Eik fasteignafélag hf., kt.590902-3730, hefur í dag skrifað undir samkomulag um einkaviðræður um möguleg kaup á öllu útgefnu hlutafé í Opus fasteignafélagi ehf., kt. 421014-1590, sem er að fullu í eigu fagfjárfestasjóðsins GAMMA: OPUS sem rekinn er af GAMMA Capital Management hf., kt. 530608-0690. Opus fasteignafélag ehf. á beint og í gegnum dótturfélög samtals 17 fasteignir eða rúmlega 30 þúsund fermetra af atvinnu- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

Þrátt fyrir að aðilar hafi komist að niðurstöðu um að hefja einkaviðræður um sölu á öllu útgefnu hlutafé í Opus fasteignafélagi ehf. liggur ekki fyrir hvert endanlegt eignasafn félagsins verður í kaupunum, ef af þeim verður, þar sem mögulegt er að tilteknar fasteignir og dótturfélög félagsins verði undanskilin í hinum fyrirhuguðu viðskiptum.

Á þessari stundu hefur Eik fasteignafélag takmarkaðar upplýsingar um eignasafnið.  Félagið hefur t.a.m. ekki skoðað fasteignirnar né viðeigandi skjöl svo sem leigusamninga.  Þannig er ekki hægt að ákvarða endanlegt kaupverð né áhrif mögulegra kaupa á starfsemi Eikar fasteignafélags á þessum tímapunkti. Undirritað samkomulagið felur í sér viljayfirlýsingu um einkaviðræður en er hvorki skuldbinding af hálfu Eikar fasteignafélags um kaup á félaginu né skuldbinding um sölu af hálfu GAMMA: Opus.

Frekari grein verður gerð fyrir viðskiptunum á síðari stigum ef viðeigandi framgangur verður í viðræðum og fyrirhugaðri vinnu sem tengist mögulegum viðskiptum. Ráðgjafar EIK eru verðbréfafyrirtækið Arctica Finance hf. og Fjeldsted & Blöndal lögmannsstofa slf.

Nánari upplýsingar veitir:

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, 590-2200 / 861-3027.