Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group: „Undanfarið hefur verið unnin viðamikil greining á starfsemi félagsins, stefnu og áherslum til framtíðar. Að þeirri vinnu hafa fjölmargir komið, meðal annars um 600 starfsmenn víðs vegar úr starfseminni á sérstökum vinnustofum. Sú breyting sem við gerum nú á skipulaginu er afrakstur þessarar greiningarvinnu. Markmiðið er að skerpa enn frekar á áherslum okkar í sölu- og markaðsmálum annars vegar og þjónustu við viðskiptavini hins vegar og styrkja þannig félagið til framtíðar.“

Nýtt svið, Þjónustuupplifun (Customer Experience), mun taka við þeim þáttum starfseminnar sem snúa að þjónustuupplifun viðskiptavina Icelandair. Birna Ósk Einarsdóttir, sem gekk til liðs við félagið í ársbyrjun sem framkvæmdastjóri stefnumótunar- og viðskiptaþróunarsviðs, verður framkvæmdastjóri sviðsins. Sviðið mun meðal annars bera ábyrgð á þjónustu um borð, framlínu, vildarklúbbi, viðbótartekjum og vöruþróun. Þá mun stafræn þróun og gagnavinnsla vera hluti af sviðinu ásamt stefnumótun og viðskiptaþróun.

Starfsemi sölu- og markaðssviðs Icelandair og starfsemi Icelandair Cargo munu heyra undir einn framkvæmdastjóra. Gunnar Már Sigurfinnsson, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Icelandair Cargo undanfarin tíu ár, mun verða framkvæmdastjóri sviðsins. Hann var framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair frá 2005-2008. Eftir breytinguna mun sölu- og markaðssvið meðal annars bera ábyrgð á sölu félagsins á öllum mörkuðum, markaðsmálum, tekjustýringu, leiðakerfi og dreifingu.

Við breytinguna fækkar um einn í framkvæmdastjórn félagsins og lætur Guðmundur Óskarsson af störfum sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs. Hann mun starfa áfram hjá félaginu.


Um framkvæmdastjóra:

Birna Ósk Einarsdóttir hefur starfað hjá Icelandair frá ársbyrjun 2018.  Hún var áður framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar. Hún var framkvæmdastjóri hjá Símanum frá árinu 2011, síðast yfir sölu- og þjónustusviði. Birna Ósk starfaði hjá Símanum frá árinu 2001.

Gunnar Már Sigurfinnsson hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Icelandair Cargo frá árinu 2008.  Hann var framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair frá 2005-2008 og svæðisstjóri Icelandair í Þýskalandi, Hollandi og Mið-Evrópu frá 2001-2005.  Hann var sölustjóri Icelandair í Þýskalandi frá árinu 1997 til 2000.  Hann var sölu- og markaðsstjóri Flugleiða Innanlands til ársins 1997, og gegndi ýmsum störfum hjá því félagi frá árinu 1986. 


Frekari upplýsingar veita:

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sími: 896-1455
Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, sími: 665-8801