Árshlutauppgör Landsbréfa 30. júní 2020


Landsbréf hf. hafa birt árshlutareikning fyrir fyrri hluta ársins 2020.  Helstu niðurstöður voru þessar:

  • Hagnaður af rekstri Landsbréfa nam á fyrri hluta ársins 232 milljónum króna samanborið við 301 milljón króna fyrir sama tímabil árið áður.  
  • Hreinar rekstrartekjur námu 844 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2020 samanborið við 921 milljón króna fyrir sama tímabil árið áður.
  • Eigið fé í lok tímabils var 4.523 milljónir króna samanborið við 4.291 milljónir króna í árslok 2019. Eiginfjárhlutfall Landsbréfa er 93,89% við lok tímabilsins.
  • Alls voru um 14 þúsund viðskiptavinir með fjármuni í sjóðum Landsbréfa og voru eignir í stýringu um 186 milljarðar króna í lok tímabils samanborið við 180 milljarða króna í upphafi árs.

Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa:

„Árið 2020 hefur að mörgu leyti verið óvenjulegt ár, þar sem heimsfaraldur hefur geisað og talsverðar sveiflur verið á mörkuðum. Þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður hafa sjóðir Landsbréfa almennt skilað góðum árangri.  Á tímum þar sem vextir hafa lækkað hratt, króna veikst umtalsvert og óvissa er óvenju mikil hefur gildi eignadreifingar og virkrar stýringar sannað gildi sitt.
Rekstur Landsbréfa sjálfra gekk vel á tímabilinu, en hagnaður á fyrri árshelmingi var 232 milljónir. Hagnaður lækkaði um 70 milljónir frá sama tímabili árið áður og munar þar mestu um 143 milljóna króna lægri fjármagnstekjur af eignasafni félagsins á tímabilinu, en ávöxtun á helstu mörkuðum var afburða góð á fyrri árshelmingi 2019. Framundan blasir við lágvaxtaumhverfi í heiminum öllum sem kallar á nokkuð breytta hugsun við stýringu fjármuna og munu starfsmenn Landsbréfa sem áður leggja allt kapp á að ávaxta það fé sem okkur er treyst fyrir með skynsamlegum og ábyrgum hætti.“

Nánari upplýsingar um árshlutareikning Landsbréfa veitir Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa, í síma 410 2500.



Viðhengi



Attachments

Árshlutareikningur Landsbréfa hf. 30. júní 2020