Viðspyrna tryggð og þjónusta við íbúa varin í skugga heimsfaraldurs



9. desember 2020


Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2021 og næstu þrjú ár þar á eftir var samþykkt í bæjarstjórn þann 9. desember.

„Fjárhagsáætlun ársins 2021 er unnin í skugga heimsfaraldurs en endurspeglar um leið sterka stöðu sveitarfélagsins til að mæta tímabundnum fjárhagslegum áföllum. Minnkandi skatttekjur og aukinn rekstrarkostnaður vegna kórónaveirunnar hefur neikvæð áhrif á afkomu sveitarfélaga. Í fjárhagsáætlun ársins 2021 er gert ráð fyrir um 567 m.kr. halla á rekstri sveitarfélagsins. Efnahagsleg áhrif faraldursins eru það mikil á rekstur sveitarfélagsins að óhjákvæmilegt er annað en að bæjarsjóður verði rekinn með halla. Hinn möguleikinn hefði verið að skera verulega niður í rekstri og þjónustu sveitarfélagsins. Það er ekki skynsamleg stefna við ríkjandi aðstæður og ég tel að okkur hafi tekist að verja þjónustu við íbúa. Mosfellsbær býr að því að hafa verið með góðan og ábyrgan rekstur undanfarin ár og því hægt að reka bæjarsjóð með halla til skamms tíma þó að það leiði óhjákvæmilega til aukinnar skuldsetningar,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2021:

  • Rekstrarniðurstaða neikvæð um 567 m.kr.
  • Skuldaviðmið við árslok 113,3%.
  • Áætlað veltufé frá rekstri verður jákvætt um 486 m.kr. eða tæplega 3,7% af heildartekjum.
  • Útsvarsprósenta óbreytt eða 14,48% af útsvarsstofni.
  • Tekjur verði 13.307 m.kr.
  • Gjöld án fjármagnsliða 12.673 m.kr.
  • Fjármagnsliðir 686 m.kr.
  • Fyrirhugað er að framkvæma fyrir 2.560 m.kr. sem að mestu rennur til skóla-, gatna- og veitumannvirkja.
  • Gert er ráð fyrir að íbúum fjölgi um rúmlega 4,4% milli ára, en þeir eru nú um 12.600.
  • Hófleg hækkun gjaldskráa til samræmis við stefnumörkun lífskjarasamninganna.
  • Leikskólagjöld lækka um 5%.

Stefnumörkun til framtíðar

Vinnu við lýðheilsu- og forvarnarstefnu Mosfellsbæjar mun ljúka á næsta ári en stefnan liggur nú til umsagnar í drögum á samráðsgátt undir vinnuheitinu Okkar heilsu Mosó. Við endurskoðun á skólastefnu verður litið til þess að breikka skírskotunina og líta á menntun í heild og að stefnan kallist menntastefna. Loks mun Mosfellsbær vinna að því á næsta ári að verða barnvænt sveitarfélag og innleiða þannig barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þjónusta varin í skugga heimsfaraldurs

Heimsfaraldurinn hefur skapað tækifæri til að nýta betur rafrænar lausnir við úrlausn daglegra verkefna og þjónustu við íbúa. Áfram verður unnið að verkefnum sem miða að því að gera þjónustu Mosfellsbæjar skilvirkari, aðgengilegri fyrir alla og nýta til þess snjallar lausnir.

Aukning verður á nýjum plássum á leikskólum fyrir 12-18 mánaða börn og er gert ráð fyrir að fjölga þeim um 30 á árinu 2021. Þá verður sem fyrr verulegum fjármunum varið til upplýsinga- og tæknimála og bættrar aðstöðu í grunnskólum bæjarins.

Á sviði fjölskyldumála er gert ráð fyrir veitingu fimm stofnlána vegna undirbúnings við byggingu á nýjum búsetukjarna fyrir fatlað fólk. Einnig er gert ráð fyrir að stuðningsþjónusta hjá sveitarfélaginu verði efld og hugað að ákveðinni endurskipulagningu í starfsemi búsetuþjónustu fyrir fatlað fólk.

Á sviði menningarmála felst stærsta einstaka verkefnið í endurbótum á innra rými Hlégarðs þar sem húsið verður fært nær upprunalegu horfi og húsið nýtt sem meginvettvangur menningarstarfsemi í bænum.

Unnið verður að endurskoðun aðalskipulags bæjarins og næstu skref stigin í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2021 þar sem kallað verður eftir tillögum íbúa að verkefnum. Vinnu við seinni tvo áfanga Helgafellsskóla lýkur á næsta ári og undirbúningur hefst að byggingu nýs leikskóla í Helgafellshverfi.

Nánari upplýsingar veita:

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í síma 525 6700, haraldur@mos.is.

Arnar Jónsson, forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar, s. 840 1244, arnar@mos.is.

Viðhengi



Attachments

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2021-2024 - samþykkt 9. desember 2020