Source: Hagar hf.

Vegna samruna Haga hf., Olíuverzlunar Íslands hf. og DGV ehf.

Þann 8. mars sl. tilkynntu Hagar um afturköllun samrunatilkynningar vegna samruna Haga, Olíuverzlunar Íslands (Olís) og DGV. Hagar hafa nú sent inn nýja samrunatilkynningu á breyttum grundvelli. Í tilkynningunni eru boðin skilyrði er lúta að lóðréttum áhrifum samrunans, þ.e. vegna áhrifa samrunans á birgðahald og dreifingu á eldsneytismarkaði, ætluðum láréttum áhrifum, þ.e. stöðu aðila á dagvöru- og eldsneytismarkaði og áhrifa samrunans á staðsetningar dagvöruverslana. Skilyrðunum er ætlað að eyða þeim samkeppnishindrunum sem Samkeppniseftirlitið hefur leitt líkum að séu til staðar við rannsókn málsins á fyrri stigum. Þá er ljóst að samrunanum kunna að verða sett skilyrði er lúta að aðkomu lífeyrissjóða að félaginu.

Í kaupsamningnum, sem undirritaður var 26. apríl 2017, um kaup félagsins á öllu hlutafé í Olís og DGV, kom fram að hluti kaupverðs verði greiddur með afhendingu á 111 milljónum hluta í kaupanda. Seljendur skuldbundu sig til að hvorki selja né framselja þá hluti sem þeir fá afhenda í 12 mánuði frá afhendingu. Samkeppniseftirlitið hefur lýst yfir að sú staða, að annar seljandi Olís og DGV, FISK-Seafood ehf., sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga svf., eignist sem greiðslu fyrir hlutafé sitt í Olís, eignarhlut í sameinuðu félagi, hafi skaðleg áhrif á samkeppni og kalli á íhlutun. Samkvæmt bestu vitneskju Haga liggur nú fyrir yfirlýsing Kaupfélags Skagfirðinga, sem eiganda FISK-Seafood, um að félagið sé reiðubúið að selja sig niður í sameinuðu félagi innan tiltekins tíma frá undirritun mögulegrar sáttar í málinu og muni hlíta ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um heimilt eignarhlutfall. Eru Hagar reiðubúnir að undirgangast skuldbindingu um að aflétta sölubanni, vegna afhentra hluta í Högum, sem FISK-Seafood fær skv. kaupsamningi.

Kaupsamningurinn er sem fyrr segir háður fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, gagnvart öllum framboðnum skilyrðum, og því verður ekki gengið frá viðskiptunum fyrr en afstaða Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir.


Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri Haga hf., í síma 530-5500.