Alma íbúðafélag hf.: Ársreikningur 2020

Reykjavík, ICELAND


Á fundi sínum í dag samþykkti stjórn Ölmu íbúðafélags hf. ársreikning samstæðunnar fyrir árið 2020

Rekstrartekjur samstæðunnar voru 2.585 m.kr. á árinu. Þá nam EBITDA (rekstarhagnaður fyrir matsbreytingu, afskriftir og fjármagnsliði) ársins 1.456 m.kr. Tap varð af rekstri samstæðunnar á árinu að fjárhæð 155 m.kr. Handbært fé frá rekstri nam 677 m.kr. á árinu.

Heildareignir samstæðunnar námu 46.946 m.kr. þann 31. desember 2020, en þar af voru fjárfestingareignir að andvirði 42.510 m.kr. Vaxtaberandi skuldir námu 29.634 m.kr. og eigið fé samstæðunnar var 12.487 m.kr.

María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags:

„Það var tvennt sem einkenndi rekstur Ölmu íbúðafélags á árinu. Annars vegar hefur félagið unnið að endurskipulagningu eignasafnsins með sölu óhagkvæmari eininga, og fækkaði íbúðum í rekstri um 126 á árinu. Hins vegar lokaði félagið skammtímaleigustarfsemi sinni á öðrum ársfjórðungi í kjölfar Covid-19 og setti allar íbúðir í hefðbundna langtímaleigu. Þetta hefur hvort tveggja töluverð áhrif á afkomu félagsins, en EBITDA dróst saman um 214 m.kr. frá fyrra ári og heildarafkoma um 177 m.kr. Á sama tíma sjáum við hins vegar fjármagnsgjöld félagsins lækka og handbært fé frá rekstri aukast um 139 m.kr.

Í þeim þrengingum sem ganga nú yfir hagkerfið vegna Covid-19 faraldursins hafa styrkleikar íbúðafélaga komið berlega í ljós. Langtímaleiga á vegum faglegra félaga, með áherslu á búsetuöryggi og hátt þjónustustig, hefur fest sig í sessi á íslenskum húsnæðismarkaði og eftirspurnin hefur haldist sterk í gegnum þá miklu niðursveiflu sem við sáum á árinu. Á sama tíma hafa vanskil ekki aukist nema að litlu leyti og einungis var samið um frestun á 0,97% af árstekjum í tengslum við Covid-19 úrræði félagsins. Þá er lausafjárstaða félagsins afar sterk.

Veruleg tækifæri felast í því að vinna áfram með efnahagsreikning félagsins, bæði með frekari breytingum á eignasafninu og endurfjármögnun skulda. Alma gekk í gegnum söluferli á árinu og þegar kaup Langasjávar á hlutafé félagsins hafa gengið í gegn verður félagið í sterku eignarhaldi reynslumikils aðila með skýra framtíðarsýn. Við lítum því björtum augum til framtíðar.“

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri, í síma 774 0604 eða maria@al.is.

ViðhengiAttachments

Ársreikningur Alma íbúðafélag hf. 2020_Samstæða_FINAL Alma íbúðafélag hf._fréttatilkynning