Source: Icelandair Group hf.

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir ráðin framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair Group

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Icelandair Group. Hún tekur við af Boga Nils Bogasyni sem tók við starfi forstjóra félagsins í desember sl.

Eva Sóley hefur umfangsmikla reynslu af stjórnun, rekstri og fjármálum, á Íslandi og á alþjóðavettvangi, bæði í skráðum og óskráðum félögum. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Advania á Íslandi frá árinu 2015 og sem framkvæmdastjóri þjónustu- og rekstrarsviðs fyrirtækisins frá maí 2018. Áður starfaði hún sem forstöðumaður á fjármálasviði hjá Össuri, eða á árunum 2014 til 2015, þar sem hún stýrði fjárfestatengslum og tók þátt í stefnumótandi verkefnum. Þá starfaði hún sem sjálfstæður ráðgjafi og fjárfestir frá 2012 til 2014.

Eva Sóley hóf starfsferil sinn í fjármálageiranum og starfaði hjá Kaupþingi banka í mörg ár, meðal annars í fjárstýringu, eigna- og skuldastýringu, fjármögnun, á fyrirtækjasviði og í fyrirtækjaráðgjöf. Á árunum 2008 til 2009 starfaði hún sem framkvæmdastjóri hjá skilanefnd Kaupþings og sem fjármálastjóri frá 2009 til 2011.

Hún hefur setið í stjórnum ýmissa félaga og var varaformaður bankaráðs Landsbankans á árunum 2013 til 2016. Í dag situr hún í stjórn Júpíters rekstrarfélags og í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands. Eva Sóley er verkfræðingur að mennt, með B.Sc. í hagverkfræði og hagfræði sem aukagrein og M.Sc. í fjármálaverkfræði frá Columbia University í New York. Þá hefur hún jafnframt lokið námi í verðbréfaviðskiptum. Hún er gift Hilmari Rafni Kristinssyni og eiga þau tvö börn.

Eva Sóley mun hefja störf hjá Icelandair Group um miðjan febrúarmánuð og tekur þá jafnframt sæti í framkvæmdastjórn félagsins.

Frekari upplýsingar veitir:

Bogi Nils Bogason, forstjóri
Sími: 5050300
Email: bogi@icelandairgroup.is