6% lægra á hvern hlut samanborið við fyrra ár. Áætluð heildararðgreiðsla nemur um 38,7 milljónum evra sem samsvarar um það bil 40% af hagnaði ársins (2021: 40%, 2020: 40%). Tillagan er í samræmi við markmið félagsins um fjármagnsskipan og 20-40% arðgreiðslustefnu.

Horfur

Markaðsaðstæður hafa verið krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum og yfirstandandi COVID-19 heimsfaraldurs. Marel býr að góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaða í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt ásamt breiðu og framsæknu vöru- og þjónustuframboði. Marel gerir ráð fyrir áframhaldandi áskorunum í framleiðslu og flutningum á árinu 2022, sem stendur er ekki vitað hver fjárhagsleg áhrif af því munu verða á Marel.

Marel stendur við vaxtarmarkmið sín til meðallangs- og langs tíma.

Marel stefnir að um 40% framlegð (e. gross profit), 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og 6% þróunarkostnaði, til meðallangs tíma.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Á undanförnum fimm árum hefur vöxtur markaða verið undir lengri tíma markaðsvexti. Gert er ráð fyrir að vöxtur á fimm ára tímabili (2021-2026) verði 6-8% í ljósi uppsafnaðrar fjárfestingarþarfar og hröðun eftirspurnar í kjölfar heimsfaraldurs.
  • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Rafrænn afkomufundur með markaðsaðilum

Fimmtudaginn 3. febrúar 2022 kl 8:30 að íslenskum tíma verður haldinn afkomufundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila. Fundurinn verður eingöngu rafrænn en þar munu Árni Oddur Þórðarson forstjóri og Linda Jónsdóttir fjármálastjóri kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á fjórða ársfjórðungi og árinu í heild sinni.

Fundinum verður vefvarpað beint á www.marel.com/webcast og upptaka verður aðgengileg á www.marel.com/ir eftir fundinn.

Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn:

  • IS: +354 800 7437 (PIN 79477837#)
  • NL: +31 10 712 9162
  • UK: +44 33 3300 9030
  • US: +1 646 722 4957

Fjárhagsdagatal

  • AGM – 16. mars 2022
  • 1F 2022 – 27. apríl 2022
  • 2F 2022 – 27. júlí 2022        
  • 3F 2022 – 2. nóvember 2022        
  • 4F 2022 – 8. febrúar 2023
  • AGM – 22. mars 2023

Fjárfestatengsl

Nánari upplýsingar veita fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001.

Um Marel

Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Hjá Marel starfa nú um 7.000 manns í yfir 30 löndum, þar af um 750 á Íslandi. Marel velti 1,4 milljörðum evra árið 2021, en árlega fjárfestir félagið um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið var stofnað 1983, skráð í Kauphöll Íslands árið 1992, og tvíhliða skráð í Euronext kauphöllina í Amsterdam árið 2019.

 

Viðhengi



Attachments

Marel Consolidated Financial Statements 2021 Marel Consolidated Financial Statements 2021 (Excel) Marel Q4 2021 Press release ESG report 2021