Eimskip: Upplýsingar varðandi afkomu annars ársfjórðungs og uppfærð afkomuspá


Samkvæmt stjórnendauppgjöri fyrir apríl og maí sem nú liggur fyrir, ásamt áætlun fyrir júní,  lítur út fyrir að EBITDA af rekstri á öðrum ársfjórðungi 2021 verði umtalsvert betri en afkoma sama ársfjórðungs síðasta árs og jafnframt betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hins vegar hefur nýgerð sátt við Samkeppniseftirlitið sem tilkynnt var um fyrr í dag neikvæð áhrif á afkomuna.

Það sem af er öðrum ársfjórðungi hefur reksturinn almennt gengið mjög vel þrátt fyrir krefjandi aðstæður á þeim mörkuðum sem félagið starfar á. Magn í áætlunarsiglingum hefur verið sterkt, góð nýting í gámasiglingakerfinu og þá hefur verið góður gangur í alþjóðlegri flutningsmiðlun félagsins. Jafnframt eru tekjustýringarverkefni sem ráðist hefur verið í ásamt hagræðingaraðgerðum síðustu missera að bæta afkomuna.

Áætlað er að aðlöguð EBITDA (án áhrifa sáttarinnar) á öðrum ársfjórðungi verði á bilinu 26 til 29 milljónir evra samanborið við 16,0 milljónir evra á sama ársfjórðungi síðasta árs. Aðlagað EBIT fjórðungsins er áætlað á bilinu 14 til 17 milljónir evra samanborið við 5,0 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi síðasta árs. Að teknu tilliti til sáttar við Samkeppniseftirlitið, að fjárhæð um 10 milljónir evra er áætlað að raun EBITDA á öðrum ársfjórðungi verði á bilinu 16 til 19 milljónir evra og EBIT á bilinu 4 til 7 milljónir evra.

Gangi spá um afkomu annars ársfjórðungs eftir má gera ráð fyrir að aðlöguð EBITDA á fyrri árshelmingi verði 42 til 45 milljónir evra samanborið við 25.3 milljónir evra á fyrri helmingi síðasta árs og að aðlöguð EBIT verði á bilinu 18 til 21 milljónir evra samanborið við 3.4 milljónir á fyrstu 6 mánuðum síðasta árs.

Til að auðvelda samanburð á rauntölum úr rekstri mun Eimskip það sem eftir er árs birta afkomuspá sína miðað við aðlagaða EBITDA án áhrifa sáttarinnar. Í ljósi afkomu fyrsta ársfjórðungs og væntrar afkomu af öðrum ársfjórðungi er aðlöguð EBITDA afkomuspá fyrir árið 2021 nú á bilinu 77 til 86 milljónir evra samanborið við 68 til 77 milljónir evra sem upphaflega var birt í desember 2020. Ný afkomuspá er líkt og áður háð fjölda áhættu- og óvissuþátta sem geta þýtt að afkoman verði umtalsvert frábrugðin því sem greint er frá í þessari spá.

Öðrum ársfjórðungi er ólokið og getur afkoman tekið breytingum af þeim sökum sem og í uppgjörsferlinu.

Eimskip birtir uppgjör annars ársfjórðungs 2021 eftir lokun markaða fimmtudaginn 19. ágúst.

Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs í síma 825-3399 eða á investors@eimskip.is.