Ársuppgjör Landsvirkjunar 2023


Tillaga um 20 milljarða arð eftir metár

Hagnaður af grunnrekstri Landsvirkjunar á síðasta ári nam 52 milljörðum kr. og jókst um 19% frá fyrra metári, 2022. Fjárhagsstaða fyrirtækisins hefur aldrei verið betri, eiginfjárhlutfall er 65,4% og skuldsetning komin niður í 1,4x rekstrarhagnað fyrir afskriftir. Stjórn fyrirtækisins hyggst leggja til að arður til ríkisins verði 20 milljarðar kr. í ár, líkt og sl. ár. Það eru um 72% af hagnaði ársins. Samanlagður arður sl. þriggja ára nemur rúmum 40 milljörðum kr.

Hörður Arnarson, forstjóri:
„Árið 2023 var besta rekstrarár í tæplega 60 ára sögu Landsvirkjunar. Hagnaður af grunnrekstri var 375 milljónir bandaríkjadala eða um 52 milljarðar króna og  jókst um 19% frá árinu 2022, sem þó var metár. Þessi árangur náðist þrátt fyrir að tekjur af sölu til stórnotenda drægjust saman vegna verðlækkana á mörkuðum, en heildarrekstrartekjur jukust verulega, einkum vegna áhættuvarna. Þannig hefur virk áhættustýring í rekstri Landsvirkjunar sannað gildi sitt, en hún dregur úr tekjusveiflum og stuðlar að stöðugri rekstrarafkomu fyrirtækisins. Rekstrar- og viðhaldskostnaður hækkaði eingöngu um 4% á milli ára. 

Fjárhagsstaða fyrirtækisins hefur aldrei verið betri. Eiginfjárhlutfall er hærra en nokkru sinni fyrr, 65,4%, en var 59,3% í árslok 2022. Nettó skuldir, þ.e. vaxtaberandi skuldir að frádregnu handbæru fé, lækkuðu um 151 milljón bandaríkjadala og skuldsetning er komin niður í 1,4x rekstrarhagnað fyrir afskriftir. Það er svipað eða betra en gengur og gerist hjá öðrum orkufyrirtækjum á Norðurlöndunum sem við berum okkur saman við. Þessi lækkun á vaxtaberandi skuldum hefur vitaskuld jákvæð áhrif á vaxtajöfnuð fyrirtækisins, en vaxtagjöld umfram vaxtatekjur halda áfram að lækka eins og undanfarin ár. Í umhverfi hækkandi vaxta hefur reynst vel að hafa markvisst á árunum þar á undan unnið að því að færa lánaskilmála úr breytilegum yfir í fasta vexti, sem breytast ekki með hækkandi vaxtastigi. Í dag bera 77% lána okkar fasta vexti.

Sterk fjárhagsstaða hefur endurspeglast í lánshæfiseinkunnum Landsvirkjunar, en undir lok ársins hækkaði S&P Global Ratings lánshæfismat fyrirtækisins í A- úr BBB+.
Í ljósi þessa árangurs í rekstri fyrirhugar stjórn fyrirtækisins að leggja til við aðalfund um 20 milljarða króna (150 milljóna bandaríkjadala) arðgreiðslu vegna síðasta árs, eða um 72% af hagnaði ársins.

Á meðan rekstur orkufyrirtækis þjóðarinnar gengur betur en nokkru sinni fyrr eru blikur á lofti í raforkumálum Íslendinga. Framkvæmdir við orkuöflun hafa tafist af ýmsum orsökum,  og líkur eru á því að raforkuframleiðsla nái ekki að anna eftirspurn vegna orkuskipta og almenns vaxtar samfélagsins fyrr en í fyrsta lagi á árunum 2027-28. Vonir standa þó til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir við Hvammsvirkjun og Búrfellslund á árinu, þá virkjunarkosti sem eru komnir lengst í þróun hjá fyrirtækinu.  Einnig er unnið að lokaundirbúningi fyrir stækkun Þeistareykjavirkjunar og stækkun Sigölduvirkjunar og stefnt á að fá heimild stjórnar Landsvirkjunar til að hefja útboð tengd þeim framkvæmdum síðar á árinu.

Rekstrarárin 2022-23 hafa verið einstök í sögu fyrirtækisins, einkum vegna endursamninga síðustu ára, hagstæðra aðstæðna á mörkuðum og raforkusamnings við stórnotanda sem tengdur var verðþróun á Nordpool  og reyndist Landsvirkjun mjög hagstæður en er nú runninn út. Áfram eru horfur á góðri afkomu Landsvirkjunar á árinu 2024, en ekki eru líkur á því að afkoman verði  jafn góð og þessi tvö ár fyrr en að endursamningum við Alcoa lýkur og nýjar aflstöðvar hefja rekstur.“

Viðhengi



Pièces jointes

Ársreikningur LV 2023 Upplýsingar úr uppgjöri