Alvotech semur við Quallent Pharmaceuticals um markaðssetningu á hliðstæðu við Humira í Bandaríkjunum


  • Alvotech mun framleiða líftæknilyfjahliðstæðu sína í háum styrk með útskiptileika við Humira (adalimumab) fyrir Quallent Pharmaceuticals, dótturfélag Cigna

Alvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag að nýgerður samningur í Bandaríkjunum um dreifingu og sölu á líftæknilyfjahliðstæðu Alvotech í háum styrk með útskiptileika við Humira (adalimumab) sé við Quallent Pharmaceuticals, dótturfélag Cigna. Samningurinn er gerður með samþykki Teva Pharmaceuticals, sem er samstarfsaðili Alvotech í Bandaríkjunum.

„Við fögnum því að ganga til samstarfs við Alvotech um aukið aðgengi sjúklinga að adalimumab-ryvk. Það er markmið okkar að geta boðið flestum sjúklingum lyfið án greiðsluþátttöku þeirra,“ sagði John Caufield, forstjóri Quallent Pharmaceuticals Health, LLC. „Markmið Quallent er að bjóða sjúklingum örugg og hagkvæm lyf í samstarfi við lyfjafyrirtæki eins og Alvotech. Þetta samstarf auðveldar okkur að ná þessu markmiði.“

“Alvotech tryggði sér í febrúar síðastliðnum einkarétt í tólf mánuði eftir að sala hefst, til að bjóða í Bandaríkjunum líftæknilyfjahliðstæðu í háum styrk með útskiptileika við Humira. Um 85% af sölu Humira í Bandaríkjunum er það lyfjaform sem Alvotech hefur fengið markaðsleyfi fyrir. Við höfum þar af leiðandi fundið fyrir mjög sterkum áhuga innkaupaaðila og heilbrigðistryggingafyrirtækja í Bandaríkjunum. Með þessum samningum stígum við enn eitt skrefið í átt að auknu aðgengi sjúklinga að hagkvæmari líftæknilyfjum,” sagði Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech.

„Teva einbeitir sér að því að lækka kostnað í heilbrigðiskerfinu og bjóða sjúklingum hagkvæmar lausnir, eins og adalimumab í háum styrk með útskiptileika,“ sagði Thomas Rainey, framkvæmdastjóri markaðsaðgengis fyrir Teva í Bandaríkjunum. „Samstarf Teva og Alvotech hefur þegar leitt til markaðsleyfa fyrir tvær mikilvægar líftæknilyfjahliðstæður, en við höfum verið að vinna saman að níu verkefnum. Tvær líftæknilyfjahliðstæður til viðbótar sem við þróum í samvinnu, eru nú á lokastigi klínískrar þróunar.“

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) veitti markaðsleyfi fyrir líftæknilyfjahliðstæðu Alvotech í háum styrk með útskiptileika við Humira þann 24. febrúar sl. Markaðsleyfi FDA heimilar notkun lyfsins til meðferðar við við iktsýki hjá fullorðnum, sjálfvakinni fjölliðagigt hjá börnum, sóraliðabólgu fullorðinna, alvarlegri hrygggigt fullorðinna, Chrons sjúkdómnum, sáraristilbólgu fullorðinna, skellusóra hjá fullorðnum, graftarmyndandi svitakirtlabólgu fullorðinna og æðahjúpsbólgu fullorðinna. Þetta er fyrsta leyfið sem FDA veitir fyrir hliðstæðu við Humira í háum styrk með útskiptileika og leiðir það jafnframt til einkaréttar til markaðssetningar á lyfinu með útskiptileika við háa styrkleikann 40mg/0.4mL. Um 88% af ávísunum á adalimumab eru fyrir lyfið í háum styrk samkvæmt gögnum sem safnað er af gagnaveitunni Symphony.

Fyrsti samstarfssamningur Alvotech og Teva var undirritaður í ágúst 2020. Þá var samið um sölu og markaðsetningu fimm líftæknilyfjahliðstæða sem þróaðar verða og framleiddar af Alvotech. Í ágúst á síðasta ári gengu félögin til aukins samstarfs og bættust tvær nýjar líftæknilyfjahliðstæður við samstarfið, auk nýrra útgáfa af tveimur hliðstæðum sem voru hluti af upprunalega samkomulaginu. Alvotech sér um alla þróun og framleiðslu, en Teva um sölu og markaðssetningu í Bandaríkjunum og nýtir þar með mikla reynslu og öflugt sölu- og markaðsnet. Fyrsta hliðstæðan í samstarfinu sem fékk markaðsleyfi FDA var líftæknilyfjahliðstæðan í háum styrk með útskiptileika við Humira (adalimumab) og gerir Teva ráð fyrir að setja hana á markað í Bandaríkjunum á næstunni undir vörumerkinu Simlandi.

Um Alvotech
Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur meðal annars að þróun líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu,  Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.  Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (Japan), Advanz Pharma (EES, Bretland, Sviss, Kanada, Ástralía og Nýja Sjáland), Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska-Ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea).

Alvotech, fjárfestatengsl og samskiptasvið
Benedikt Stefánsson, forstöðumaður
alvotech.ir@alvotech.com