Source: Icelandair Group hf.

Fjármögnun Icelandair Group - Samantekt

Eins og kom fram í tilkynningu Icelandair Group þann 21. desember sl. hefur nægur hluti skuldabréfaeigenda ISIN N00010776982, að fjárhæð 190 milljónir USD, samþykkt tillögur félagsins um breytingar á skilmálum skuldabréfsins. Tillögurnar fólust meðal annars í því að félagið mun greiða upp þriðjung skuldabréfanna þann 15. janúar nk. Tillaga til skuldabréfaeigenda ISIN IS0000025427, að fjárhæð 23,6 milljónir USD, gengur út á það sama, sbr. tilkynningu félagsins þann 21. desember sl. Það má því gera ráð fyrir að félagið borgi upp skuldabréf samtals að fjárhæð 71 milljón USD þann 15. janúar nk.

Í tilkynningu þann 27. desember sl. kom svo fram að Icelandair Group hefur gengið frá samningi við BOC Aviation um fjármögnun á fyrirframgreiðslum á Boeing 737 MAX flugvélum félagsins sem eru til afhendingar árin 2019 og 2020. Áætlaður afhendingardagur síðustu vélanna er í mars 2020. Samtals mun fjármögnunin nema um 200 milljónum USD á tímabilinu og sjóðsstaða félagsins hækkar um 160 milljónir USD í kjölfar samningsins þar sem Icelandair Group hafði þegar greitt fyrirframgreiðslurnar með eigin sjóðum.

Til viðbótar hafa félögin samið um sölu og endurleigu á tveimur af þeim Boeing 737 flugvélum sem samningurinn nær yfir. Önnur þessara flugvéla verður afhent á árinu 2019 og hin árið 2020. Leigutími vélanna er 12 ár með kauprétti að loknum 30 mánaða leigutíma.

Félagið hefur jafnframt undirritað samninga um sölu á og endurleigu á tveimur Boeing 737 MAX flugvélum við SMBC Aviation Capital. Leigusamningarnir eru til tæplega 9 ára. Með því hefur félagið nú lokið fjármögnun á öllum sex Boeing 737 MAX flugvélum sem félagið mun fá til afhendingar frá Boeing árið 2019 en hinar þrjár vélarnar voru fjármagnaðar með samningi um sölu og endurleigu við BOCOMM Leasing Aviation, sbr. tilkynningu félagsins þann 16. maí 2017.

Þá gerir Icelandair Group ráð fyrir því að boðið verði út hlutafé fyrir allt að 625 milljónir króna fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2019, sbr. tilkynningar félagsins þann 30. nóvember og 10. desember sl.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:

„Ofangreindar aðgerðir eru í takt við stefnu félagsins um að hafa ávallt til staðar sterka lausafjárstöðu og sveigjanlegan efnahagsreikning. Í árslok 2018 var félagið með ríflega 250 milljónir USD í handbært fé. Auk þess á félagið 40 óveðsettar flugvélar. Félagið er því vel í stakk búið til að takast á við sveiflur í rekstrarumhverfinu og grípa þau tækifæri sem kunna að skapast.“

Frekari upplýsingar veitir:

Bogi Nils Bogason, forstjóri
Sími: 5050300
Netfang: bogi@icelandairgroup.is