Source: Hagar hf.

Vegna samruna Haga hf., Olíuverzlunar Íslands hf. og DGV ehf.

Hagar hafa lagt fram nýja tillögu að skilyrðum eftir viðræður við Samkeppniseftirlitið.

Hagar sendu inn nýja samrunatilkynningu 28. mars sl. vegna samruna Haga, Olíuverzlunar Íslands (Olís) og DGV, með uppfærðum tillögum að skilyrðum, eftir að hafa afturkallað fyrri tilkynningu hinn 8. mars sl. og hófst frestur Samkeppniseftirlitsins til meðferðar málsins að líða 28. mars. Þann 29. apríl sl. tilkynntu Hagar um að félaginu hefði borist frummat um hina nýju samrunatilkynningu, þar sem frummat eftirlitsins var að Hagar hefðu ekki sýnt fram á að framboðin skilyrði nægðu til að leysa úr öllum þeim samkeppnislegu vandamálum sem annars leiddu af samrunanum. Hafa Hagar nú mótað nýja tillögu að skilyrðum sem félagið er reiðubúið að undirgangast en tillagan er mótuð eftir samskipti Haga og Samkeppniseftirlitsins og er ætlað að eyða ætluðum samkeppnishindrunum vegna samrunans.

Tillaga Haga að skilyrðum má finna í viðhengi. Lýtur hún meðal annars að því að félagið selji frá sér fasteign Haga (Bónuss) að Faxafeni 14, Reykjavík, verslanir Bónuss að Hallveigarstíg 1, Reykjavík og Smiðjuvegi 2, Kópavogi, þjónustustöðvar Olís í Hamraborg 12, Kópavogi og Háaleitisbraut 12, Reykjavík og ÓB stöð við Starengi 2, Reykjavík, auk þurrvöruhluta verslunar Olís í Stykkishólmi. Jafnframt hefur félagið meðal annars lagt til aðgerðir til að auka aðgengi að eldsneyti í heildsölu og birgðarými eldsneytis svo og til að bregðast við eignatengslum keppinauta á eldsneytis- og dagvörumarkaði.

Hagar hafa áður tilkynnt um yfirlýsingu Kaupfélags Skagfirðinga til Samkeppniseftirlitsins um að þeir séu reiðubúnir að selja sig niður í sameinuðu félagi, til að mæta ætluðum skaðlegum áhrifum eignarhalds KS, í gegnum FISK-Seafood, í sameinuðu félagi á samkeppni, auk þess sem samrunanum kunni að verða sett skilyrði er lúta að aðkomu lífeyrissjóða að félaginu.

Kaupsamningur um kaup Haga á öllu hlutafé í Olís og DGV er sem fyrr háður fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, gagnvart öllum framboðnum skilyrðum, og því verður ekki gengið frá viðskiptunum fyrr en afstaða Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir.

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri Haga hf., í síma 530-5500.

Viðhengi