Lýsing/tilkynning vegna birtingar 19. nóvember 2012

Fyrirvari vegna birtingar lýsingar dagsettri 19. nóvember 2012


Lýsing Fjarskipta hf., dags. 19. nóvember 2012, sjá viðhengi, varðar almennt útboð á hlutum í Fjarskipti hf. og töku allra útgefinna hluta í Fjarskiptum hf. til viðskipta á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland hf. Hvoru tveggja fer fram í samræmi við íslensk lög og reglugerðir, þar á meðal lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og reglugerð nr. 243/2006 um gildistöku reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar nr. 809/2004 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og -ráðsins 2003/71/EB, sem hefur verið innleidd í íslensk lög í samræmi við ákvæði EES samningsins. Lýsingin hefur verið yfirfarin og staðfest af Fjármálaeftirlitinu.

 

Útboð hlutafjár í Fjarskiptum hf. fer fram í tveimur hlutum, lokuðum hluta og opnum hluta. Lokaði hluti útboðsins fer fram frá kl. 09:00 til kl. 16:00 þann 3. desember 2012. Opni hluti útboðsins fer fram frá kl. 10:00 þann 4. desember til kl. 16:00 þann 6. desember 2012. Í opna hluta útboðsins verður öllum fjárfestum sem hafa yfir að ráða íslenskri kennitölu og eru fjárráða, í skilningi lögræðislaga nr. 71/1997, gefinn kostur á að skrá sig fyrir hlutum og skal hver áskrift vera að lágmarksfjárhæð 50.000 kr. að kaupverði. Öllum áskriftum í opna hluta útboðsins skal skilað á sérstökum rafrænum áskriftarvef Íslandsbanka sem aðgengilegur verður fjárfestum á vef Íslandsbanka www.islandsbanki.is.

 

Hlutirnir eru einungis boðnir til sölu á Íslandi og eru ekki boðnir til sölu í lögsagnarumdæmum þar sem slíkt útboð myndi krefjast aukinnar skráningar umfram þá lýsingu sem gefin er út og staðfest af íslenskum eftirlitsaðilum í tengslum við útboðið.

 

Lýsingin er gefin út á íslensku, bæði á rafrænu og prentuðu formi. Lýsingin samanstendur af þremur aðskildum skjölum; útgefandalýsingu, verðbréfalýsingu og samantekt, sem öll eru dags. 19. nóvember 2012, og skal skoðast sem ein heild.

 

Lýsingu þessari má ekki dreifa eða miðla á nokkurn hátt til landa eða í löndum þar sem birting krefst frekari skráningaraðgerða eða annarra aðgerða en þeirra sem íslensk lög og reglugerðir krefjast eða þar sem slíkt bryti í bága við lög eða reglugerðir í viðkomandi landi. Lýsingunni skal hvorki dreifa né senda í pósti, með einum eða öðrum hætti til eða innan Bandaríkjanna, Ástralíu, Kanada eða Japan. Fjarskipti hf., Framtakssjóður Íslands slhf. og Íslandsbanki hf. eru ekki skaðabótaskyld vegna dreifingar þriðja aðila á lýsingunni.

 

Lýsinguna má undir engum kringumstæðum skoða eða túlka sem loforð um árangur í rekstri eða um ávöxtun fjármuna af hálfu Fjarskipta hf., Íslandsbanka hf. sem umsjónaraðila eða annarra aðila. Hver sá sem hyggst taka þátt í útboðinu á hlutum í Fjarskiptum hf. er hvattur til að kynna sér lýsinguna ítarlega.

Fyrirvari þessi er gerður í samræmi 2. tl .29. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 809/2004 frá 29. apríl 2004.

 
Fjárfestar eru hvattir til að kynna sér efni lýsingar Fjarskipta hf. í heild sinni. Fjárfestar eru hvattir til að byggja mat sitt á Fjarskiptum hf. á þeim upplýsingum sem fram koma í lýsingunni en ekki á þeirri stuttu samantekt sem kynningin er. Fjárfesting í hlutabréfum felur í sér margvíslega áhættuþætti. Áður en tekin er ákvörðun um fjárfestingu í hlutabréfum Fjarskipta hf. ættu fjárfestar að kynna sér allar upplýsingar sem koma fram í lýsingunni, og er sérstaklega bent á kafla sem bera heitið Áhættuþættir. Þeir óvissu- og áhættuþættir sem fjallað er um þar eru þess eðlis að þeir geta haft áhrif á Fjarskipti hf. og þar með á verð á hlutum í Fjarskiptum hf. Ef eitthvað af þessum áhættuþáttum koma fram kann það að leiða til þess að verð á hlutum í Fjarskiptum hf. falli og fjárfestar tapi fjárfestingu sinni, að hluta eða í heild. Aðrir áhættu- og óvissuþættir gætu einnig haft neikvæð áhrif á starfsemi Fjarskipta hf. og/eða verðmæti verðbréfa sem Fjarskipti hf. gefur út, til að mynda þættir sem ekki eru til staðar á þessari stundu, eða sem ekki eru taldir skipta verulegu máli eins og er, eða sem Fjarskiptum hf. er ekki kunnugt um.


Attachments

Fjarskipti hf Lysing 19 11 2012.pdf