Afkoma Icebank hf. á fyrsta ársfjórðungi ársins 2008


Fréttatilkynning
Reykjavík, 20. maí 2008

Afkoma Icebank hf. á fyrsta ársfjórðungi ársins 2008 
Hreinar vaxtatekjur aukast en afkoman neikvæð um 3,4 ma.kr. 

Hreinar vaxtatekjur Icebank hf. námu 809 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi ársins
2008 samanborið við 507 m.kr. eftir fyrsta ársfjórðung fyrra árs. Aukningin er
um 60% og eru vaxtatekjur nú 59% hærri en allur rekstrarkostnaður bankans. 

Afkoma bankans eftir skatta er hinsvegar neikvæð á ársfjórðungnum um 3.360
m.kr. en var neikvæð um 2.747 m.kr. á síðasta ársfjórðungi 2007. Þessi
niðurstaða skýrist einkum af tvennu: 
a)Gengistapi af markaðsbréfum, sem nemur 3.532 m.kr., einkum af eignarhlut
bankans í Exista sem lækkaði um 44% á ársfjórðungnum en bankinn átti 281
milljón hlut í ársbyrjun. 
b)Varúðarniðurfærslu krafna að fjárhæð 2.278 m.kr. 

Eigið fé bankans lækkar þannig milli ársfjórðunga, úr tæpum 13.361 m.kr. í
10.309 m.kr. Að teknu tilliti til gildistöku breytinga á lögum um tekjuskatt
mun mun bankinn tekjufæra tekjuskattsskuldbindingu vegna frestunar á
söluhagnaði hlutabréfa að fjárhæð 1,2 milljarðar króna verður eiginfjárhlutfall
bankans á CAD grunni 10,1%. 

Heildareignir bankans lækkuðu á ársfjórðungnum, einkum vegna aukins aðhalds í
útlánum í kjölfar óstöðugleika á fjármálamörkuðum. Eignir bankans námu 240
ma.kr. í lok ársfjórðungsins en voru 253 ma.kr.í árslok 2007. Rekstrarkostnaður
bankans nam 508 m.kr. á ársfjórðungnum en var 647 m.kr. á síðasta ársfjórðungi
2007. 

Agnar Hansson bankastjóri: 
„Það var á brattann að sækja á fyrsta ársfjórðungi líkt og á síðasta
ársfjórðungi 2007 og ljóst að afkoman er ekki góð. Þó er ánægjulegt hversu
mikið hreinar vaxtatekjur jukust en það sýnir betur en margt annað að
grunnrekstur bankans stendur styrkum fótum. Vaxtatekjurnar einar og sér standa
undir öllum rekstrarkostnaði og gott betur. Icebank hefur ávallt lagt áherslu á
hagkvæmni og skilvirkni í rekstri og við erum því vel í stakk búin til að
takast á við krefjandi markaðsaðstæður. 

Icebank hefur áfram minnkað stöðu sína í Exista og nemur eign bankans í
félaginu nú 111 milljónum hluta. Þessi breyting hefur áhrif til hækkunar á CAD
eiginfjárgrunni bankans. 

Gaumgæfileg skoðun hefur farið fram á eignum bankans. Í kjölfarið var gerð sú
varúðarráðstöfun að færa niður kröfur að fjárhæð 2.278 m.kr. Þetta er einkum
gert vegna verðrýrnunar trygginga í formi hlutabréfa. Það er trú mín að með
þessari aðgerð mæti bankinn vel þeim lækkunum sem hafa orðið á mörkuðum. 

Icebank hefur nýlokið endurfjármögnun erlendra langtímalána ársins 2008 á góðum
kjörum. Lausafjárstaða bankans er góð og hefur bankinn nægt laust fé til næstu
12 mánaða. Ég tel að Icebank sé kominn yfir erfiðasta hjallann og við horfum
björtum augum til framtíðar. Annar ársfjórðungur hefur farið vel af stað og
framtíðarafkomuhorfur eru góðar.“ 

Nánari upplýsingar veitir:
Agnar Hansson, bankastjóri Icebank, í síma 840 4140

Attachments

icebank 1q 2008.pdf