•  Stofnar nýja ferðaskrifstofu fyrir íslenska markaðinn
•  Áhersla á sumar- og vetrarleyfisferðir Íslendinga og móttöku erlendra
   ferðamanna 
•  Hörður Gunnarsson, fyrrv. frkstj. Ferðaskrifstofu Íslands gengur til liðs
   við Icelandair Group 
 
Icelandair Group hefur ákveðið að efla ferðaþjónustustarfsemi innan félagsins
og hefur ráðið Hörð Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Ferðsskrifstofu
Íslands til stjórnarsetu í félögum innan Icelandair Group. 

"Við sjáum mikil tækifæri fyrir Icelandair Group á þessum markaði og teljum
okkur hafa þekkingu, reynslu og tækjakost til þess að geta á stuttum tíma náð
góðum árangri og markaðshlutdeild. Innan Icelandair Group hefur hingað til ekki
verið lögð áhersla á almenna ferðaskrifstofustarfsemi eða að bjóða þjónustu
fyrir Íslendinga á leið í frí með leiguflugi. Hörður Gunnarsson er þrautreyndur
á þessu sviði og honum er ætlað stýra uppbyggingu þessarar starfsemi innan
Icelandair Group. Við sjáum fyrir okkur ýmiskonar samlegðaráhrif innan
samstæðunnar í skipulagningu ferða utan- sem innanlands m.a. í nýtingu á
flugvélum", segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. 

Hörður mun taka sæti í stjórnum félaga sem lúta að ferðaþjónustustarfsemi
Icelandair Group og mun meðal annars gegna stjórnarformennsku í Iceland Travel
sem er sérhæft þjónustufyrirtæki í mótttöku erlendra ferðamanna. Hörður mun
vinna að því með núverandi stjórnendum að útvíkka ferðaþjónustustarfsemi
Icelandair Group bæði í mótttöku erlendra ferðamanna og skipulagningu ferða
fyrir Íslendinga og mun Iceland Travel, eða dótturfyrirtæki þess, taka að sér
framleiðslu á skipulögðum hópferðum fyrir Íslendinga í afþreyingarferðir. 
 
Hörður lauk prófi í viðskiptafræðum við HÍ 1981 og löggildingu í endurskoðun
1983. Hörður hefur lengst af starfað við ferðaþjónustu ma sem framkvæmdastjóri
Ferðaskrifstofu Íslands í fimmtán ár frá des 1990 til jan 2006. Hörður er
giftur Hrönn Björnsdóttur og eiga þau þrjú börn.