Sarah Tanksley tekur sæti í stjórn Alvotech hf. og Sandra Casaca skipuð framkvæmdastjóri gæðamála


Alvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag breytingar á skipulagi gæðastjórnunar Alvotech. Sandra Casaca hefur verið skipuð framkvæmdastjóri gæðamála. Sarah Tanksley tekur sæti í stjórn Alvotech hf., rekstrarfélagi Alvotech á Íslandi.

„Ég vil þakka Söru fyrir einstakt framlag hennar til félagsins. Við erum spennt að halda samstarfinu áfram, þar sem Sara mun sem stjórnarmaður geta veitt leiðsögn um gæðamál og lyfjaeftirlit,“ sagði Róbert Wessman, stofnandi, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech. „Það er jafnframt mikið gleðiefni að geta boðið Söndru velkomna í teymið. Hún er afar reynslumikill stjórnandi á sviði gæðamála, með framúrskarandi feril að baki hjá þróunar- og framleiðslufyrirtækjum í Bandaríkjunum, Evrópu, Kanada og Rómönsku Ameríku. Við höfum unnið að því að styrkja innlenda stjórnendateymið enn frekar og verður Sandra með aðsetur hér á landi.“

Sandra Casaca hefur 25 ára reynslu af störfum í lyfjaiðnaðinum og er með sterkan alþjóðlegan bakgrunn í gæðastjórnun fyrir framleiðslu líftæknilyfja. Sandra hefur undanfarin ár gengt lykilstöðum á sviði gæðamála fyrir stór alþjóðleg fyrirtæki í lífvísindum, þar á meðal BMS, Amgen, AbbVie og Atara. Hún er með meistaragráðu í lyfjafræði frá háskólanum í Lissabon.

Um Alvotech
Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu,  Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.  Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (Japan), Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska-Ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea).

Alvotech, fjárfestatengsl og samskiptasvið
Benedikt Stefánsson
alvotech.ir[at]alvotech.com