Marel hf. hefur borist tilkynningar frá stjórnarmönnunum Árna Oddi Þórðarsyni og Theo Rein Bruinsma um úrsögn úr stjórn félagsins frá og með deginum í dag.
Samkvæmt gr. 5.1 í samþykktum félagsins kýs aðalfundur árlega 7-9 menn í stjórn félagsins, en eftir framangreindar úrsagnir skipa stjórnina 5 stjórnarmenn. Með vísan til heimildar í 2. mgr. 64. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 hefur stjórn félagsins ákveðið að fresta kjöri nýrra stjórnarmanna til næsta aðalfundar að gættum skilyrðum ákvæðisins um ákvörðunarbærni stjórnar.