Árshlutareikningur Hafnarfjarðarbæjar janúar - júní 2020


Rekstrarniðurstaða Hafnarfjarðarkaupstaðar fyirr A og B hluta fyrri hluta ársins 2020 var neikvæð um  459 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarafgangur yrði 248 milljónir króna. Helstu frávik má rekja til tekjufalls vegna Covid-19. Útsvarstekjur voru um 478 milljónum króna undir áætlun, framlög jöfnunarsjóðs voru um 126 milljónun króna undir áætlun og aðrar tekjur voru einnig um 155 milljónum króna undir áætlun. Rekstrarkostnaður var hins vegar um 219 milljónum króna lægri en áætlun gerði ráð fyrir.

Tekjur námu 14.067 milljónum króna sem er 760 milljónir undir áætlun. Laun og launatengd gjöld eru stærstu útgjaldaliðir sveitarfélagsins og námu þeir 7.114 milljónum króna sem er í takt við áætlun. Annar kostnaður var 5.317 milljónir króna sem er um 216 milljónum króna undir áætlun.

Rekstur málaflokka gekk vel og var í takt við áætlanir. Stærsti málaflokkurinn er fræðslu- og uppeldismál en til hans var varið um 6.854 milljónum króna, til félagsþjónustu um 2.308 milljónum króna og til æskulýðs- og íþróttamála um 1.245 milljónum króna.

Heildareignir í lok júní námu samtals 61.156 milljónum króna og höfðu þær hækkað um 1,6 milljarða króna á tímabilinu. Heildarskuldir og -skuldbindingar námu samtals 47.379 milljónum króna og hækkuðu um tæpa 2,1 milljarð króna á tímabilinu.

Árshlutareikningur Hafnarfjarðarbæjar janúar - júní 2020 var lagður fram í bæjarráði Hafnarfjarðar í dag 10. september 2020 og er aðgengilegur á vef Hafnarfjarðar www.hafnarfjordur.is

Attachment



Attachments

Hafnarfjardarbaer_árshlutareikningur 30.06.2020