Nova Klúbburinn birtir uppgjör 3ja ársfjórðungs.


Helstu niðurstöður á þriðja ársfjórðungi:

  • Heildartekjur voru 3.166 m.kr. á þriðja ársfjórðungi 2022 samanborið við 3.090 m.kr. á sama tímabili á fyrra ári sem skilar 2,4% heildar tekjuvexti á fjórðungnum milli ára.
  • Þjónustutekjur námu samtals 2.353 m.kr. og vaxa um 193 m.kr. sem er 9,0% vöxtur á milli ára. Vörusölutekjur námu samtals 493 m.kr. og dragast saman um 133 m.kr. sem er 21,3% lækkun á milli ára.
  • EBITDA nam 1.010 m.kr. samanborið við 946 m.kr. á sama tímabili á fyrra ári og vex um 6,8% á milli ára. EBITDA hlutfallið var 31,9% á fjórðungnum samanborið við 30,6% á fyrra ári.
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) var 507 m.kr. samanborið við 454 m.kr. á sama tímabili á fyrra ári og vex um 11,5% milli ára.
  • Hagnaður tímabilsins var 206 m.kr. og lækkar um 83 milljónir. Lækkunin milli ára skýrist helst af hærri fjármagnsgjöldum sem skýrast m.a. af áhrifum hærri verðbólgu.
  • Veltufé frá rekstri á fjórðungnum er 1.010 m.kr. samanborið við 946 m.kr. á sama tímabili á fyrra ári.
  • Vaxtaberandi skuldir, leiguskuldbindingar og aðrar skuldir í lok tímabilsins námu samtals 10.943 m.kr. í lok tímabilsins og hafa lækkað um samtals 4.033 m.kr. frá áramótum.
  • Hrein fjármagnsgjöld eru 250 m.kr. á tímabilinu og hækka um 157 m.kr. á milli ára. Hækkunin skýrist m.a. af hærri stöðu leiguskuldbindinga frá fyrra ári, hærri vöxtum á markaði m.v. fyrra ár sem og mikilli verðbólgu á tímabilinu.
  • Heildarfjárfestingar á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 námu 1.331 m.kr.
  • Eiginfjárhlutfall félagsins var 39,1% í lok fjórðungsins og eigið fé nam 8.896 m.kr.
  • 30 bæjarfélög og sumarbústaðasvæði eru nú tengd 5G með samtals 90 sendum. Áætlað er að 5G sendar verði orðnir 106 í árslok 2022. 
  • Fyrsta áfanga í uppbyggingu á bylgjulengdarkerfi er nú lokið sem gefur tækifæri á samnýtingu með Ljósleiðaranum og Mílu.

Margrét Tryggvadóttir, skemmtana- & forstjóri:
Dansinn hjá Nova er taktfastur og stigmagnast alveg eins og við viljum hafa það. Ársfjórðungurinn er samkvæmt væntingum þar sem viðskiptavinum heldur áfram að fjölga og þjónustutekjurnar þar með, innviðauppbygging er á áætlun og markaðsrannsóknir sýna vörumerkið vera að styrkjast. Rekstrarniðurstaðan endurspeglar það með jákvæðum hætti. Neyslumynstur er að breytast á auknum hraða sem sést best á því að alþjóðlegar efnisveitur eru nú ráðandi á sjónvarpsmarkaði hér á landi á sama tíma og við sjáum að 40% markaðarins eru ekki lengur með myndlykil. Þessi þróun skapar mikil tækifæri fyrir Nova þar sem viðskiptavinir okkar kjósa fjarskiptaþjónustu Nova óháð sjónvarpsefni. Viðskiptamódel Nova er því ólíkt og einfaldara öðrum á smásölumarkaði. Það eru miklar breytingar á fjarskiptamarkaði og samkeppnisforskot Nova liggur í því að félagið heldur á allri virðiskeðjunni eftir að hafa fjárfest í sterkum innviðum undanfarin ár. Samhliða innviðafjárfestingum sjáum við jákvæð áhrif á reksturinn koma fram þar sem framlegðarhlutfallið er að hækka. Við í Nova liðinu sjáum þannig mikil vaxtartækifæri í náinni framtíð og við horfum bjartsýn fram á veginn.”

Viðhengi



Attachments

Nova Klubburinn Árshlutareikningur F3-2022 Nova Klubburinn F3-2022 Uppgjor