Í dag bárust Eimskip upplýsingar frá áfrýjunarnefnd samkeppnismála þess efnis að Samskip hefði kært ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 17. apríl sl., sem heimilaði samstarf Eimskip og Royal Arctic Line. Aðilar málsins eru Samskip og Samkeppniseftirlitið.
Samkeppniseftirlitinu hefur verið veittur frestur til að skila greinargerð sinni í málinu. Eimskip mun fá afrit þeirra athugasemda og 5 daga frest til að skila eigin athugasemdum í kjölfarið. Samkvæmt samkeppnislögum skal úrskurður áfrýjunarnefndar liggja fyrir innan sex vikna frá kæru.
Eimskip telur kæruna ekki eiga við nein rök að styðjast og mun halda áfram undirbúningi sínum fyrir samstarfið. Eimskip vonar að úrskurður nefndarinnar liggi fyrir sem fyrst.