Hagar hf. birta lýsingar í tengslum við umsóknir um töku verðbréfa til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland


Meðfylgjandi má finna lýsingar Haga hf. í tengslum við umsóknir um töku skuldabréfaflokka HAGA 181021 og HAGA 021029 til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland hf.

HAGA 181021

Höfuðstólsfjárhæð útgefinna skuldabréfa í flokknum nam kr. 2.500.000.000 og voru þau öll seld þann 15. október 2019 eftir að Hagar samþykktu tilboð hæfra fjárfesta í framhaldi að lokuðu útboði félagsins þann 30. september 2019 þar sem Hagar höfnuðu öllum tilboðum í óverðtryggðan flokk skuldabréfa. Skuldabréfin voru seld á genginu 1,0 og bera skuldabréfin fasta 4,65% óverðtryggða vexti.

HAGA 021029

Upphafleg höfuðstólsfjárhæð skuldabréfa í flokknum nam kr. 5.500.000.000 og voru þau öll seld í lokuðu útboði þann 30. september 2019. Skuldabréfin voru gefin út og afhent þann 2. október 2019. Skuldabréfin voru seld á genginu 1,0 og bera skuldabréfin fasta 2,8% verðtryggða vexti. Heildarheimild til útgáfu skuldabréfa í þessum flokki er kr. 15.000.000.000.


Markmiðið með skráningu skuldabréfanna á Aðalmarkað Nasdaq Iceland hf. er að stuðla að auknum seljanleika og markaðshæfi skuldabréfanna, sem og að tryggja fjárfestum að starfshættir og upplýsingagjöf um fjárhagsstöðu útgefanda séu í samræmi við reglur fyrir útgefendur fjármálagerninga, sem gefnar eru út af Nasdaq Iceland hf., eins og þær eru á hverjum tíma.

Hagar hafa komið á fót tryggingafyrirkomulagi með útgáfu tryggingarbréfs, veðhafa- og veðgæslusamnings, umboðssamnings og samnings við staðfestingaraðila. Framangreindir samningar eru birtir á heimasíðu Haga, www.hagar.is/fjarfestaupplysingar/skuldabrefautbod/ og eru fjárfestar hvattir til þess að kynna sér efni skjalanna í heild sinni.

Á grundvelli veðhafa- og veðgæslusamkomulags hafa Hagar lagt fram tryggingar til greiðslu skuldabréfanna sem eigendur skuldabréfanna á hverjum tíma gerast sjálfkrafa aðilar að. Tryggingar Haga eru tilgreindar í viðauka við veðhafa- og veðgæslusamkomulagið og tryggingarbréfi sem Hagar hafa gefið út.

Lýsingarnar eru útbúnar með hliðsjón af þeim reglum Nasdaq Iceland hf. sem gilda um töku verðbréfa til viðskipta. Lýsingarnar eru gefnar út á íslensku og eru hér meðfylgjandi. Hvor lýsing fyrir sig samanstendur af þremur skjölum, þ.e. verðbréfalýsingu, útgefandalýsingu og samantekt. Lýsingarnar hafa verið staðfestar af Fjármálaeftirlitinu og eru almenningi einnig aðgengilegar á heimasíðu félagsins. Þar má nálgast lýsingarnar næstu 12 mánuði.

Minnt er á að fjárfesting í skuldabréfum felur í sér áhættu og eru fjárfestar hvattir til þess að kynna sér lýsingarnar í heild sinni og er sérstaklega bent á kafla um áhættuþætti.

Nánari upplýsingar um Haga og skilmála skuldabréfanna má finna á www.hagar.is/fjarfestaupplysingar/skuldabrefautbod/


Stjórn Haga hf.

Viðhengi


Attachments

Lýsing fyrir verðtryggt skuldabréf_til birtingar Lýsing fyrir óverðtryggt skuldabréf_til birtingar