Skeljungur: Skeljungur hf. semur um endurfjármögnun


Skeljungur hefur samið við Bank Nordik og Eik banka, í samráði við Seðlabanka Íslands, og náð samkomulagi við Arion banka um helstu skilmála í tengslum við endurfjármögnun á öllum vaxtaberandi skuldum félagsins. Gert er ráð fyrir að endurfjármögnunin muni, á ársgrundvelli frá því að samningar taka gildi, lækka fjármagnskostnað félagsins um 160 til 170 milljónir króna frá því sem annars hefði orðið, þó háð skuldsetningu félagsins yfir tímabilið. Jafnframt mun gjörningurinn draga úr gjaldeyrisáhættu félagsins.

Þann 30. september sl. stóðu vaxtaberandi skuldir í um 6.954 milljónum króna og var þá um 80% lánsfjármögnunar í íslenskum krónum. Eftir endurfjármögnunina munu um 38% vaxtaberandi skulda vera í íslenskum krónum, 54% í dönskum krónum og um 8% í Bandaríkjadollurum. Eins og fram kom í skráningarlýsingu félagsins hefur félagið átt í viðræðum við fjármögnunaraðila á undanförnum misserum með það að markmiði að draga úr vaxtakostnaði félagsins og gjaldeyrisáhættu.

Lánin eru tryggð með veðum í birgðum, kröfum, rekstratækjum og öllum helstu fasteignum félagsins, ásamt hlutafé í dótturfélagi Skeljungs, Magn P/F.

Fyrirhuguð fjármögnun er háð fyrirvörum um endanlega skjalagerð. Búist er við að  fjármögnunin  gangi í gegn á fyrsta ársfjórðungi 2017.]

Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs:

"Við erum afar ánægð með að hafa náð samningum um endurfjármögnun félagsins. Þetta gerir okkur ekki einungis kleift að lækka vaxtakostnað verulega heldur einnig draga úr gjaldeyrissáhættu félagsins. Starfsemi okkar í Færeyjum, sem rekin er undir merkjum Magns, dótturfélags Skeljungs, er grundvöllur þess að hægt var ná fram slíkri lækkun vaxtakostnaðar þar sem félagið er með sjóðstreymi í dönskum krónum og sterk tengsl við færeyska banka."

Nánari upplýsingar veitir Benedikt Ólafsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Skeljungs hf., s: 840-3071, tölvupóstur: fjarfestar@skeljungur.is.