Icelandair hefur nú uppfært flugáætlun sína til ársloka. Félagið gerir ekki ráð fyrir Boeing 737 MAX vélum í rekstri fyrir þann tíma og hefur aðlagað flugáætlun sína í samræmi við það og aðra þróun á markaði.

Heildarsætaframboð félagsins í nóvember og desember verður aukið um tæplega 3% miðað við sama tímabil 2018 . Sætaframboð til Evrópu verður aukið töluvert, t.d. til Kaupmannahafnar, Dublin, Brussel og Berlínar. Heildarsætaframboð til Norður-Ameríku dregst hins vegar saman milli ára, sem skýrist aðallega af fækkun áfangastaða frá fyrra ári eins áður hefur komið fram. Þá verður Portland ekki hluti af vetraráætlun félagsins en flug þangað hefst aftur næsta vor. Þrátt fyrir þetta verður þó aukning í framboðnum sætum til ákveðinna áfangastaða í Norður Ameríku, svo sem Minneapolis, Vancouver, Denver og Orlando.

Eins og fram hefur komið hefur félagið lagt megináherslu á fjölgun farþega á mörkuðunum til og frá Íslandi undanfarin misseri. Félagið hefur aldrei flutt fleiri farþega til og frá Íslandi á tímabilinu frá 1. janúar og til loka júlí en á þessu ári, eða rúmlega 1,4 milljónir farþega, sem er aukning um 26% milli ára.

Leigusamningur einnar af þeim fimm flugvélum sem félagið bætti við flota sinn í sumar, til að lágmarka tjón félagsins og áhrif kyrrsetningarinnar á farþega og íslenska ferðaþjónustu, hefur verið framlengdur út október nk. Aðrir leigusamningar um flugvélar, sem gerðir voru vegna kyrrsetningar MAX vélanna, verða ekki framlengdir.

Eins og fram kom í uppgjöri annars ársfjórðungs hjá félaginu, voru þegar áætluð fjárhagsleg áhrif MAX kyrrsetningarinnar metin á um 140 milljónir USD miðað við að kyrrsetningin stæði út októbermánuð en áætluð viðbótaráhrif vegna þessara breytinga liggja ekki fyrir að svo stöddu. Félagið er þegar í viðræðum við Boeing um að fá allt fjárhagslegt tjón sem hlotist hefur af kyrrsetningu vélanna bætt.


Upplýsingar:

Markaðsaðilar: Íris Hulda Þórisdóttir forstöðumaður fjárfestatengsla. Netfang: iris@icelandairgroup.is

Fjölmiðlar: Ásdís Pétursdóttir upplýsingafulltrúi. Netfang: asdis@icelandair.is