Arion banki: Aðgerðir vegna COVID-19 – uppfærsla


Með vísan til fréttatilkynningar Arion banka frá 27. mars sem birt var í kauphöll og á heimasíðu bankans vill Arion banki upplýsa um þær aðgerðir sem bankinn hefur gripið til svo tryggja megi rekstrarsamfellu og áframhaldandi góða þjónustu við viðskiptavini, sem og helstu úrræði sem kynnt hafa verið af íslenskum stjórnvöldum.


Helstu aðgerðir stjórnvalda frá 27. mars síðastliðnum og staða greiðsluúrræða hjá Arion banka

  • Seðlabankinn lækkaði stýrivexti í 1,00% sem er lækkun um 0,75 prósentustig frá 27. mars.
  • Samkomulag um viðbótarlán með 70% ábyrgð ríkisins tók gildi þann 7. maí. Úrræðið er hugsað fyrir fyrirtæki í rekstri sem þurfa viðbótarfyrirgreiðslu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í dag hefur bankinn veitt lán að fjárhæð 1,2 milljarða króna.
  • Samkomulag um stuðningslán tók gildi þann 12. maí. Markmið stuðningslána er að vinna gegn lausafjárvanda sem leitt gæti til uppsagna og enn frekari efnahagssamdráttar. Lánin nýtast minni aðilum sem orðið hafa fyrir miklum samdrætti, ekki síst í ferðaþjónustu. Þann 31. júlí hafði Arion banki lánað 992 milljónir til fyrirtækja samkvæmt samkomulaginu.
  • Sjá einnig ítarlegri upplýsingar á vef Seðlabanka Íslands og Stjórnarráðs Íslands.
  • Arion Banki hefur boðið bæði einstaklingum og fyrirtækjum upp á greiðsluhlé á afborgunum vegna COVID-19. Eftirfarandi tafla sýnir þróun lána í greiðsluhléi sem hlutfall af lánum til einstaklinga, fyrirtækja og heildarlánabók.
 31.mars 202030.júní 202031. júlí 2020
Fyrirtæki0,03%14,2%13,6%
Einstaklingar7,6%7,9%5,8%
Heildarlánabók3,5%11,2%9,8%

Helstu aðgerðir til að tryggja daglegan rekstur bankans

  • Arion banki starfar í dag eftir viðbragðsáætlun með velferð viðskiptavina og starfsfólks í huga. Öryggisnefnd bankans fundar reglulega.
  • Útibú bankans lokuðu þann 25. mars en opnuðu aftur þann 12. maí síðastliðinn. Stafrænar lausnir hafa nýst einstaklega vel undanfarna mánuði og starfsemi bankans gengið hnökralaust fyrir sig þrátt fyrir að allt að 85% starfsfólks hafi starfað að heiman þegar mest var.
  • Til að forðast smit og hefta útbreiðslu COVID-19 fylgir bankinn tilmælum sóttvarnayfirvalda. Í dag er tveggja metra reglan í gildi á öllum starfsstöðvum bankans sem þýðir að fjölmargt starfsfólk vinnur að heiman.

Vinsamlegast beinið fyrirspurnum til Theodórs Friðbertssonar, forstöðumanns fjárfestatengsla Arion banka, ir@arionbanki.is, s. 856 6760 eða Haraldar Guðna Eiðssonar, forstöðumanns samskiptasviðs, haraldur.eidsson@arionbanki.is,  s 856 7108.