Source: Hagar hf.

Leiðrétting: Samruni Haga og Olís kominn til framkvæmda og afkomuspá uppfærð. Frétt birt 2019-01-07 18:45:27

Í fyrri tilkynningu vantaði nánari tölulegar upplýsingar um söluhagnað af seldum eignum Haga og Olís skv. sátt við Samkeppniseftirlitið. Auk þess vantaði til útskýringar að áætluð EBITDA Olís og DGV að upphæð 230 millj. króna er fyrir tímabilið desember 2018 - febrúar 2019.

Þann 29. nóvember sl. heimilaði Samkeppniseftirlitið samruna Haga hf., Olíuverzlunar Íslands hf. og DGV ehf. eftir að öllum fyrirvörum, sem voru í kaupsamningi, hafði verið aflétt. Samruninn kom því til framkvæmda þann 30. nóvember sl. eftir að hlutabréf í Olís og DGV voru afhent Högum og gengið hafði verið frá greiðslu söluandvirðis. Alls voru 5.396 millj. króna greiddar með reiðufé og auk þess voru afhentir 111 millj. hlutir í Högum. Skv. kaupsamningi skyldu afhentir hlutir reiknast á gengi 47,5 eða að andvirði 5.272 millj. króna. Þó ber að taka fram að skv. alþjóðlegum reikningsskilastaðli reiknast virði hinna afhentu hluta í bókum félagsins m.v. gangvirði á afhendingardegi, sem var 46,25.

Helstu skilyrði fyrir samrunanum eru eftirfarandi:
1. Samrunaaðilar skuldbinda sig til að bjóða sama verð á dagvöru á Olís stöðvum um land allt.

2. Samrunaaðilar skuldbinda sig til að selja nýjum endurseljendum eldsneytis, sem eftir því leita, eldsneyti í heildsölu á viðskiptalegum grunni.

3. Aðgengi endurseljenda eldsneytis að birgðarými hjá Olíudreifingu verður tryggt að því marki sem Olís er unnt sem annar eigandi félagsins.

4. Samrunaaðilar skuldbinda sig til að selja rekstur og fasteign félagsins að Faxafeni 14 í Reykjavík, þar sem verslun Bónus er starfrækt.

5. Samrunaaðilar skuldbinda sig til að selja rekstur og fasteignir Olís þjónustustöðvanna við Háaleitisbraut 12 og Vallargrund 3 í Reykjavík.

6. Samrunaaðilar skuldbinda sig til að selja rekstur verslana Bónus að Hallveigarstíg 1 í Reykjavík og Smiðjuvegi 2 í Kópavogi.

7. Samrunaaðilar skuldbinda sig til að selja rekstur Olís verslunarinnar í Stykkishólmi.

8. Samrunaaðilar skuldbinda sig til að selja rekstur og aðstöðu ÓB stöðva við Starengi 2, Kirkjustétt 2-5 og Knarrarvog 2 í Reykjavík.

9. Annar seljenda Olís, FISK-Seafood ehf., skuldbatt sig gagnvart Samkeppniseftirlitinu til að selja að hluta þann eignarhlut í Högum sem hann fékk afhentan skv. kaupsamningi. Hagar samþykktu samhliða að falla frá sölu- og framsalsbanni sem fram kom í kaupsamningi milli aðila frá 26. apríl 2017.

Þegar sátt Haga við Samkeppniseftirlitið var undirrituð þann 11. september sl. höfðu kaupsamningar um allar eignir sem Högum bar að selja skv. sáttinni verið undirritaðir. Samningur um eignir Haga var gerður við Ísborg ehf. og samningur um eignir Olís við Atlantsolíu. Söluandvirði eignanna er 660 millj. króna skv. kaupsamningum og verður það greitt við afhendingu eignanna, frá seinni hluta janúarmánaðar og fram í byrjun marsmánaðar 2019. Í heild er söluhagnaður af seldum eignum um 15 millj. króna, en þó eru nettó áhrif viðskiptanna á samstæðureikning Haga sölutap að upphæð 62 millj. króna. Söluhagnaður var af eignum Olís að upphæð 77 millj. króna, sem færður hefur verið beint á eigið fé Olís þann 30. nóvember skv. alþjóðlegum reikningsskilastöðum, en sölutap varð af dagvörueignum Haga að upphæð 62 millj. króna sem hefur verið gjaldfært á rekstur Haga hf. á þriðja ársfjórðungi.

Eftir samrunann er Olís orðið dótturfélag Haga og verður það rekið sem sjálfstæð rekstrareining, líkt og aðrar einingar innan samstæðunnar. Fyrirtæki Haga hafa ólík rekstrarform og ólíka menningu en hlutverk Haga er að veita fyrirtækjum sínum aðhald í rekstri og finna sameiginlega fleti sem leitt geta til hagræðingar í kostnaði og aukið tekjumöguleika fyrirtækjanna og um leið samkeppnisstyrk þeirra. Rekstur Olís og DGV verður hluti af uppgjöri fjórða ársfjórðungs samstæðu Haga og mun rekstrarári fyrirtækjanna tveggja verða breytt til samræmis við rekstrarár Haga, þ.e. tímabilið frá 1. mars til febrúarloka ár hvert. Efnahagsreikningur Olís og DGV verður hluti af efnahagsreikningi samstæðu Haga þann 30. nóvember 2018 sem birtur verður þann 30. janúar nk.

Nú þegar er hafin vinna við samrunaverkefni með það að markmiði að auka samkeppnishæfni hins sameinaða félags og að bæta vöru- og þjónustuframboð til viðskiptavina félagsins. Horft er á verkefni til samlegðar og til sóknar. Yfirumsjón með samrunaverkefnum er í höndum Steingríms Péturssonar, fjármálastjóra Olís. Fram hefur komið að ráðgjafar Haga gerðu ráð fyrir að samlegðaráhrifin nemi um 600 millj. króna á ársgrundvelli, sem nemur um 3% af samanlögðum rekstrarkostnaði hinna sameinuðu félaga. Áætlanir gera ráð fyrir að samlegðaráhrifin verði að fullu komin til framkvæmda innan 18 mánaða og áætlaður kostnaður við að ná áhrifunum fram nemi eins árs samlegð, eða um 600 millj. króna. Forgangur samrunaverkefna snýr að fjármögnun félagsins, húsnæðismálum, vöruhúsamálum, innkaupum, vöruframboði og þjónustu við viðskiptavini, þróunarverkefnum og auk þess hagræðingu á ýmsum sviðum. Hagar munu leita tilboða í heildarfjármögnun félagsins á næstu vikum.

Áhrif á afkomu yfirstandandi rekstrarárs.

Í áætlunum félagsins var gert ráð fyrir að EBITDA rekstrarársins yrði 5.000 millj. króna að undanskildum kostnaði við sameiningu Haga, Olís og DGV. Beinn kostnaður við sameiningu félaganna, sem hefur verið gjaldfærður á fyrstu 9 mánuðum rekstrarársins, er um 235 millj. króna og annar einskiptiskostnaður er um 50 millj. króna. Skv. bráðabirgðauppgjöri félagsins fyrir fyrstu 9 mánuði rekstrarársins er ljóst að afkoma félagsins verður undir útgefinni afkomuspá. Ný afkomuspá gerir ráð fyrir að EBITDA afkoma Haga verði 4.600 - 4.700 millj. króna fyrir yfirstandandi rekstrarár að undanskildum kostnaði við samruna og einskiptiskostnað og án tekjuáhrifa frá Olís og DGV. 

Gengisfall íslensku krónunnar hefur haft áhrif á framlegð félagsins. Hækkun á kostnaðarverði í innkaupum hefur ekki komið fram í útsöluverði til viðskiptavina félagsins. Framlegð á þriðja ársfjórðungi er 1,0%-stigi lægri en á fyrra ári og framlegð fyrstu 9 mánuði ársins er 0,7%-stigi lægri en árið á undan. Vörusala félagsins hefur verið góð, en söluaukning á þriðja ársfjórðungi á milli ára var 9,5%, en er 4,0% á fyrstu níu mánuðum ársins.  

Auk þess sem hér að framan er talið hefur lokun og sala þriggja verslana á síðasta ársfjórðungi rekstrarársins og seinkun á opnun nýrrar Bónus verslunar í Skeifunni haft áhrif á áætlanir um afkomu félagsins. Auk þess var gert ráð fyrir jákvæðum rekstraráhrifum vegna flutnings á verslun Bónus í Mosfellsbæ sem hefur frestast um tæpt ár, en sú verslun mun væntanlega opna um mitt næsta rekstrarár.  Tekið hefur verið tillit til þessara breytinga í uppfærðri afkomuspá. 

Fyrir liggur að EBITDA afkoma Olís og DGV skv. bráðabirgðauppgjöri fyrir fyrstu 11 mánuði 2018 er um 2.270 millj. króna. Eigið fé Olís og DGV þann 30. nóvember sl. var 7.272 millj. kr. og nettó vaxtaberandi skuldir 4.686 millj. kr. Olís og DGV munu verða hluti af rekstri samstæðu Haga á fjórða ársfjórðungi og áætlanir gera ráð fyrir að EBITDA Olís og DGV fyrir tímabilið desember 2018 til febrúar 2019 verði um 230 millj. króna. Skv. bráðabirgðauppgjöri samstæðu Haga, sameinaðs félags, þann 30. nóvember er eiginfjárhlutfall 45% og nettó vaxtaberandi skuldir 13.119 millj. króna.

Í mars næstkomandi mun Bónus opna nýja verslun við Garðatorg í Garðabæ. Verslunin verður um 1.400 fm. að stærð. Þá er gert ráð fyrir opnun á ÓB stöð á Vík í Mýrdal á fyrsta ársfjórðungi á lóð í eigu félagsins. 


Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri Haga, í síma 530-5500.