Marel 2F 2021: Met í pöntunum og sjóðstreymi, rekstrarafkoma stöðug milli ársfjórðunga


Marel kynnir afkomu annars ársfjórðungs 2021 (allar upphæðir eru í evrum)

  • Met í pöntunum og sterk pantanabók þar sem pantanir í kjúklingaiðnaði voru sterkar, í kjötiðnaði í takti við væntingar og í methæðum í fiskiðnaði.
  • Söluverkefni í vinnslu (e. pipeline) fara vaxandi í öllum iðnuðum og á öllum stigum vinnslunnar.
  • Framlegð var svipuð og 1F21, þar sem áskoranir í framleiðslu, flutningum og ferðalögum höfðu áhrif samhliða fjölgun starfsmanna í sölu og þjónustu til að auka sveigjanleika í rekstri sem og til undirbúnings frekari vaxtar.

Helstu atriði í afkomu annars ársfjórðungs 2021 (2F21):

  • Pantanir námu 371,3 milljónum evra (2F20: 280,1m).
  • Pantanabókin1 stóð í 499,1 milljónum evra (1F21: 455,3m, 2F20: 439,0m).
  • Tekjur námu 327,5 milljónum evra (2F20: 305,7m).
  • EBIT2 nam 38,6 milljónum evra (2F20: 45,0m), sem var 11,8% af tekjum (2F20: 14,7%).
  • Hagnaður nam 23,3 milljónum evra (2F20: 30,7m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 3,14 evru sent (2F20: 4,07 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 77,9 milljónum evra (2F20: 63,1m).
  • Frjálst sjóðstreymi nam 54,6 milljónum evra (2F20: 47,6m).
  • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var 0,8x í lok mars (1F21: 0,8x, 2F20: 0,6x).

Hálfsársuppgjör 2021 (1H21)

  • Pantanir námu 740,7 milljónum evra (1H20: 631,9m).
  • Tekjur námu 661,5 milljónum evra (1H20: 607,3m).
  • EBIT2 nam 76,6 milljónum evra (1H20: 70,4m), sem var 11,6% af tekjum (1H20: 11,6%).
  • Hagnaður nam 44,5 milljónum evra (1H20: 44,1m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 5,95 evru sent (1H20: 5,82 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 138,1 milljónum evra (1H20: 124,6m).
  • Frjálst sjóðstreymi nam 100,1 milljónum evra (1H20: 86,2m).

1 Að meðtalinni pantanabók Curio og PMJ, að fjárhæð 4,2 milljónir evra. 2 Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtökum (PPA). Frá og með fjórða ársfjórðungi 2020 er einnig aðlagað fyrir kostnaði tengdum yfirtökum.

Ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu félagsins má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar (íslenska útgáfan veitir aðeins yfirlit yfir helstu þætti uppgjörsins, horfur, fjárfestafund og fjárhagsdagatal).


Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

„Annar ársfjórðungur var góður fyrir Marel. Okkar metnaðarfulla teymi tókst á við áskoranir með bjartsýni og þrautseigju í nánu samstarfi við birgja og viðskiptavini.

Annan ársfjórðung í röð skilum við metpöntunum upp á 370 milljónir evra. Ánægjulegt er að sjá sterkar pantanir koma inn til að þjónusta alifuglaiðnað, kjötiðnaður var í línu við væntingar og við erum að sjá metpantanir koma inn í fiskiðnaði þar sem sushi og aðrar laxaafurðir voru greinilega á matseðlinum. Sterk og vel samsett pantanabók er undirstaða markmiða okkar um auknar tekjur með bættri framlegð horft fram á veginn. Söluverkefni í vinnslu (e. pipeline), sem eru enn ekki staðfest í pantanabók, halda áfram að vaxa í öllum iðnuðum.

Rekstrarafkoma okkar í öðrum ársfjórðungi er á sama stað og í fyrsta ársfjórðungi, með 327 milljónir evra í tekjur og tæplega 12% EBIT. Markaðsaðstæður eru afar kvikar og breytingar á neytendamarkaði kalla á frekari fjárfestingar og sveigjanleika í rekstri viðskiptavina og hjá okkur. Til að mæta væntum vexti höfum við styrkt alþjóðlegt sölu- og þjónustunet okkar og haldið áfram að kynna til sögunnar nýjar hátæknilausnir sem munu umbylta matvælaiðnaðinum. Við höfum einnig tekið stór skref í  allri umsýslu með varahluti, frá birgjum til viðskiptavina þar sem fókus er á frekari sjálfvirknivæðingu og stafrænar lausnir.

Handbært fé frá rekstri var upp á 78 milljónir evra sem er það hæsta sem við höfum séð. Það er ánægjulegt að sjá svo sterkt sjóðstreymi sem sýnir styrk viðskiptavina og okkar og sérstaklega má geta þess að þetta sterka sjóðstreymi náðist þrátt fyrir umtalsverðar fjárfestingar í birgðum til að tryggja sveigjanleika og öryggi í afhendingum.

Nýlegar yfirtökur hafa stutt við innri vöxt með kross- og viðbótarsölu á breiðara vöruframboði, hraðað nýsköpun og þróun á nýjum hátæknilausnum, og auðveldað yfirfærslu á tækni úr einum iðnaði yfir í annan. Í fjórðungnum náðum við samningum um stórt kalkúnaverkefni í Bandaríkjunum og fyrstu heildarlausnina fyrir tilapíu í Brasilíu, þar sem stafrænar lausnir og sjálfvirknivæðing framleiðslunnar styður við aukin vörugæði, fæðuöryggi og sjálfbærni. Við fylgjum stefnu félagsins, í júlí var tilkynnt um undirritun samnings um kaup á íslenska hátæknifyrirtækinu Völku sem mun styrkja vöruframboð Marel á heildarlausnum, auka stærðarhagkvæmni og hraða vöruþróun fyrir fiskiðnað.

Í stefnumarkandi nýsköpunarsamstarfi (e. strategic partnership) eru Marel og TOMRA að þróa og kynna til leiks Marel Spectra sem er byltingarkennd skynjaralausn fyrir aðskotahluti til að greina og hreinsa út mögulega aðskotahluti, eins og plast, og tryggja þannig örugg matvæli sem unnin eru á sjálfbæran hátt.

Firnasterkur fjárhagur styður við áframhaldandi fjárfestingu í innviðum félagsins og ytri vöxt. Við höldum ótrauð áfram að kynna nýjar viðskiptavinalausnir til leiks, sem er ávöxtur af stöðugri nýsköpun, stefnumarkandi samstarfi við önnur leiðandi fyrirtæki svo og yfirtökum. Markmið okkar eru að verða leiðandi á heimsvísu í stafrænum heildarlausnum og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. ”

Helstu tölur uppgjörsins

2Q21 2Q20 ∆ YoY As per financial statements 6M21 6M20 ∆ YoY
327.5 305.7 7.1% Revenues 661.5 607.3 8.9%
118.6 114.2 3.9% Gross profit 243.0 221.5 9.7%
36.2% 37.4%   Gross profit as a % of revenues 36.7% 36.5%  
38.6 45.0 -14.2% Adjusted result from operations (Adjusted EBIT) 76.6 70.4 8.8%
11.8% 14.7%   EBIT1 as a % of revenues 11.6% 11.6%  
49.8 56.9 -12.5% EBITDA 97.1 94.5 2.8%
15.2% 18.6%   EBITDA as a % of revenues 14.7% 15.6%  
(5.6) (2.6) 115.4% Non-IFRS adjustments (13.5) (5.2) 159.6%
33.0 42.4 -22.2% Result from operations (EBIT) 63.1 65.2 -3.2%
10.1% 13.9%   EBIT as a % of revenues 9.5% 10.7%  
23.3 30.7 -24.1% Net result 44.5 44.1 0.9%
7.1% 10.0%   Net result as a % of revenues 6.7% 7.3%  
371.3 280.1 32.6% Orders Received 740.7 631.9 17.2%
499.1 439.0   Order Book2 499.1 439.0 13.7%
             
2Q21 2Q20   Cash flows 6M21 6M20  
77.9 63.1   Cash generated from operating activities, before interest & tax 138.1 124.6  
67.3 53.4   Net cash from (to) operating activities 122.2 97.4  
(20.7) (10.3)   Investing activities (52.4) (20.8)  
(63.6) (584.0)   Financing activities (67.0) (222.2)  
(17.0) (540.9)   Net cash flow 2.8 (145.6)  
             
        30/06 31/12  
      Financial position 2021 2020  
      Net Debt (Including Lease liabilities) 182.3 205.2  
      Operational working capital3 49.7 78.9  
             
      Key ratios 6M21 6M20  
      Current ratio 1.0 1.2  
      Quick ratio 0.6 0.8  
      Return on equity4 9.3% 9.5%  
      Leverage5 0.8 0.6  
      Number of outstanding shares (millions) 753.8 747.9  
      Market capitalization in EUR billion based on exchange rate at end of period 4.5 3.5  
      Basic earnings per share in EUR cents 5.95 5.82  


1 Operating income adjusted for PPA related costs, including depreciation and amortization, and as of Q4 2020, acquisition related costs. 2 Including acquired order book of Curio and PMJ of EUR 4.2m in 1Q21. 3 Trade receivables, inventories, net contract assets & contract liabilities, trade payables. 4 Net result (annualized) / average of total equity.   5 Net debt (Including lease liabilities) / LTM EBITDA.

Marel undirritar samning um kaup á Völku

Marel stefnir að því að kaupa 100% hlut í Völku. Yfir 90% hluthafa Völku hafa undirritað kaupsamning og verður eftirstandandi hluthöfum boðið að selja sinn hlut á sömu kjörum.

Valka er hátæknifyrirtæki sem framleiðir fiskvinnslulausnir fyrir hvítfisk og lax. Vöruframboð félagsins inniheldur meðal annars vatnsskurðarvélar, sem og snyrti- og flokkunarlínur. Valka er með um 17 milljónir evra í árstekjur en hjá félaginu starfa samtals 105 starfsmenn á Íslandi og í Noregi.

Kaupin munu styrkja vöruframboð Marel á heildarlausnum og auka stærðarhagkvæmni til þess að þjónusta viðskiptavini enn betur. Miðlun þekkingar og reynslu hjá sameiginlegu teymi mun hraða nýsköpun til að þjónusta betur örar breytingar í sjávarútvegi og markaðsumhverfi.

Kaupin eru háð hefðbundnum fyrirvörum, þ.m.t. fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda og áætlað er að gengið verði frá kaupunum síðar á árinu.

Fjárfesting í áframhaldandi vexti

Til að þjóna þörfum viðskiptavina Marel enn betur til framtíðar og nýta vaxtartækifæri í breytilegum markaðsaðstæðum er lögð áhersla á stafræna vegferð og þjónustulipurð, sem mun leiða til aukinnar fjárfestingar á komandi árum.

Áfram verður lögð áhersla á aukna fjárfestingu í framlínu félagsins í sölu og þjónustu til viðskiptavina til að styðja við frekari vöxt, sem og hagræðingu í framleiðslu og á stoðsviðum. Marel sér jafnframt tækifæri í aukinni sjálfvirkni og stafrænni þróun í framleiðslueiningum og þjónustuneti félagsins í þeim tilgangi að bæta enn frekar þjónustu við viðskiptavini.

Marel mun opna sölu- og þjónustuskrifstofur og sýningarhús í borginni Campinas í Brasilíu í júlí og í Sjanghæ í Kína síðar á árinu.

Horfur

Markaðsaðstæður hafa verið krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum og yfirstandandi COVID-19 heimsfaraldurs. Marel býr að góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaða í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt ásamt breiðu og framsæknu vöru- og þjónustuframboði. Sem stendur er ekki vitað hver fjárhagsleg áhrif COVID-19 munu verða á Marel.

Marel stendur við vaxtarmarkmið sín til meðallangs- og langs tíma.

Marel stefnir að um 40% framlegð (e. gross profit), 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og 6% þróunarkostnaði, til meðallangs tíma.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Afkomuefni

Ítarlegri umfjöllun um rekstrarafkomu má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningar sem er í viðhengi. Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Rafrænn afkomufundur með markaðsaðilum

Fimmtudaginn 22. júlí 2021 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila. Fundurinn verður eingöngu rafrænn en þar munu Árni Oddur Þórðarson forstjóri og Linda Jónsdóttir fjármálastjóri kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á öðrum ársfjórðungi.

Fundinum verður vefvarpað beint á www.marel.com/webcast og upptaka verður aðgengileg á www.marel.com/ir eftir fundinn.

Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn:

  • IS: +354 800 7437 (PIN 79078208#)
  • NL: +31 10 712 9163
  • UK: +44 33 3300 9032
  • US: +1 631 913 1422 (PIN 79078208#)

Fjárhagsdagatal

Marel mun birta árshluta- og ársuppgjör félagsins samkvæmt neðangreindu fjárhagsdagatali:

  • 3F 2021 – 20. október 2021
  • 4F 2021 – 2. febrúar 2022

Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaðar. Vinsamlegast athugið að dagsetningarnar eru birtar með fyrirvara um breytingar.

Fjárfestatengsl

Nánari upplýsingar veita Fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001. 

Samskiptasvið

Fjölmiðlafyrirspurnir skulu sendar á samskiptasvið Marel í gegnum netfangið globalcommunications@marel.com og í síma 563 8200.

Um Marel

Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Hjá Marel starfa nú um 6.800 manns í yfir 30 löndum, þar af um 720 á Íslandi. Marel velti 1.238 milljónum evra árið 2020, en árlega fjárfestir félagið um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið var stofnað 1983, skráð í Kauphöll Íslands árið 1992, og tvíhliða skráð í Euronext kauphöllina í Amsterdam árið 2019.

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar.

Gögn um markaðshlutdeild

Yfirlýsingar um markaðshlutdeild, þar með taldar þær sem varða samkeppnisstöðu Marel, byggjast á utanaðkomandi heimildum og gögnum, svo sem gögnum frá rannsóknastofnunum, iðnaðar- og sölunefndum og hópum, ásamt mati stjórnenda Marel. Séu upplýsingar ekki tiltækar fyrir Marel kunna slíkar yfirlýsingar að vera byggðar á áætlunum og mati utanaðkomandi aðila og/eða stjórnenda. Markaðsstaða er byggð á sölutölum nema annað sé tekið fram.

Viðhengi



Pièces jointes

Marel Q2 2021 Condensed Consolidated Interim Financial Statements Marel Q2 2021 Condensed Consolidated Interim Financial Statements Marel Q2 2021 Press Release