Fly Play hf.: LEIÐRÉTTING: Hækkun hlutafjár PLAY og niðurstöður útboðs


LEIÐRÉTTING: Hækkun hlutafjár PLAY og niðurstöður útboðs

Hluthafafundur Fly Play hf. sem haldinn var þann 30. nóvember 2022 samþykkti neðangreindar tillögur, sem veita stjórn heimild að hækka hlutafé félagsins um allt að kr. 228.670.505 að nafnvirði með útgáfu nýrra hluta. Hækkunin er liður í því að efla frekar fjárhag félagsins fyrir komandi vöxt og tryggja sterka lausafjárstöðu þess. Allir 20 stærstu hluthafar PLAY tóku þátt í útboðinu. Til að gæta jafnræðis meðal hluthafa var öllum hluthöfum boðið að skrá sig fyrir nýjum hlutum í félaginu á sömu kjörum. Þar sem markaðsgengi hlutabréfa félagsins er lægra en fyrrnefndum hluthöfum bauðst var eðli máls samkvæmt hverfandi þátttaka í síðarnefnda útboðinu.

Í samræmi við ofangreint voru eftirfarandi mál á dagskrá á hlutahafafundi Fly Play hf. þann 30. nóvember 2022:

  • Að hækka hlutafé félagsins um allt að kr. 228.670.505 að nafnvirði með útgáfu nýrra hluta. Sölugengi nýrra hluta skal ákveðið af stjórn félagsins. Hluthafar falla frá forgangsrétti skv. 34. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Heimildin gildir til aðalfundar félagsins fyrir rekstrarárið 2022. Nýir hlutir skulu veita réttindi frá skráningardegi hlutafjárhækkunarinnar og gilda samþykktir félagsins um þá.
  • Að gefa út áskriftarréttindi sem veita rétt til áskriftar að hlutum allt að nafnverði kr. 57.167.631. Áskriftarréttindin má nýta í 10 daga frá þeim degi sem ársuppgjör fjárhagsársins 2023 er birt. Áskriftargengið er það sama og í útgáfu hluta sem fer í tengslum við þessa heimild, auk vaxta sem nema gildandi 7-daga veðlánavöxtum Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Heimild þessi gildir til 31. desember 2022, að því marki sem hún hefur ekki verið nýtt. Stjórn er jafnframt heimilt til 1. maí 2024 að ákveða hækkun hlutafjár félagsins í samræmi við nýtingar áskriftarréttinda. Hluthafar falla frá forgangsrétti sínum í tengslum við útgáfu áskriftarréttinda og nýrra hluta sem gefnir verða út vegna nýtingar slíkra áskriftarréttinda. Hinir nýju hlutir skulu veita félaginu tilheyrandi réttindi frá skráningardegi. 

Framangreindar tillögur voru samþykktar af hluthafafundinum.

Útboði Fly Play til allra hluthafa lauk kl. 18:00 þann 30. nóvember. Sem fyrr segir var efnt til útboðsins til að tryggja jafnfræði hluthafa við fyrirhugaða hækkun hlutafjár og áskriftir 20 stærstu hluthafa félagsins.

Með útboðinu var hluthöfum boðið að skrá sig fyrir hlutum í félaginu á kr. 14,6 á hlut. Samhliða útgáfu hlutanna verða gefin út áskriftarréttindi að hlutum sem nema 25% af framangreindri hlutafjárútgáfu. Áskriftarverðið skv. áskriftarréttindunum mun nema sama verði og í hlutafjárútgáfunni auk vaxta frá útgáfudegi sem nema 7-daga veðlánavöxtum Seðlabanka Íslands. Áskriftarréttindin verða nýtanleg í 10 daga eftir birtingu ársuppgjörs 2023.

Í tengslum við framangreint útboð og söfnun áskriftarloforða hefur stjórn Fly Play hf. ákveðið að nýta heimild sína í samþykktum félagsins, sem samþykkt var á hlutahafafundi þann 30. nóvember 2022 og hækka hlutafé Fly Play með útgáfu á 157.534.246 nýjum hlutum í félaginu, samtals 2,3 ma. kr., sem nemur u.þ.b. 18% af útgefnu hlutafé.

Samhliða framangreindri útgáfu hluta hefur stjórn Fly Play ákveðið að nýta heimild sína í samþykktum félagsins, sem samþykkt var á hlutahafafundi þann 30. nóvember 2022 og gefið út  39.383.566 áskriftarréttindi til þeirra hluthafa sem skráðu sig fyrir framangreindum nýjum hlutum í félaginu.

Samtals útgefnir hlutir í Fly Play hf. eftir hækkunina eru 860.867.578.