Brim fjárfestir á Grænlandi


Brim fjárfestir á Grænlandi

Stjórn Brims hf. ákvað á fundi sínum í dag að fjárfesta í grænlenska sjávarútvegsfyrirtækinu Arctic Prime Fisheries ApS (APF). Ákvörðunin er tekin í framhaldi af stofnun dótturfélags Brims í Grænlandi, sem greint var frá fyrr á þessu ári og viðræðum við APF sem tilkynnt var um sl. haust. Niðurstaðan er að Brim eignast hlut í APF, kemur að fjármögnun þess og selur því nýsmíðaðan frystitogara, Ililiveq, sem afhentur var frá Astilleros Gijon skipasmíðastöðinni á Spáni í maí s.l. Fjárfesting Brims er samtals um 85 milljónir evra í formi hlutafjárkaupa, fjármögnunar og skipakaupa.

Markmið fjárfestingar Brims er að breikka grundvöll starfsemi Brims, efla samstarf við Arctic Prime Fisheries á Suður-Grænlandi um veiðar, þróun á hátæknivinnslu og nýta verðmæta reynslu Brims á sviði umhverfismála og samfélagslegrar ábyrgðar. Stjórnendur Brims telja mikil tækifæri falin í þróun samskipta og samstarfs Íslendinga og Grænlendinga, til þess að efla sjálfbæra og ábyrga nýtingu sjávarauðlinda landanna tveggja, en margar fisktegundir til dæmis loðna, þorskur, karfi og makríll eru sameiginlegar í hafinu á milli Íslands og Grænlands.

APF er sjávarútvegsfyrirtæki, stofnað árið 2006, og stundar bæði veiðar og vinnslu á Suður- og Austur-Grænlandi. Aflaheimildir félagsins eru umtalsverðar eða um 10.000 tonn af botnfiski, mest í þorski, en einnig í karfa og grálúðu og um 18.000 tonn af uppsjávarfiski, mest í makríl, en einnig í síld. Fram til þessa hefur fyrirtækið gert út einn frystitogara og eitt línuskip, sem og starfrækt fjórar fiskvinnslur í bæjunum Qaqortoq, Narsaq og Nanortalik á Suður-Grænlandi og Kuummiut á Austur-Grænlandi.

APF er eina fyrirtækið sem stundar landvinnslu sjávarafurða á austurströnd Grænlands. Ársverk hjá fyrirtækinu eru um 165, en félagið er einn stærsti atvinnuveitandi á Suður-Grænlandi í einkaeigu. Á árinu 2019 lönduðu 214 smábátasjómenn hjá fyrirtækinu sjávarfangi og hefur þeim fjölgað verulega á undanförnum árum. Alls eru í viðskiptum við félagið rúmlega 130 smábátasjómenn frá bæjunum þremur á Suður-Grænlandi og rúmlega 80 smábátasjómenn í Kuummiut á Austur-Grænlandi, en APF er eina fyrirtækið sem kaupir fisk af smábátasjómönnum á austurströnd Grænlands.

APF er í meirihlutaeigu grænlenskra aðila, Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem á 16,5% og hefur verið hluthafi í félaginu frá árinu 2013 og Brims, sem eftir viðskiptin mun eiga 16,5% hlut í félaginu.

„Við teljum það hagstætt og til þess fallið að auka verðmæti Brims, að taka þátt í því, ásamt Grænlendingum, að nýta þau tækifæri sem felast í þróun sjávarútvegs á Suður- og Austur-Grænlandi. Sú þekking og reynsla sem starfsfólk Brims og Arctic Prime Fisheries búa yfir er vel til þess fallin að auka og efla samstarf þessara nágranna- og vinaþjóða á sviði sjávarútvegs.” segir Kristján Þ. Davíðsson, stjórnarformaður Brims.

Frekari upplýsingar gefur Kristján Þ. Davíðsson, stjórnarformaður Brims í síma 5501000

Viðhengi



Attachments

Fréttatilkynning_Brim