Landsvirkjun semur um sambankalán tengt sjálfbærni að fjárhæð 150 milljónir Bandaríkjadala


Landsvirkjun skrifaði í dag undir nýtt sambankalán án ríkisábyrgðar að fjárhæð 150 milljónir Bandaríkjadala. Lánið er fjölmynta veltilán sem notað verður til almennrar fjárstýringar og veitir Landsvirkjun aðgengi að fjármunum sem fyrirtækið getur dregið á og endurgreitt eftir þörfum. Lánið er til þriggja ára með heimild til framlengingar tvisvar, um eitt ár í senn, en með því endurfjármagnar Landsvirkjun eldra sambankalán fyrirtækisins sem var að fjárhæð 200 milljónir Bandaríkjadala og með lokadag í desember 2020. Nýja lánið er lægra að fjárhæð og endurspeglar það minni þörf fyrir aðgengi að lausafé, ásamt sterkari fjárhagslegri stöðu fyrirtækisins.

Nýja veltilánið kemur í kjölfar þess að Landsvirkjun gaf út græn skuldabréf fyrir 200 milljónir Bandaríkjadala árið 2018 og endurspeglar áherslur fyrirtækisins á fjármögnun sem er tengd sjálfbærni. Landsvirkjun styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og leggur sérstaka áherslu á þrjú af markmiðunum í daglegum rekstri, þ.e. markmið 5 um jafnrétti, markmið 7 um sjálfbæra orku og markmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum.

Vaxtakjör tengd árangri Landsvirkjunar í málefnum tengdum umhverfi, jafnrétti og heilsu og öryggi

Vaxtakjör nýja lánsins eru tengd árangri Landsvirkjunar við að uppfylla ákveðin viðmið tengd sjálfbærni. Viðmiðin endurspegla áherslur Landsvirkjunar á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og samfélagsábyrgð og eru tengd umhverfi, jafnrétti og heilsu og öryggi. Árangur Landsvirkjunar í að uppfylla viðmiðin er metinn árlega og staðfestur af þriðja aðila.

Viðskiptabankar Landsvirkjunar veita nýja lánið og voru umsjónaraðilar Barclays Bank PLC og SEB. Aðrir þátttakendur í láninu eru ING Belgium SA/NV, Arion banki hf. og BNP Paribas.

Reykjavík, 11. júlí 2019

Nánari upplýsingar veitir Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs.

Sími 515 9000, netfang: rafnar.larusson@landsvirkjun.is


Viðhengi


Attachments

2019-07-11 Landsvirkjun RCF ISL