Sex mánaða uppgjör Landsvirkjunar


Endursamningar við stórnotendur skila bættri afkomu

Hagnaður fyrri hluta ársins 19 milljarðar króna

Helstu atriði árshlutareiknings

  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 165,3 milljónum USD (22,2 mö.kr.), en var 99,3 milljónir USD á sama tímabili árið áður og hækkar því um  66,5%. 
  • Hagnaður tímabilsins var 144,5 milljónir USD (19,4 ma.kr.), en var 55,1 milljón USD á sama tímabili árið áður.
  • Rekstrartekjur námu 339,3 milljónum USD (45,5 mö.kr.) og hækka um 77,3 milljónir USD (29,5%) frá sama tímabili árið áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 147,5 milljónir USD (19,8 ma.kr.) frá áramótum og voru í júnílok 1.353,3 milljónir USD  (181,3 ma.kr.).
  • Handbært fé frá rekstri nam 234,9 milljónum USD (31,5 mö.kr.), sem er 43,6% hækkun frá sama tímabili árið áður.
  • Meðalverð til stórnotenda án flutnings var 42,1 USD á megavattstund, sem er hæsta verð á fyrri árshelmingi í sögu Landsvirkjunar.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Rekstrarniðurstaða fyrri hluta ársins var betri en nokkru sinni fyrr í sögu Landsvirkjunar. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði hækkaði um tvo-þriðju miðað við sama tíma í fyrra og nam rúmum 22 milljörðum króna. Þessa hækkun má einkum rekja til hækkunar á raforkuverði til stórnotenda. Rekstrartekjur hafa aldrei verið hærri á hálfsárstímabili frá stofnun Landsvirkjunar og námu 45,5 milljörðum króna.

Rekstur aflstöðva gekk vel á tímabilinu.  Eftir erfiðan fyrsta ársfjórðung þar sem tíð óveður og erfið staða í vatnsbúskapnum reyndu mjög á fyrirtækið kom vorið með kröftugu innrennsli og er vatnsstaðan því nú í góðu meðallagi.

Eftirspurn eftir raforku var með allra mesta móti á tímabilinu, en orkuafhending til stórnotenda jókst um 5% og jafnframt jókst afhending forgangsorku í heildsölu um 23%. Um leið var meðalverð til stórnotenda án flutnings hærra en nokkru sinni áður á fyrri árshelmingi, eða 42,1 dalur á megavattstund. Þetta má m.a. rekja til endursamninga undanfarinna ára, sem tryggt hafa að flestir viðskiptavinir Landsvirkjunar borga verð sem er sambærilegt við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.“

Viðhengi



Attachments

Fréttatilkynning Árshlutareikningur janúar til júní 2022