Icelandair: Ólíklegt að allir farþegar komist á áfangastað fyrir jól ef verkföll halda áfram


Á þriðjudag og fimmtudag í þessari viku fóru íslenskir flugumferðarstjórar í verkfall sem olli töluverðri truflun á flugáætlun Icelandair. Frekari verkföll hafa verið boðuð á Keflavíkurflugvelli á mánudag og miðvikudag í næstu viku. Aðgerðirnar muna valda áframhaldandi röskunum á flugáætlun Icelandair og þannig hafa mikil áhrif á ferðaáætlanir farþega. Í þessari viku höfðu aðgerðir Félags íslenskra flugumferðarstjóra áhrif á ferðalög 13.000 farþega Icelandair og í næstu viku er áætlað að 23.000 farþegar verði fyrir áhrifum. Þrátt fyrir að Icelandair muni leggja sig fram um að koma öllum farþegum á áfangastað fyrir og um hátíðarnar aukast líkurnar á því að það takist ekki þar sem öll flug eru þéttbókuð á þessum háannatíma rétt fyrir jól.

Verkfallið stendur á milli klukkan 4-10 að morgni, á þeim tíma sem flestar flugvélar Icelandair frá Norður-Ameríku lenda á Keflavíkurflugvelli og flestar flugvélar taka á loft til Evrópu. Félag flugumferðarstjóra hefur valið tímasetningu aðgerðanna til að valda íslensku flugfélögunum skaða á meðan önnur alþjóðleg flugfélög verða fyrir minni áhrifum.

Icelandair leggur megináherslu á að tryggja farþegum þægilega og góða ferðaupplifun og leitar ávallt allra leiða til þess. Á sama tíma gerir félagið ráð fyrir að kostnaður sem hlýst af verkfallsaðgerðunum verði umtalsverður. Vegna aukins farþegafjölda í næstu viku í tengslum við hátíðirnar, munu frekari verkfallsaðgerðir leiða til enn meiri raskana og enn meiri kostnaðar fyrir félagið en í þessari viku. Núverandi áætlanir gera ráð fyrir að beinn kostnaður vegna aðgerða flugumferðarstjóra gæti numið um það bil 5-7 milljónum Bandaríkjadala náist samningar ekki sem allra fyrst. Icelandair mun leita allra leiða til að fá fjárhagslegt tjón vegna verkfallsins bætt að fullu af hendi Isavia.  

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:
„Þetta er gríðarlega alvarleg staða og mjög áríðandi að samningsaðilar nái saman sem allra fyrst. Ísland reiðir sig algjörlega á flugsamgöngur til þess að ferðast til og frá landinu og er landið því sérstaklega viðkvæmt fyrir aðgerðum sem þessum. Verkfallsaðgerðirnar hafa þegar valdið fjárhagslegu tjóni sem mun aukast verulega þegar nær dregur jólum ef samningar nást ekki. Aðgerðirnar bitna mest á þeim sem síst skyldi – fólki sem er að ferðast til að hitta fjölskyldu og vini á þessum mikilvæga tíma ársins. Við munum að sjálfsögðu gera okkar allra besta við að koma farþegum okkar á áfangastað fyrir jólin en það er alls ekki víst að það takist ef fer sem horfir. Það er því áríðandi að aðilar nái saman sem allra fyrst.“

Nánari upplýsingar
Fjárfestar: Íris Hulda Þórisdóttir, Forstöðumaður Fjárfestatengsla. Netfang: iris@icelandair.is
Media: Ásdís Pétursdóttir, Forstöðumaður Samskipta og sjálfbærni. Netfang: asdis@icelandair.is