Gott ár að baki hjá Klöppum

Árið 2018 einkenndist af mikilli fjölgun viðskiptavina sérstaklega á seinni hluta ársins. Hugbúnaðarþróunin hefur gengið samkvæmt áætlun og er fyrirtækið komið með heildstætt vöruframboð í umhverfislausnum og lögfylgnilausnum fyrir skip, sem og lausnir fyrir flotastýringu bifreiða ásamt nýjum lausnum í rafrænni stjórnsýslu. Mikil áhersla lögð á það að undirbúa hugbúnaðarlausnir félagsins þannig að hægt væri að skala söluna hratt upp á erlendum mörkuðum. Unnið var að því að bæta sjálfbærni félagsins með markvissum hætti eins og sjá má í samfélagsskýrslu félagsins (e. Sustainability Report 2018) og samfélagsuppgjöri  (e. ESG Statement 2018).

Afkoma félagsins á árinu 2018 var samkvæmt áætlun. Rekstrartekjur voru 242 m.kr. á árinu 2018 miðað við 210 m.kr. á árinu 2017. Mikill viðsnúningur var í EBITDA en á árinu 2018 var EBITDA jákvæð um 34 m.kr. miðað við neikvæða EBITDA upp á 13 m.kr. á árinu 2017.  Rekstrarhagnaður var 1,6 m.kr. á árinu 2018 miðað við rekstrartap upp á 35 m.kr. á árinu 2017.

Erlend starfsemi
Auknar áherslur á umhverfismál og vilji íslenskra fyrirtækja, sveitarfélaga, hafna og stofnana til að takast á við umhverfismálin með markvissum hætti hefur orðið til þess umhverfishugbúnaður Klappa er orðinn eftirsóttur og er nú kominn í notkun hjá yfir 200 fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum á Íslandi.

Á þessum góða grunni var lögð áhersla á að hefja starfsemi á erlendum mörkuðum. Í samræmi við stefnumótun félagsins og á grunni þess sterka baklands sem Klappir hefur á Íslandi, byrjaði félagið að byggja upp samstarf við erlenda samstarfsaðila á árinu 2018.  Um tvenns konar samstarfsaðila er að ræða; annars vegar þá sem afmarka starfsemi sína við byggðalög, lönd eða svæði (e. Regional Partners) og hins vegar þeir sem vinna á alþjóðamörkuðum þvert á landamæri og heimshluta (e. Global Industrial Partners). Ljóst er að mikill áhugi er á hugbúnaðarlausnum Klappa og fer eftirspurnin vaxandi.

Þjónusta sem sniðin er að atvinnugreinum er boðin í samvinnu við alþjóðafyrirtæki sem hafa reynslu og þekkingu á þjónustu við tilteknar greinar. Gerður hefur verið samstarfssamningur við breska fyrirtækið ChartCo Ltd sem er öflugt fyrirtæki í hugbúnaðarþjónustu við útgerðir kaup- og skemmtiferðaskipa um heim allan. Samstarfssamningurinn kveður á um samstarf um sölu og dreifingu sérhæfðra lausna Klappa fyrir skip og flota. Chartco er þegar byrjað að markaðsfæra og selja lausnir Klappa en fyrsta stóra erlenda skipafélagið ákvað í desember að setja hugbúnað Klappa í eigin skipaflota. Einnig fékk Klappir fánaríkissamþykki hjá næststærsta fánaríki heims, Marshall eyjum og önnur fánarískissamþykki eru langt komin. Fánaríkissamþykki gerir notendum kleift að nota lausnir Klappa í lögformlegum tilgangi. Fyrir dyrum stendur að finna einnig samstarfsaðila í öðrum greinum á borð við vöruflutninga á landi og flugrekstur. 

Þjónusta sem boðin er svæðisbundið verður byggð upp í sem mestu samstarfi við heimamenn þannig að árangur náist sem fyrst. Fyrirhuguð er markviss og hröð uppbygging svæðisbundinnar þjónustu í Evrópu en þegar hefur verið stofnsett dótturfélag í Litháen til að selja og dreifa umhverfislausnum Klappa þar í landi og einnig í baltnesku löndunum. Reynslan af starfsemi Klappa í Litháen verður lögð til grundvallar á uppbyggingunni í nærliggjandi löndum.

Klappir mun þurfa að fjárfesta markvisst í uppbyggingu á samstarfsneti alþjóðlegra samstarfsaðila sem vinna ýmist á mörkuðum atvinnugreina eða svæðum.

Hlutafjárútboð
Klappir hefur undirritað samkomulag við Centra fyrirtækjaráðgjöf um umsjón með útboði á hlutafé í Klöppum síðar á þessu ári. Tilgangur útboðsins er að styrkja félagið við útbreiðslu og dreifingu á hugbúnaðarlausnum þess á alþjóðamörkuðum. Centra fyrirtækjaráðgjöf er óháð fjármálafyrirtæki sem byggir á traustum grunni og hefur á að skipa reyndu og öflugu starfsfólki með alþjóðlegan bakgrunn sem er reiðubúið að takast á við flest verkefni á sviði fyrirtækjaráðgjafar þar á meðal öflun hlutafjár bæði heima og erlendis.

Frekari upplýsingar veitir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa grænna lausna hf. í síma 664 9200

Viðhengi