Ársreikningur Langanesbyggðar fyrir árið 2012


 

Ársreikningur Langanesbyggðar fyrir árið 2012 var tekinn til fyrri umræðu í sveitarstjórn þriðjudaginn 30. apríl 2013 og samþykkti sveitarstjórn að vísa ársreikningnum til síðari umræðu þann 8. maí 2013. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn.

Ársreikningurinn hefur að geyma ársreikning fyrir þær rekstrareiningar sem falla undir A hluta starfsemi sveitarfélagsins og samantekinn ársreikning fyrir alla starfsemi þess þ.e. A og B hluta, sbr. 60 gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

Til A hluta, þ.e. sveitarsjóðs, telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum, en auk Aðalsjóðs er um að ræða Eignasjóð og Þjónustumiðstöð. Til B hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins, en rekstur þessara fyrirtækja er fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtæki sem falla undir B hluta starfsemi sveitarfélagsins eru Félagslegar íbúðir, Fráveita, Vatnsveita, Hafnarsjóður, Naust og Fræ ehf.

Samkvæmt rekstrarreikningi ársins 2012 námu rekstrartekjur A og B hluta 654,5 millj. kr. samanborið við 590,2 millj. kr. á árinu 2011. Hækkun milli ára nemur því um 9,8%.

Rekstrargjöld A og B hluta, þ.e. laun og launatengd gjöld, annar rekstrarkostnaður og afskriftir námu á árinu 546,7 millj. kr. en voru 554,8 millj. kr. á árinu 2011. Lækkun frá fyrra ári nemur 1,5%.

Fjármunatekjum og fjármagnsgjöldum eru sambærilegt á milli ára. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur A og B hluta árið 2012 og árið 2011 námu 50,3 millj. kr.

Samkvæmt sjóðstreymisyfirliti ársins 2012 nemur veltufé frá rekstri 111,2 millj. kr. samanborið við 39,7 millj. kr. á árinu 2011.

Hagnaður ársins nemur því 57,3 millj. kr. fyrir A og B hluta, samanborið við 17,5 millj. kr. rekstrarhalla á árinu 2011.

 

 

Frekari upplýsingar veitir:

Gunnólfur Lárusson,sveitarstjóri-sveitarstjori@langanesbyggd.is í síma 468-1220


Attachments

Ársreikningur Langanesbyggðar 2012.pdf