Klappir: Mikil fjölgun notenda, góður árangur viðskiptavina og jákvæð rekstrarafkoma á fyrri hluta árs 2021.


Árshlutareikningur Klappa grænna lausna hf. var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 25. ágúst 2021.
Reikningurinn nær yfir tímabilið 1. janúar 2021 til 30. júní 2021. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og
dótturfélaga þess. Reikningurinn hefur verið skoðaður af endurskoðendum félagsins, Deloitte ehf.

Helstu upplýsingar á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins:

  • Notendum fjölgaði um 13,4 % á fyrstu 6 mánuðum ársins.
  • EBITDA var 45,9 m.kr. á fyrri hluta ársins 2021 eða 26% af rekstrartekjum samanborið við 17,3 m.kr. á fyrri  hluta árs 2020.
  • Rekstrartekjur voru 177,4 m.kr. á fyrri hluta ársins 2021 samanborið við 169,5 m.kr á fyrri hluta árs 2020.
  • Rekstrargjöld voru 131,4 m.kr.  á fyrri hluta ársins 2021 samanborið við 152,2 m.kr. á sama tíma í fyrra. Laun og launatengd gjöld voru 90,5 m.kr. en annar rekstrarkostnaður 40,8 m.kr.

          Aðrar rekstrarupplýsingar:

    • Heildareignir félagsins voru 495,9 m.kr. á fyrri hluta ársins 2021. Þar af voru fastafjármunir 245,3 m.kr. og veltufjármunir 250,6 m.kr. Eigið fé nam 427,2 m.kr. og er eiginfjárhlutfall í lok júní 2021 86.1% en var 85,6% í árslok 2020.  
    • Heildarskuldir félagsins voru 68,8 m.kr. í lok júní 2021 en voru 107,7 m.kr. á sama tímabili í fyrra.
    • Veltufé frá rekstri nam 45,9 m.kr. Fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 16 m.kr. Fjármögnunarhreyfingar voru  344 þ.kr.
    • Handbært fé nam 48 m.kr í lok júní 2021 en var 24 m.kr. á sama tímabili í fyrra.

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa

“Frá áramótum hefur notendum fjölgað um 13,4%. Þessi aukning er að hluta til vegna grunn áskrifta sem vænst er til að skili sér inn í auknum tekjur á komandi mánuðum.
Viðskiptavinir okkar hafa dregið úr losun  gróðurhúsalofttegunda um 16% að meðaltali (21% ef miðað er við veltu), um 90% af skipum sem koma til landsins skila inn umhverfisgögnum í gegnum stafrænt vistkerfi Klappa. Skógrækt í gegnum Kolvið hefur aukist um 300% frá árinu 2017. Flokkun og meðhöndlun á úrgangi hefur tekið stórstígum framförum þar sem sumir af okkar viðskiptavinum hafa bætt flokkunarhlutfall sitt frá um 50% í allt að 85%. Við erum stolt af þessum góða árangri.

Stafrænt vistkerfi Klappa fyrir sjálfbærni (e. Digital Ecosystem for Sustainability) er að stækka og nær nú til Danmerkur. Það tengir orðið saman starfsemi alþjóðlegra fyrirtækja sem starfa í mörgum löndum þannig að móðurfyrirtæki geta fylgst með frammistöðu allra sinna dótturfélaga í sjálfbærni. Á Íslandi er tengdum aðilum í vistkerfinu að fjölga og fleiri aðilar ætla sér að nota vistkerfið til að veita viðskiptavinum sínum aðgang að umhverfisgögnum. Tæknin varðandi bæði tengingar á milli aðila og úrvinnslu gagna er að styrkjast verulega.

Núna í haust förum við í innleiðingu á “Klappir Green Penguin” verkefninu í grunnskólum Reykjavíkur - en um 15.000 nemendur munu þá tengjast hugbúnaðinum. Í framhaldi er áætlað að setja upp sömu lausn í Ljubljana í Slóveníu þar sem um 30.000 nemendur tengjast hugbúnaði Klappa. Markmiðið er bæði menntun nemenda í umhverfismálum og að skólarnir nái að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bæta flokkun á úrgangi með sameiginlegum markmiðum sem nemendurnir setja sér. Verkefnið er unnið í samstarfi við slóvenska fyrirtækið Iskraemeco og stefnt er að því að þessi lausn dreifist í alla skóla Evrópu. Á Íslandi erum við að vinna með Reykjavíkurborg, Landvernd (grænfánaverkefnið), Faxaflóahöfnum, Sorpu og Origo að verkefninu.

Alþjóðlega fjármálakerfið (m.a. bankar, fjárfestingarsjóðir og almennir fjárfestar) er sú atvinnugrein sem mun hafa hvað mest áhrif á það hvort að við náum að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C. Til að fjármálakerfið geti skilað þeim árangri sem það ætlar sér, þá þarf það að hafa aðgang að traustum gögnum og mælanlegum upplýsingum um árangur af þeim skrefum sem atvinnugreinin tekur í átt að sjálfbærni. Klappir eru að vinna náið með fjármálafyrirtækjum á Íslandi að þróun á sérstakri hugbúnaðareiningu sem er samþætt sjálfum lausnarpallinum (e. Platform) en þessi eining kemur til með að hjálpa atvinnugreininni í að fá yfirsýn yfir sjálfbærni og sjálfbærni-áhættu verkefna.

Sjálfbær innkaup hafa mikið um það að segja hvernig fyrirtækjum gengur að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Öll innkaup á vörum hafa áhrif á loftslagsmálin inn í framtíðina og því mikilvægt að þegar innkaup eru gerð að álag vörunnar á náttúruna sé tekið með inn í verðmat vöru. Vara hefur bæði grunnlosun þ.e. losun sem verður til vegna framleiðslu vörunnar og síðan losun sem verður til á líftíma vörunnar. Áhugi viðskiptavina okkar á að nýta birgjamatseininguna er að aukast mjög mikið því hún heldur utan um sjálfbærni birgja og tryggir að viðkomandi fyrirtæki geri þau innkaup sem eru best fyrir náttúruna. Á komandi mánuðum ætlum við að bæta líftímagreiningu við birgjamatseininguna þannig að við hugsanleg kaup á vöru verði auðvelt að sjá og meta heildarlosun vörunnar - frá framleiðslu hennar til endanlegra afdrifa. Horft er bæði til kostnaðar og kolefnisfótspors. Það er - að leggja við grunnverð á vörunni kostnaðinn vegna álags vörunnar á náttúruna. Í dag kostar kolefnistonnið um 57 EUR/t CO2-íg eða um 8.500 kr./tCO2-íg og því skiptir orðið mjög miklu máli að innkaup endurspegli þennan kostnað. Þetta kemur til með að hjálpa fyrirtækjum að velja þá vöru sem veldur minnstu álagi á náttúruna og þar með lægsta rekstrarkostnaði til framtíðar. 

Nú beinast augu okkar allra að IPCC skýrslunni og þeirri þröngu stöðu sem mannkynið stendur frammi fyrir. Því miður þá er staða okkar Íslendinga mjög þröng og tíminn sem við höfum til að standa við skuldbindingar okkar allt of stuttur. Þegar við skuldbundum okkur árið 2015 um að draga úr losun um 40% 2015 þá höfðum við 15 ár til ráðstöfunnar. Nýjar skuldbindingar Íslands eru að draga úr losun um 55% fyrir 2030 og að verða kolefnishlutlaus fyrir 2040. Á síðustu fimm árum hefur nær ekkert dregið úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi þannig að við höfum núna einungis 10 ár til að ná þeim árangri sem við höfum skuldbundið okkur til að ná.

Því miður er það þannig að eftir því sem tíminn líður án þá eykst áhættan í rekstri fyrirtækja verulega og kostnaðurinn sömuleiðis en reikna má með að hvert tonn CO2-íg komi til með að kosta að lágmarki 15.000 kr. árið 2030. Fyrir þá sem vilja kynna sér betur loftslagsmálin þá höfum við tekið saman helstu atriði loftslagsmála á Íslandi.

Sjá frekari upplýsingar um loftslagsmál í meðfylgjandi viðauka og á heimasíðu Klappa.

Það er orðið ljóst að Klappir eru með þá tækni og aðferðafræði sem þarf til - til að hægt sé að halda utan um og ná árangri í loftslagsmálum. Við erum líka með einstaka sögu frá Íslandi þar sem samfélag hefur sameinast um að nota Klappir til að halda utan um loftslagsmálin. Í raun erum við orðin mikilvægt innviðafyrirtæki á Íslandi varðandi tækni, framþróun og stuðning við loftslagsverkefni á Íslandi.

Við höfum mikil sóknarfæri á Norðurlöndum sem eru leiðandi á sviði sjálfbærni í heiminum í dag.  Til að ná því að verða leiðandi í heiminum þá verðum við að ná að tryggja forystu okkar á Norðurlöndunum með sama hætti og við gerðum á Íslandi og mun fyrirtækið fjárfesta í þessari uppbyggingu.

Nálgast má árshlutareikning fyrir fyrstu sex mánuði ársins á:
www.klappir.com/is/fjarfestar

Nálgast má viðauka við skýrslu forstjóra:
www.klappir.com/is/fjarfestar

Frekari upplýsingar
Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa
S: 664 9200
Netfang: jat@klappir.com 
Ólöf Ásta Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs
S: 661 0202
Netfang: olof@klappir.com

Viðhengi



Attachments

Klappir árshlutareikningur samstæðu 30.06.2021 Umfjöllun um sjálfbært Ísland