Eik fasteignafélag hf.: Árshlutauppgjör fyrstu sex mánuði ársis 2018


  • Rekstrartekjur tímabilsins námu 3.932 m.kr.
  • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, söluhagnað og afskriftir nam 2.535 m.kr.
  • Heildarhagnaður tímabilsins nam 954 m.kr.
  • Handbært fé frá rekstri nam 1.439 m.kr. á tímabilinu.
  • Bókfært virði fjárfestingareigna nam 86.862 m.kr. og bókfært virði eigna til eigin nota nam 3.717 m.kr. í lok tímabilsins.
  • Matsbreyting fjárfestingareigna nam 411 m.kr. á tímabilinu.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 56.934 m.kr. í lok tímabilsins.
  • Eiginfjárhlutfall nam 31,2%.
  • Hagnaður á hlut var 0,28 kr.

Árshlutareikningur Eikar fasteignafélags hf. fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2018 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins þann 30. ágúst 2018. Árshlutareikningurinn var kannaður af endurskoðanda félagsins.

Meðfylgjandi er árshlutaskýrsla sem inniheldur árshlutareikning fyrstu sex mánuði ársins ásamt ítarlegri upplýsingum um rekstur félagsins en fram koma í tilkynningunni

Rekstur félagsins

Rekstur félagsins var traustur og stöðugur fyrstu sex mánuði ársins og var í takt við áætlanir stjórnenda. Rekstrartekjur félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins 2018 námu 3.932 m.kr. sem er um 8,4% aukning á milli ára. Þar af voru leigutekjur 3.313 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, söluhagnað og afskriftir nam 2.535 m.kr. og jókst um 7,2% milli ára. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 1.194 m.kr. og heildarhagnaður tímabilsins nam 954 m.kr.

NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, söluhagnað og afskriftir sem hlutfall af leigutekjum) nam 74,8% á fyrstu sex mánuðum ársins 2018 samanborið við 76,0% á fyrstu sex mánuðum ársins 2017.

Fjárfestingareignir félagsins eru metnar á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og stuðst er m.a. við núvirt framtíðarsjóðstreymi einstakra eigna. Breytingar á gangvirði eru færðar undir matsbreytingu fjárfestingareigna sem nam á tímabilinu 411 m.kr.

Efnahagur félagsins

Heildareignir félagsins námu 91.119 m.kr. þann 30. júní 2018, þar af námu fjárfestingareignir 86.862 m.kr. og eignir til eigin nota 3.717 m.kr. Pósthússtræti 2 (Hótel 1919) er fært sem eigin eign þar sem starfræktur er annar rekstur en útleiga fasteigna í eigninni en reksturinn er í eigu eins dótturfélags Eikar. Eigið fé félagsins nam 29.280 m.kr. í lok júní 2018 og var eiginfjárhlutfall 31,2%. Heildarskuldir félagsins námu 64.442 m.kr. þann 30. júní 2018, þar af voru vaxtaberandi skuldir 56.934 m.kr. og tekjuskattsskuldbinding 6.248 m.kr. Á aðalfundi félagsins, sem haldinn var 22. mars 2018, var samþykkt að greiða 915 m.kr. í arð til hluthafa, eða sem nemur 0,26 kr. á hlut og var arðurinn greiddur til hluthafa þann 26. apríl.

Virðisútleiguhlutfall

Virðisútleiguhlutfallið lækkaði lítillega frá áramótum, eða um 0,1%, og stendur í 95,2% í lok júní 2018.

Breytingar á eignasafni félagsins frá áramótum

Félagið keypti tvö vel staðsett lagerhúsnæði á tímabilinu sem bæði eru í fullri útleigu. Um er að ræða Vatnagarða 22 og Smiðshöfða 7 sem eru samanlagt 4.427 fm. Félagið seldi Ármúla 13a, eignarhlut sinn í Bæjarlind 14-16 og Vegmúla 4 í byrjun júlí. Eignirnar eru samanlagt 2.985 fm.

Stækkun á skuldabréfaflokknum EIK 161047

Félagið hefur stækkað skuldabréfaflokkinn EIK 161047 þrisvar sinnum frá áramótum um samtals 10.100 m.kr. að nafnvirði á 3,58% veginni ávöxtunarkröfu, nú síðast þann 27. ágúst sl. Heildarstærð EIK 161047 er 20.000 m.kr. eftir þessar stækkanir og var flokkurinn skráður á markað í byrjun júní.

Félagið hefur lokið endurfjármögnun á skuldum félagsins vegna kaupa á Mýrargötu 2-16 og framkvæmdafjármögnun á Suðurlandsbraut 8 ásamt því að lengt var í framkvæmdafjármögnun vegna Suðurlandsbrautar 10.

Nýjar leiðir og nýir markaðir

Félagið hefur haft til skoðunar hvort til staðar séu vannýtt tækifæri í eignasafni félagsins sem eru til þess fallin að styrkja tekjugrunn þess. Í því samhengi var skipuriti félagsins breytt þar sem nýtt svið, viðskiptaþróun, var stofnað. Sviðinu er ætlað að byggja upp starfsemi í fasteignum félagsins og efla þjónustu við viðskiptavini. Áhersla verður meðal annars lögð á stafræna þróun og að fara nýjar leiðir í nýtingu fasteigna með fjölbreyttari tekjustofnum.

Þá hefur Eik fasteignafélag undirritað áskriftarsamkomulag um þátttöku í breska framtakssjóðnum (e. private equity fund) NW1 UK Logistics LP með tilteknum fyrirvörum þar sem félagið skuldbindur sig til þess að leggja sjóðnum til allt að 10.000.000 GBP. Eigið fé sjóðsins getur orðið allt að 55.000.000 GBP. Stefnt er að því að eiginfjárhlutfall sjóðsins verði að öllu jöfnu á bilinu 40-45%. Þá er stefna stjórnar sú að erlendar fjárfestingar geti orðið að hámarki 5% af eignasafni félagsins.

Með fjárfestingu í fjárfestingarsjóðnum NW1 hefur stjórn félagsins stigið mjög varfærið skref í átt að fjárfestingum erlendis. Fjárfestingin skilar félaginu þekkingu til framtíðar með fjárhagslegri skuldbindingu sem nemur 2% af efnahagsreikningi félagsins. Þá er fjárhagsleg skuldbinding takmörkuð við að hámarki 4% af efnahagsreikningnum eins og staða félagsins er í dag þegar sjóðurinn verður að fullu fjárfestur m.v. markmið sjóðsins um eiginfjárhlutfall. Fjárhagsleg skuldbinding Eikar og áhætta er þannig takmörkuð.

Hækkun fasteignamats

Þjóðskrá Íslands birti nýtt fasteignamat fyrir árið 2019 í byrjun júní síðastliðinn. Hækkun verður á mati 99,2% fasteigna en lækkun á mati 0,8% eigna á landsvísu. Fasteignamat atvinnuhúsnæðis mun að meðaltali hækka um 15% á landinu öllu en um 17,2% á höfuðborgarsvæðinu þar sem um 90% eignasafn Eikar er staðsett. Hækkunin á mati fasteignasafns Eikar verður tæp 17%

Fasteignagjöld eru stærsti kostnaðarliður Eikar og er hækkunin á fasteignamati í engu samræmi við þróun leiguverðs. Eik hefur á undanförnum misserum sett inn ákvæði í nýja samninga sem heimilar félaginu að hækka leigu vegna hækkunar á fasteignamati. Ákvæðið er komið í samninga sem ná yfir um 13% af leigutekjum félagsins.

Eignasafn félagsins

Eik fasteignafélag sinnir rekstri og útleigu á atvinnuhúsnæði. Fjöldi eigna félagsins er yfir 100 og telja þær samtals yfir 300 þúsund útleigufermetra. Virði fasteigna félagsins er tæplega 91 ma.kr. og heildarfjöldi leigutaka er yfir 450.

Helstu fasteignir félagsins á höfuðborgarsvæðinu eru Borgartún 21 og 21a, Borgartún 26, Suðurlandsbraut 8, Mýrargata 2-16, Pósthússtræti 2 (Hótel 1919), Smáratorg 3 (Turninn), Smáratorg 1, Álfheimar 74 (Nýi Glæsibær) og Austurstræti 5, 6, 7 og 17. Helsta fasteign félagsins utan höfuðborgarsvæðisins er Glerártorg.

Stærstu leigutakar eru Húsasmiðjan, Flugleiðahótel, Fasteignir ríkissjóðs, Rúmfatalagerinn, Landsbankinn, Síminn, Sýn, Míla, Deloitte og Vátryggingafélag Íslands.

Stærsti hluti fasteignasafns Eikar er skrifstofuhúsnæði eða 44%. Næst kemur verslunarhúsnæði 25%, hótel 12%, lagerhúsnæði 12% og veitingahúsnæði 4%. Um 90% fasteigna félagsins eru á höfuðborgarsvæðinu, þar af 36% á fjármála- og viðskiptasvæði Reykjavíkur (aðallega innan póstnúmera 105 og 108) og 22% í miðbæ Reykjavíkur. Alls er 9% eignasafnsins á landsbyggðinni, þar af 8% á Akureyri.

Kynningarfundur

Opinn kynningarfundur verður haldinn 31. ágúst n.k., klukkan 8:30 á Grand Hóteli í fundarherberginu Hvammur, Sigtúni 38, þar sem Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar og Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna uppgjörið ásamt því að fara yfir kynningu sem var birt 24. ágúst og svara spurningum að lokinni kynningu. Boðið verður upp á léttan morgunmat frá kl. 8:00.

Fjárhagsdagatal 2018

  • Afkoma 3F 2018                                           31. október 2018
  • Afkoma 4F og ársuppgjör 2018                    28. febrúar 2019

Nánari upplýsingar veita:

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200
Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is, s. 590-2209 / 820-8980

Viðhengi


Attachments

1H Árshlutaskýrsla 2018