- Tillögur til aðalfundar


Tillögur til aðalfundar Kaupþings banka hf., föstudaginn 7. mars 2008

1. Tillaga um arðgreiðslu

Stjórn bankans leggur til að hluthöfum skuli greiddur arður sem nemur 14.809
milljónum króna vegna rekstrarársins 2007, eða 20 krónur á hlut, sem samsvarar
21% af hagnaði. Arðsréttindadagur (record date) er 12. mars 2008 á Íslandi og í
Svíþjóð. Arðleysisdagur (ex-date) á Íslandi og í Svíþjóð er 10. mars 2008.
Greiðsla arðs skal fara fram 18. mars 2008 (19. mars í Svíþjóð). Að öðru leyti
er vísað til ársreiknings bankans um frekari ráðstöfun hagnaðar og aðrar
breytingar á eiginfjárreikningum bankans. 

2. Tillögur um breytingar á samþykktum

A. Eftirfarandi texti skal bætast við núverandi 1. mgr. 4. gr.:

„Stjórn félagsins er heimilt að ákveða að hlutafé bankans verði skráð í evrum í
stað íslenskra króna, í samræmi við heimild í 4. og 5. mgr. 1. gr.
hlutafélagalaga nr. 2/1995 með síðari breytingum. Hver hlutur skal vera 1 evra
að nafnvirði, sem hefur í för með sér samsvarandi lækkun á fjölda hluta. Við
umreikning frá krónum yfir í evrur skal, í samræmi við 1. gr. hlutafélagalaga,
miða við lokagengi (miðgengi) samkvæmt opinberu viðmiðunargengi Seðlabanka
Íslands í lok næsta reikningsárs á undan því ári þegar ákvörðunin er tekin.
Hafi félagið fengið heimild til að færa bókhald og semja ársreikninga í evrum
skal gengið ákvarðast í samræmi við viðeigandi ákvæði laga um ársreikninga.
Stjórninni skal ennfremur heimilt að gera hverjar þær breytingar á samþykktum
félagsins sem leiða af þessari ákvörðun, þar á meðal að breyta þeim upphæðum
sem birtast í 1. og 3. mgr. 4. gr. samþykktanna og snúa að breytingunni, miðað
við sömu umreikningsaðferð, og að gera samsvarandi breytingar á þeim upphæðum
sem stjórninni er heimilt eða verður heimilt að hækka hlutafé félagsins um.“ 

B. Eftirfarandi málsgrein verður ný málsgrein (5. mgr.) í 4. gr., en núverandi
5. og 6. mgr. verða 6. og 7. mgr.:

„Stjórn félagsins er heimilt að gefa út breytanleg skuldabréf að hámarki að
fjárhæð sem jafngildir EUR 1.500.000.000, eða, eftir aðstæðum, að ábyrgjast
útgáfu og greiðslu slíkra breytanlegra skuldabréfa, sem gefin yrðu út af
einhverju dótturfélaga félagsins, með þeim skilmálum að hægt yrði að breyta
slíkri skuld í hluti í Kaupþingi banka, að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
Stjórninni er ennfremur heimilt, eftir því sem þörf krefur, að hækka hlutafé
félagsins um allt að 1.750.000.000 kr. að nafnverði, með áskrift allt að
175.000.000 nýrra hluta til að uppfylla skuldbindingar félagsins samkvæmt
breytanlegu skuldabréfunum, ef eigendur skuldabréfanna vilja nýta breytirétt
sinn, að hluta eða í heild. Hluthafar falla frá forgangsrétti sínum vegna nýju
hlutanna, samkvæmt 3. mgr. 34. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Stjórn
félagsins er þó heimilt að veita einstökum hluthöfum á hverjum tíma heimild til
að skrá sig fyrir nýjum hlutum að hluta eða öllu leyti. Nýju hlutirnir skulu
vera í sama flokki og með sömu réttindi og aðrir hlutir í félaginu. Nýju
hlutirnir skulu veita réttindi í félaginu frá skrásetningardegi
hlutafjárhækkunarinnar. Engar hömlur verða á viðskiptum með hina nýju hluti.
Stjórn skal að öðru leyti taka ákvörðun um skilmála útgáfu breytanlegu
skuldabréfanna og um hækkun hlutafjárins, og ennfremur um það í hvaða áföngum
heimildin verður nýtt. Stjórninni er ennfremur heimilt að gera nauðsynlegar
breytingar á samþykktum félagsins í tengslum við útgáfu breytanlegu
skuldabréfanna eða hlutafjárhækkunina í kjölfar hennar. Heimild þessi til að
gefa út breytanleg skuldabréf og hækka hlutafé gildir til 1. mars 2013 að svo
miklu leyti sem hún hefur ekki verið nýtt fyrir það tímamark.“ 

3. Tillaga um stjórnarmenn fyrir næsta starfsár

Stjórnarmenn:

1. Sigurður Einarsson - Bretlandi, stjórnarformaður Kaupþings banka hf. (Fyrst
kjörinn 2003.) 
2. Ásgeir Thoroddsen - Íslandi, hrl. (Fyrst kjörinn 2003.) 
3. Bjarnfreður Ólafsson - Íslandi, hdl. (Fyrst kjörinn 2003.) 
4. Brynja Halldórsdóttir - Íslandi, framkvæmdastjóri Norvik hf. (Fyrst kjörin
2004.) 
5. Gunnar Páll Pálsson - Íslandi, formaður VR. (Fyrst kjörinn 2001.) 
6. Hjörleifur Jakobsson - Íslandi, forstjóri Eglu hf. (Fyrst kjörinn 2003.)
7. Lýður Guðmundsson - Bretlandi, starfandi stjórnarformaður Exista hf.,
stjórnarformaður í Símanum hf. og Bakkavör Group hf. 
8. Niels de Coninck-Smith - Danmörku, forstjóri Ferrosan A/S. (Fyrst kjörinn
2005.) 
9. Tommy Persson - Svíþjóð, forstjóri Länsförsäkringar AB. (Fyrst kjörinn
2002.) 

Varamenn: 

1. Guðný Arna Sveinsdóttir - Íslandi, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Kaupþings
banka. 
2. Hildur Árnadóttir - Íslandi, fjármálastjóri Bakkavör Group hf. 
3. Antonios P. Yerolemou - Bretlandi, stjórnarformaður KFF.
4. Jónas Guðbjörnsson - Íslandi, fjármálastjóri Kers ehf.
5. Auður Einarsdóttir - Íslandi, MBA.
6. Panikos J. Katsouris - Bretlandi, framkvæmdastjóri Katsouris Brothers Ltd.
7. Þórður Magnússon - Íslandi, stjórnarformaður Eyris Invest ehf. 
8. Anna Sigurðardóttir - Íslandi, framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins
Brunabótafélag Íslands. 
9. Ásthildur M. Otharsdóttir - Íslandi, forstöðumaður fjárstýringar og
fyrirtækjaþróunar Össurar hf. 

4. Tillaga um laun stjórnarmanna fyrir næsta starfsár

Lagt er til að mánaðarlaun stjórnarmanna verði kr. 400.000, en mánaðarlaun
stjórnarformanns verði kr. 800.000. Stjórnarlaun varamanna verði kr. 400.000
fyrir hvern setinn fund. Þar að auki verði þeim stjórnarmönnum sem sitja í
stjórnarnefndum félagsins greiddar kr. 150.000  á mánuði fyrir setu í hverri
nefnd. 

5. Kosning endurskoðanda fyrir næsta reikningsár

Gerð er tillaga um KPMG hf. og Sigurð Jónsson, löggiltan endurskoðanda, fyrir
þess hönd. 

6. Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu

Stjórn Kaupþings banka hf. hefur samþykkt eftirfarandi starfskjarastefnu
félagsins í samræmi við 79. gr. a. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, með síðari
breytingum. Stjórnin leggur til að aðalfundur bankans, sem haldinn er 7. mars
2008, staðfesti eftirfarandi stefnu. Starfskjarastefnan er bindandi fyrir
stjórn bankans að því er varðar greiðslur í formi hlutabréfa í bankanum, kaup-
og söluréttar, forkaupsréttar og annars konar greiðslna sem tengdar eru
hlutabréfum í félaginu eða þróun verðs á hlutabréfum í félaginu. Að öðru leyti
er starfskjarastefnan til leiðbeiningar fyrir stjórn félagsins. Ekki má líta
svo á sem starfskjarastefna þessi veiti tæmandi yfirsýn yfir starfskjör í
félaginu. 

Starfskjarastefna þessi tekur á flestum þáttum í tengslum við umbun og
hlunnindi (ráðningarskilmála og -skilyrði) forstjóra samstæðunnar (forstjóra)
og æðstu stjórnenda bankans. Lykilstarfsmenn eru meginstoð áframhaldandi vaxtar
og viðgangs bankans. Kjör lykilstarfsmanna verða að vera aðlaðandi og
samkeppnishæf. Áfram skal veita lykilstarfsmönnum valrétti og fjármögnun vegna
þeirra. 

Stjórnarmenn skulu fá fasta mánaðarlega greiðslu í samræmi við ákvörðun
aðalfundar. Stjórnin skal leggja fram tillögu um laun til eins árs, að teknu
tilliti til þess tíma sem stjórnarmenn verja í störf sín, ábyrgðar þeirra og
starfsemi bankans í heild. 

Starfskjaranefnd gerir tillögu til stjórnar um launagreiðslur til forstjóra og
stjórnarformanns og útreikning kaupauka. Tillagan er byggð á athugunum
nefndarinnar á launagreiðslum yfirmanna í evrópskum bönkum og upplýsingum frá
utanaðkomandi ráðgjöfum. 

Grunnlaun annarra framkvæmdastjóra eru ákvörðuð af forstjóra í samráði við
framkvæmdastjóra starfsmannasviðs, að teknu tilliti til umfangs viðkomandi
sviðs og ábyrgðar. 

Kaupaukagreiðslur til annarra en forstjóra og stjórnarformanns eru ákvarðaðar
af forstjóra í samráði við stjórnarformann og framkvæmdastjóra
starfsmannasviðs. Kaupaukagreiðslur eru byggðar á afkomu bankans og/eða
viðeiganda sviða/deilda. Greiðslu á tilteknu hlutfalli af kaupaukagreiðslum
umfram ákveðna upphæð er frestað í eitt til þrjú ár og fjárhæðin tengd við
gengi hlutabréfa í bankanum. Greiðslan er þó háð því grunnskilyrði að
viðkomandi starfsmaður sé áfram starfandi innan samstæðunnar. 

Til þess að samræma hagsmuni starfsmanna við langtímahagsmuni hluthafa hefur
bankinn gert starfsmönnum kleift að kaupa hluti í bankanum. Bankinn hefur í
þessu skyni gefið út kauprétti, veitt lán í samræmi við almennar reglur til að
fjármagna kaup og í sumum tilvikum gefið út sölurétti. Kaup- og söluréttir
gagnvart starfsmönnum hverju sinni geta í heild numið allt að 9% af útgefnu
hlutafé í bankanum. Þetta er sama hlutfall, 9%, og ákveðið var af hluthöfum
árið 2004 og sama hlutfall og samþykkt var á aðalfundi 2007. Kaup- eða
samningsverð valrétta skal vera markaðsverð þann dag sem rétturinn er gefinn
út. 

Kaupþing banki greiðir lífeyrisframlag í samræmi við lög, reglur og
kjarasamninga á þeim stöðum þar sem bankinn starfar. Kaupþingi banka hf. er
heimilt að semja sérstaklega við æðstu stjórnendur um viðbótarlífeyrisframlag
ef þörf krefur. 

Greiðslur til æðstu stjórnenda við starfslok skulu almennt einungis byggja á
viðeigandi starfssamningi. Við sérstakar aðstæður, þegar slíkt fyrirkomulag er
til hagsbóta fyrir bankann, getur bankinn gert sérstaka starfslokasamninga við
æðstu stjórnendur. 

7. Tillaga um að endurnýja heimild bankans til að kaupa eigin hluti eða taka þá
að veði 

Stjórn bankans hefur heimild til þess að kaupa eða taka að veði eigin hluti í
bankanum, fyrir hönd bankans. Heimild þessi skal standa í 18 mánuði frá
aðalfundi bankans 2008 og takmarkast við að hlutir sem keyptir eru eða teknir
að veði fari ekki yfir 10% af heildarhlutafé bankans á hverjum tíma. Kaupverð
hluta skal vera lægst 20% lægra og hæst 20% hærra en það gengi sem skráð er hjá
Kauphöll Íslands (OMX Nordic Exchange á Íslandi) eða Kauphöllinni í Stokkhólmi
(OMX Nordic Exchange í Svíþjóð). 

Samsvarandi heimild sem samþykkt var á aðalfundi 2007 fellur niður.